Menu
logo
Vörukarfa
0
Opna körfu
Samtals 0 kr.

22 félagar úr Norsk Folkehjelp heimsóttu Björgunarfélagið Eyvind

Hópurinn frá Nork Folkehjelp ásamt félögum úr Björgunarfélaginu Eyvindi

Helgina 25. til 27.ágúst heimsóttu 22 félagar úr Norsk Folkehjelp í Noregi, Björgunarfélagið Eyvind á Flúðum. Hópurinn er frá Stavangersvæðinu. 

Árið 2015 komu unglingar frá Norsk Folkehjelp í heimsókn til Íslands og heimsóttu þau í þeirri ferð unglingadeildina Vind, hjá Björgunarfélainu Eyvindi. Hóparnir vörðu saman einum degi í hellaskoðun og skemmtilegheitum. Þau buðu svo unglingadeildinni Vind í heimsókn til sín. Vorið 2016 fór hópur frá Vindi í 5 daga heimsókn til Noregs og átti þar frábæra daga.  

Að sjálfsögðu var Norðmönnunum í framhaldinu boðið til Íslands og í þetta skipti var ákveðið að unglingarnir yrðu heima og eldra fólkið fengi að fara.
Hópurinn kom til landsins á fimmtudeginum og byrjaði á því að fara í heimsókn í höfuðstöðvar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og kynntust starfsemi félagsins. Í framhaldinu skoðuðu þau svo aðstöðuna hjá Hjálparsveit skáta í Kópavogi og fræddust um starfið þar.  Á föstudeginum fór hópurinn svo um ferðamannastaði í uppsveitum Árnessýslu og endaði daginn með félögum úr Björgunarfélaginu Eyvindi í Fontana á Laugarvatni þar sem farið var í brauðferð og bað.

Laugardagurinn var tekinn snemma og byrjað var á kynningu á starfsemi Eyvindar, tækjum og tólum. Að því loknu var farið í ferð inná Hrunamannafrétt og endað í Kerlingarfjöllum þar sem gist var. Á sunnudeginum var kjalvegur keyrður heim.
Á meðan hópurinn var í Kerlingarfjöllum var bankað uppá hjá þeim og bornar fram tvær hjálparbeiðnir og var stór hópur af norsku og íslensku björgunarsveitarfólki sem skellti sér í að aðstoða viðkomandi. 

Veðrið var aðeins að stríða ferðalöngunum þessa helgi og sólin og lognið sem voru búin að vera á svæðinu megnið af sumrinu létu sig hverfa.  Norðmennirnir létu það ekki á sig fá og fannst það mjög heimilislegt en þau hafa fengið svona veður síðustu sumur hjá sér og því öllu vön.

Mikið var rætt um björgunarmál og greinilega margt sem hóparnir geta lært hvor af öðrum.

Til baka HringduGerast bakvörður