Slysavarnafélagið Landsbjörg - Annasamur dagur-220 útköll
 
Menu
logo
Vörukarfa
0
Opna körfu
Samtals 0 kr.

Annasamur dagur-220 útköll

Mikið annríki hefur verið hjá viðbragðsaðilum í dag vegna óveðurs sem gengið hefur yfir landið.
Yfir 320 björgunarsveitarmenn frá björgunarsveitum Slysavarafélagsins Landsbjargar, auk slökkviliðs og lögreglu, hafa í dag sinnt yfir 220 útköllum um land allt. Ástandið hefur verið verst á höfuðborgarsvæðinu þar sem beiðnir um aðstoð hafa verið um 120.
Á Blönduósi og Hvammstanga hefur einnig verið annríki hjá björgunarsveitum þar sem 25 verkefni voru leyst og á Suðurnesjum en þar voru björgunarsveitir kallaðar út 15 sinnum.

Nokkuð eignatjón hefur orðið vegna foks en þó mest vegna vatns. Víða hefur flætt í kjallara og eru dæmi um allt að 1 m vatnshæð sem dæla hefur þurft út. Frárennsliskerfi hafa ekki haft undan þannig að gífurlegur vatnselgur hefur myndast á götum þannig að loka hefur þurft fyrir umferð. 
 
Nú hefur veður gengið nokkuð niður á suðvesturhluta landsins en það er enn slæmt á Norðaustur- og Austurlandi og búast má við að veður gangi ekki niður þar fyrr en seint í kvöld.
 
Suðvestanlands má búast við að hvessi aftur með suðvestanátt síðar í kvöld.
 
Viðbragðsaðilar fylgjast áfram grannt með framvindu veðursins og eru tilbúnir til aðgerða ef þörf er á.

Hér fyrir neðan má sjá grófa samantekt á útköllum dagsins á landsbyggðinni:

Á Ólafsfirði og Sauðárkróki losnuðu þakplötur.
 
Á Selfossi og Hveragerði flæddi inn í hús, gróðurhús sprungu og plötur fuku.
 
Í Vestmannaeyjum losnaði klæðning af húsi.
 
Borgarnes – þakplötur og skilti fuku af stað.
 
Suðurnes – um 15 útköll, m.a. fuku skilti, jólaskreytingar, þakplötur og einnig flæddi vatn í hús.
 
Akranes – m.a. fuku plötur af nýbyggingu, skilti fóru af stað og hreinsa þurfti niðurföll.
 
Húnavatnssýsla/Blönduós og Hvammstangi – 25 útköll það sem af er degi. Smáskúr fauk á bæinn Kringlu og braut þar rúður, þök losnuðu af fjárhúsum við bæina Forsæludal og Hrísar, bátar slitnuðu frá í höfninni á Hvammstanga, gróðurhús fauk á Reykjum í Hrútafirði og skilti og þakplötur voru á ferðinni.
 
Snæfellsbær – þak fauk af fjárkofa.
 
Hnífsdalur – þak losnaði og rúða brotnaði.
 
Húsavík – Fánastangir og þakplötur fuku.
 
Varmahlíð – Fok frá nýbyggingu, þakplötur fuku af sumarbústað í Steinsstaðahverfi.
 
Hérað - Lausamunir fuku og athugað með bifreið sem fauk út af veginum við Eiða.
 
Akureyri – þakplötur losnuðu á bænum Heiði og gluggar brotnuðu í sumarbústað á Vaðlaheiði.
 
Sauðárkrókur – Bátar festir í höfninni, þakplötur og bretti fuku af stað.
 
Hvolsvöllur – gróðurhús fest niður.
 
Höfuðborgarsvæðið – Yfir 100 verkefni af ýmsum toga þó mest af vatnstjónum

Til baka HringduGerast bakvörður