Slysavarnafélagið Landsbjörg - MODEX 2014
 
Menu
logo
Vörukarfa
0
Opna körfu
Samtals 0 kr.

MODEX 2014

Alþjóðabjörgunarsveitin tók þátt í rústabjörgunaræfingu í Danmörku sem haldin var á vegum Evrópusambandsins í júní 2014, en helsta markmið æfingarinnar að samhæfa aðgerðir viðbragðsaðila af ólíku þjóðerni. Samhliða æfingunni fór fram endurúttekt sveitarinnar samkvæmt reglum INSARAG, en sveitin stóðst endurúttektina með miklum sóma.

Á hverju ári skella á heimsbyggðinni stórfelldar náttúruhamfarir og hörmungar sem krefjast alþjóðlegrar samvinnu þar sem viðkomandi yfirvöld eru þess ekki megn að takast á við slíkar aðstæður. Samhæfingar- og mannúðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UN Office for Coordination  and Humanitarian Affairs – UN OCHA) leikur þar lykilhlutverk, en International Search and Rescue Advisory Group (INSARAG), sem eru regnhlífarsamtök rústabjörgunarsveita innan Sameinuðu þjóðanna, starfar undir stofnuninni.  Almannavarnakerfi Evrópusambandsins er einnig mikilvægur hlekkur í alþjóðlegri samvinnu á hamfaratímum. Samhæfingarmiðstöð Evrópusambandsins (Monitoring and Information Centre – MIC) og samhæfingarteymi á vegum sambandsins (European Union Civil Protection Team - EUCPT) veita mikilvæga neyðaraðstoð í upphafi  neyðaraðgerða um allan heim.

Evrópusambandið leggur því mikla áherslu á æfingar og þjálfun viðbragðsaðila á vegum sambandsins til að tryggja sem best árangur af starfi þeirra þegar til kastanna kemur, enda fara aðgerðir á hamfarasvæðum fram í afar krefjandi aðstæðum, á erlendu tungumáli og iðulega í framandi menningarheimi  sem eykur álag á samskipti og eru oft á tíðum mikil áskorun fyrir viðbragðsaðila. Æfingin í júní var einn af fjölmörgum æfingum sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur falið Falck að skipuleggja fyrir viðbragðsaðila á vegum sambandsins, en Falck er alþjóðlegt fyrirtæki sem sérhæfir sig í öryggismálum fyrir opinbera aðila og fyrirtæki. Allur útlagður kostnaður vegna æfingarinnar var greiddur af Evrópusambandinu, en kostnaður við endurúttektina var greiddur af utanríkisráðuneytinu.
Gerast bakvörður