Slysavarnafélagið Landsbjörg - Siðareglur félagsins
 
Menu
logo
Vörukarfa
0
Opna körfu
Samtals 0 kr.

Siðareglur félagsins

Sérhverju starfi og hlutverki innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar fylgja tilteknar skyldur og þá um leið tilteknar siðareglur. Siðareglur félagsins eru í samræmi við þær siðareglur sem almennt gilda í samfélaginu. Siðareglur félagsins eru leiðbeiningar um það hvernig starfsfólk og félagar bregðist við þegar siðferðileg álitamál koma upp í störfum þess. Í siðareglunum birtast þau gildi sem eiga að einkenna samskipti innan félagsins. Reglurnar ná til allra félags- og starfsmanna. Siðareglunum er ætlað að auðvelda einstaklingum að rækja störf sín vel. Þær leysa félaga þó ekki undan þeirri ábyrgð að reiða sig á eigin samvisku í siðferðilegum efnum. Mikilvægasta hlutverk siðareglnanna er að veita almennari viðmiðanir um breytni og faglega ábyrgð en lagareglum er ætlað, enda gilda þær áfram þegar hinum lögfestu reglum sleppir. Þessum siðareglum er einnig ætlað að varðveita gott orðspor félagsins, ímynd og trúverðugleika.


Siðareglurnar koma m.a. að gagni á eftirfarandi hátt:

-Gefa skýrt til kynna hvaða gildi eru mikilvæg fyrir menningu félagsins.

-Hvetja til faglegra vinnubragða.
-Auka samkennd og samheldni.
-Upplýsa um þau atriði sem félagið leggur áherslu á í samskiptum við almenning.
-Minnka líkurnar á áföllum og hneykslismálum.


-Við félagar í Slysavarnafélaginu Landsbjörg byggjum starf okkar á megingildum félagsins; forystu, fagmennsku og samvinna.
-Við sýnum góða hegðun í störfum og vanvirðum á engan hátt félagið, markmið þess eða merki.
-Við virðum mikilvægi Slysavarnafélagsins Landsbjargar í samfélaginu og leggjum okkur fram um að félagið verði virt og metið í þjóðfélaginu.
-Við virðum lög og reglugerðir.
-Við virðum öryggi samborgara okkar og högum starfi okkar þannig að ekki skapist hætta af.
-Við gætum þagmælsku um atriði sem við fáum vitneskju um í starfi okkar og leynt skulu fara. Þetta á einnig við um birtingu mynda af slysavettvangi.
-Við virðum þann trúnað sem okkur er sýndur þegar okkur eru falin mikilvæg verkefni.
-Við virðum tilfinningar, friðhelgi og einkalíf annarra þegar slík mál koma upp í störfum okkar.
-Við beitum ekki aðra einelti eða áreitni af neinu tagi.
-Við virðum félaga okkar, skjólstæðinga og samstarfsaðila og gerum ekkert það sem rýrir mannorð okkar og félagsins.
-Við hlýðum stjórnendum aðgerða eða æfinga og fylgjum því skipulagi sem sett hefur verið upp af stjórnendum.
-Við virðum þær vinnureglur sem settar eru svo samhæfing starfa verði góð.
-Við virðum verkefni okkar og samstarfsmanna okkar og gerum það sem þarf til þess að verkefnin megi leysa á skilvirkan og fljótan hátt.
-Við þekkjum skyldur okkar, viðhöldum þekkingu okkar og kynnum okkur nýjungar er varða starfið til að varðveita hæfni okkar.
-Við virðum öryggi og heilsu okkar, samstarfsmanna okkar og skjólstæðinga með því að fara að reglum og þjálfa okkur til að geta aðstoðað aðra í neyð.
-Við sýnum fyllstu aðgát og varkárni við stjórn farartækja og gætum þess að valda ekki slysahættu né skemmdum á verðmætum eða náttúru.
-Við virðum eignir og verðmæti annarra, mannvirki og sögulegar minjar og forðumst að valda spjöllum á þeim.
-Við munum í störfum okkar bera og virða skilgreindan einkennisfatnað Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
-Við virðum merki félagsins við notkun á tækjum okkar og búnaði.
-Við neytum ekki áfengis og vímuefna í einkennisfatnaði félagsins.
-Við leggjum okkur fram um að láta ekki félaga yngri en 18 ára lenda í aðstæðum sem þeir ráða ekki við.
-Við virðum áhuga þeirra og atorku en gerum okkur grein fyrir minni reynslu þeirra.
-Við gætum að því að félagar á útkallslista björgunarsveita skulu vera fullra 18 ára.
-Við gerum okkur ljóst að ef félagar gerast brotlegir við reglur þessar má vísa þeim úr starfi á vegum félagsins, tímabundið eða að fullu.


Einstakar félagseiningar geta sett strangari reglur en verða að gæta þess að tryggt sé að framangreindar reglur séu hluti þeirra.


Reglur þessar ná til félaga í björgunarsveitum, slysavarnadeildum og unglingadeildum og starfsmanna Slysavarnafélagsins Landsbjargar, þegar þeir starfa á vegum þess.

 

Siðareglurnar er hægt að nálgast á PDF hér.
Gerast bakvörður