Slysavarnafélagið Landsbjörg - Kópur 6: Fullbúinn og fjölhæfur björgunarjeppi
 
Menu
logo
Vörukarfa
0
Opna körfu
Samtals 0 kr.

Kópur 6: Fullbúinn og fjölhæfur björgunarjeppi

Í gær fékk Hjálparsveit skáta í Kópavogi afhentan nýjan Land Cruiser 150 jeppa sem breytt hefur verið af Arctic Trucks. Jeppinn er hlaðinn búnaði og tækjum og má fullvíst telja að hér sé kominn fullkomnasti björgunarjeppi landsins.

„Þetta er stór stund hjá okkur því við erum að leysa af hólmi 15 ára gamlan Land Cruiser sem búinn er að reynast okkur vel. Það er mikið öryggismál fyrir félaga sveitarinnar að hafa jafn öflugan og vel búinn bíl til starfseminnar og hann gerir okkur einnig kleift að rækja skyldur okkar betur. Við höfum þá stefnu að vera fjölhæf sveit og því eigum við farartæki af mismunandi gerðum til að nota við allar hugsanlegar aðstæður.  Við erum með tvo snjóbíla, tvo báta, fjóra vélsleða og fullbúinn jeppi eins og þessi sem er léttari en snjóbíll og snar í snúningum og veitir gott skjól er ómissandi til að við getum haft þessa fjölbreytni“ segir Íris Marelsdóttir, formaður Hjálparsveitar Skáta í Kópavogi. 

„Samningur um breytingar á þessum bíl kom í kjölfar farsæls samstarfs á milli Hjálparsveitar Skáta í Kópavogi, Toyota og Arctic Trucks.  Tækni- og verkfræðingar Arctic Trucks ásamt notendahópi Hjálparsveitarinnar lögðu á ráðin um hönnun á þessari breytingu en þetta er fyrsti Land Cruiser 150 bílinn sem breytt er fyrir 44 tommu dekk“ segir Emil Grímsson, stjórnarformaður Arctic Trucks.
Í gegnum breytingar hér á landi og ýmis verkefni erlendis sem Arctic Trucks hefur tekist á við hefur skapast mikil þekking sem nýttist í hönnun og smíði þessa bíls. Bílnum svipar að mörgu leiti til Land Cruiser 120 og byggt var á þeirri reynslu sem breytingar á þeim bíl hafa gefið. Meðal annars má nefna að nýja breytingin lengir hjólabil meira en áður og er fjöðrunarvegalengdin einnig aukin, hvoru tveggja eykur og bætir aksturseiginleika við erfið skilyrði en auk þessa eru fjölmörg stærri og smærri atriði sem hefur verið breytt eða þau bætt.
Við  gerð og hönnun svona breytinga koma fjölmargir aðilar en auk Arctic Trucks og Hjálparsveitarinnar þá má nefna tæknimenn Toyota Íslandi, Bílasmiðju Gunnars Ingva, Skerpu renniverkstæði, AMG Aukaraf o.fl.

Helstu kostir þessa nýja bíls umfram þann eldri sem Hjálparsveitin skiptir nú út, eru meira afl og minni eldsneytiseyðsla, betri aksturseiginleikar og mjög skemmtileg sjálfskipting sem gerir keyrslu í ófærð léttari fyrir ökumann.
 
Myndirnar tók Vilhelm Gunnarsson.

Til baka HringduGerast bakvörður