Slysavarnafélagið Landsbjörg - Slysavarnadeildin á Akureyri 80 ára
 
Menu
logo
Vörukarfa
0
Opna körfu
Samtals 0 kr.

Slysavarnadeildin á Akureyri 80 ára

Slysavarnadeild kvenna á Akureyri var stofnuð 10. apríl 1935 og var haldið upp á 80 ára afmælið með málþingi um slys og slysavarnir þann 11. apríl síðastliðinn. Þess má geta að nafni deildarinnar var breytt fyrir nokkrum misserum í Slysavarnadeildin á Akureyri og er deildin nú opin jafnt konum sem körlum. Á þessum merku tímamótum þótti við hæfi að endurnýja merki Slysavarnadeildarinnar og hannaði Hrannar Atli Hauksson nýtt merki fyrir deildina.

Málþingið var vel sótt og fram komu sérfræðingar um slys og slysavarnir sem fóru yfir sögulegar og tölulegar upplýsingar. Fyrirlesarar voru Dagbjört H. Kristinsdóttir, starfsmaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, hún byrjaði þingið á því að fara yfir sögu slysavarnadeilda en upphaflega voru það konur sjómanna sem stofnuðu fyrstu slysavarnadeildirnar og áherslan beindist aðallega að slysavörnum tengdum sjónum. Ágúst Mogensen frá Rannsóknarnefnd samgönguslysa var með erindi sem byggir á rannsókn á fækkun banaslysa í umferðinni síðustu áratugi, Ágúst fór einnig yfir hundrað ára þróun samgönguslysa. Katrín Halldórsdóttir frá umferðardeild Vegagerðarinnar var með greiningu á alvarlegum slysum á gangandi og hjólandi vegfarendum á tímabilinu 2011-2013. Þá kom Rúnar Þór Björnsson, formaður Nökkva, félags siglingamanna á Akureyri og sagði frá uppbyggingu félagsins við Höfnersbryggju við Drottingarbraut. Rúnar sagði einnig frá reynslu sinni af því að lenda í alvarlegu slysi og að fara í gegnum bataferli. Síðasti fyrirlesarinn var Hrafnhildur Lilja Jónsdóttir, sérfræðingur í bráðahjúkrun, og fræddi hún gesti um skíða- og brettaslys og beinbrot tengd þeim. Í lok málþingsins var frumsýnd stuttmynd frá Félagsmiðstöðinni Tróju um notkun endurskinsmerkja. Þegar búið var að tæma dagskrána voru fyrirspurnir og umræður og voru gestir og fyrirlesarar mjög áhugasamir um málefni slysavarna. Gestum og fyrirlesurum var svo boðið í gott afmæliskaffi að loknu málþingi.

Til baka HringduGerast bakvörður