Slysavarnafélagið Landsbjörg - Dagur reykskynjarans er í dag - Eru þínir í lagi?
 
Menu
logo
Vörukarfa
0
Opna körfu
Samtals 0 kr.

Dagur reykskynjarans er í dag - Eru þínir í lagi?

Mikilvægt er að fara reglulega yfir reykskynjara - prófa þá og skipta um rafhlöðu

Dagur reykskynjarans er í dag, 1. desember, og af því tilefni hvetur Eldvarnabandalagið alla til að prófa reykskynjarana á heimilinu og skipta um rafhlöður eftir þörfum. Sé enginn eða aðeins einn reykskynjari á heimilinu er ágætt tilefni til þess nú í byrjun aðventu að fjölga reykskynjurum og auka þannig öryggi heimilisfólks.

Samkvæmt leiðbeiningum Eldvarnabandalagsins eiga að vera tveir eða fleiri reykskynjarar á hverju heimili. Best er að hafa reykskynjara í öllum rýmum. Þá á að minnsta kosti að setja upp framan við eða í hverri svefnálmu og á hverri hæð á heimilinu. Reykskynjara þarf að prófa fjórum sinnum á ári. Til dæmis 1. desember, um páska, þegar komið er úr sumarleyfi og þegar skólar hefjast á haustin. Styðjið fingri á prófunarhnappinn þar til viðvörunarmerki heyrist. Gott er að leyfa heimilisfólkinu að heyra hljóðið í skynjaranum. Prófið reykskynjara alltaf þegar komið er í sumarhús, einkum ef það hefur staðið autt um hríð.

Ef stutt hljóðmerki heyrist frá skynjaranum á um það bil mínútu fresti þarf að endurnýja rafhlöðuna. Hana þarf yfirleitt að endurnýja árlega og er gott að gera það alltaf á sama tíma, til dæmis 1. desember. Nauðsynlegt er að prófa reykskynjarann þegar skipt hefur verið um rafhlöðu. Þó má benda á að komnir eru á markað reykskynjarar sem geta virkað í tíu ár án þess að skipt sé um rafhlöðu. Líftími reykskynjara er áætlaður um það bil tíu ár.

Samkvæmt könnun sem Gallup gerði fyrir Eldvarnabandalagið og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna er enginn eða aðeins einn reykskynjari á 28 prósent heimila. Þetta hlutfall hefur lækkað úr 38,4 frá árinu 2006 þegar Gallup byrjaði að kanna ástand eldvarna á íslenskum heimilum. Á sama tíma hefur heimilum með fjóra reykskynjara eða fleiri fjölgað úr 21,5 prósent í 31,9 prósent eða um 50 prósent á tíu árum. Könnun Gallup leiðir í ljós að tveir hópar fólks standa lakar að vígi en aðrir þegar kemur að eldvörnum; leigjendur og ungt fólk.

Eldvarnir – handbók heimilisins

Eldvarnabandalagið hefur gefið út ítarlegt fræðsluefni um eldvarnir heimilisins. Við hvetjum þig til þess að kynna þér það vel. Þú getur nálgast efnið hér að neðan:

Til baka HringduGerast bakvörður