Slysavarnafélagið Landsbjörg - 28 börn ekki í öryggisbúnaði hjá ökumönnum sem sjálfir voru í beltum
 
Menu
logo
Vörukarfa
0
Opna körfu
Samtals 0 kr.

28 börn ekki í öryggisbúnaði hjá ökumönnum sem sjálfir voru í beltum

Á myndinni má sjá þróun öryggis barna í bílum frá 1985

Laus börn í bílum voru 80% en eru nú 2%

Nú liggja fyrir niðurstöður könnunar sem starfsfólk Samgöngustofu og félagar í Slysavarnadeildum Slysavarnafélagsins Landsbjargar gerðu á öryggi barna í bílum núna í vor. Könnunin var gerð við 56 leikskóla í 29 þéttbýliskjörnum víða um land og var búnaður hjá 2.060 börnum kannaður. Sambærilegar kannanir hafa verið gerðar undanfarin 32 ár. 

Það vekur athygli að árið 1985 voru um 80% barna alveg laus í bílum en í dag er hlutfall þeirra komið niður í 2%. Í síðustu könnun eru að baki þessum 2% alls 47 ökumenn sem hafa börnin sín beltislaus en auk þeirra voru 108 ökumenn sem höfðu börnin sín aðeins í bílbelti sem er ekki fullnægjandi öryggisbúnaður barna á þessum aldri. Á fyrstu árum þessara kannana voru niðurstöður vægast sagt óásættanlegar eins og sjá má á myndinni hér að ofan.


28 börn voru ekki í neinum öryggisbúnaði í bíl hjá ökumönnum sem sjálfir voru í öryggisbeltum.

Ákveðnar undantekningarnar skyggja á annars jákvæðar niðurstöður könnunarinnar. Vitanlega ber þar hæst sú staðreynd að enn skulu finnast tilfelli þar sem öryggi barnanna er ekki tryggt með fullnægjandi öryggisbúnaði – búnaði sem getur skilið milli lífs og dauða ef slys á sér stað. Það vekur athygli að af þessum tilfellum eru samtals 28 börn sem voru ekki í neinum öryggisbúnaði, ekki einu sinni í öryggisbeltum, í bíl hjá ökumanni sem þó gættu þess að vera sjálfir með öryggisbeltin spennt

 

Öryggisbúnaður þarf að passa bæði barni og bíl

Þegar valinn er öryggisbúnaður er mikilvægt að gefa sér góðan tíma, skoða heimasíður og kynna sér úrval verslana. Búnaðurinn þarf bæði að passa barninu og bílnum. Hægt er að fá upplýsingar á heimasíðum framleiðenda um hvort búnaðurinn passi í tiltekinn bíl eða í bæklingi sem fylgir honum. Þegar öryggisbúnaður er festur í bíl er nauðsynlegt að það sé gert á réttan hátt. Þótt barn sé í öryggisbúnaði getur það slasast alvarlega eða látið lífið í slysi ef búnaðurinn er ekki rétt festur. Því er mikilvægt að lesa vandlega allar leiðbeiningar sem fylgja bílnum og barnabílstólnum.

 

Hér er tenging inn á bækling sem Samgöngustofa hefur útbúið, á sex tungumálum, til leiðsagnar og upplýsinga fyrir foreldra um öryggi barna í bíl.

 

Niðurstöður könnunar og skýrslan í heild sinni er aðgengileg hér á vef Samgöngustofu.

Til baka HringduGerast bakvörður