Slysavarnafélagið Landsbjörg - 11. landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar var haldið á Egilsstöðum 2019
 
Menu
logo
Vörukarfa
0
Opna körfu
Samtals 0 kr.

11. landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar var haldið á Egilsstöðum 2019

11. landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar var haldið 17.-18. maí 2019 á Egilsstöðum.

Um sexhundruðu sjálfboðaliðar frá slysavarnadeildum og björgunarsveitum af öllu landinu sátu þingið og tóku þátt í viðburðum því tengdu. Á þinginu ræddu þingfulltrúar fjölmörg mál varðandi starf félagsins og voru lín­ur lagðar fyr­ir næstu starfs­ár. Hægt er að nálgast upptöku af þinginu á vefnum livestream.com.
Nýr formaður félagsins var kjörinn Þór Þorsteinsson úr Borgarfirði og auk hans voru átta félagar víða af landinu kjörnir í stjórn.

_SOS3262-Edit.jpg

Stjórn félagsins skipa (sjá mynd frá vinstri): Hildur Sigfúsdóttir, Hallgrímur Óli Guðmundsson, Borghildur Fjóla Kristjánsdóttir, Otti Rafn Sigmarsson, Valur S. Valgeirsson, Þór Þorsteinsson (Formaður), Auður Yngvadóttir, Þorsteinn Þorkelsson og Gísli V. Sigurðsson.

Áttavitinn - Viðurkenning félagsins

Við setningu þingsins var viðurkenning félagsins Áttavitinn afhentur einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum sem átt hafa með félaginu náið samstarf og sýnt því mikilvægan stuðning.

Að þessu sinni var eftirtöldum aðilum veittur Áttavitinn;

_SOS0205.jpg

Vodafone hefur verið einn fimm aðalstyrktaraðila félagsins í 11 ár og hefur fyrirtækið þannig stutt félagið dyggilega með myndarlegu fjárframlagi á hverju ári, jafnframt eiga félögin í margháttuðu samstarfi á sviði fjarskiptamála.

Bára Mjöll Þórðardóttir, markaðsstjóri Sýnar tók við Áttavitanum fyrir hönd Vodafone.

Landsbankinn hefur verið einn fimm aðalstyrktaraðila Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá 2016 og hefur bankinn stutt félagið dyggilega með myndarlegu fjárframlagi á hverju ári en bankinn er jafnframt viðskiptabanki félagsins.

Sigurður Ásgeirsson, útibússtjóri Landsbankans í Fjarðarbyggð, tók við Áttavitanum fyrir hönd Landsbankans.

Saga Landhelgisgæslunnar hefur verið samofin sögu Slysavarnafélagsins Landsbjargar í 90 ár. Allt frá upphafi hefur samstarf og samvinna aðilanna verið mjög náið og gott enda um að ræða lykilaðila þegar kemur að leit og björgun.

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar tók við Áttavitanum fyrir hönd Landhelgisgæslunnar.

Óttar Sveinsson er höfundur bókanna sem bera hið kunnuglega heiti ÚTKALL. Á undanförnum 25 árum hefur Óttar átt fjölmörg viðtöl við félagsfólk Slysavarnafélagsins Landsbjargar út um allt land til viðbótar við alla þá heimildaöflun og viðtöl við þolendur áfalla, aðra viðbragðsaðila og fleiri. Óttar heldur ótrauður áfram skrifum sínum og er von á 26. bókinni fyrir lok þessa árs.

Steinar J. Lúðvíksson er höfundur bókaflokksins Þrautgóðir á raunastund en bækurnar fjalla um sjóslysa- og sjóbjörgunarsögu Íslands og komu þær út í 19 bindum á árunum 1969 til 1988. Eins og lesa má í bókum Steinars vann hann þær allar í nánu samstarfi við forvera okkar sem nú skipum Slysavarnafélagið Landsbjörg. Bækurnar Þrautgóðir á raunastund eru því, eins og Útkallsbækur Óttars, mikilsverð og í raun ómetanleg heimild um slysa- og sjóbjörgunarsöguna.

Björgunarleikar og árshátíð

Í tengsl­um við þingið var blásið til Björg­un­ar­leika þar sem björgunarsveitafólk keppti í björgunartengdum þrautum víða um Egilsstaði. Þetta árið voru það 18 harðsnú­in lið frá björg­un­ar­sveit­um sem kepptu sín á milli. Mik­ill heiður fylgir því að sigra í Björg­un­ar­leik­um og hafa mörg af liðunum stundað stíf­ar æf­ing­ar í aðdraganda leikanna. 

Dag­skrá landsþings lauk svo með árs­hátíð laugardagskvöldið 18. maí í Íþróttahúsinu á Egilsstöðum.

Til baka HringduGerast bakvörður