Slysavarnafélagið Landsbjörg - Fyrirlestrar
 
Menu
logo
Vörukarfa
0
Opna körfu
Samtals 0 kr.

Fyrirlestrar

foto_Susanne200x200.jpg

Föstudagur 10:50-11:30 Gullteigur A og B

Slysaskráning sem forvörn á slysum
Susanne Nijaman

Susanne Nijaman hefur starfað hjá VeiligheidNL í Hollandi síðan 2002 við rannsóknir sem m.a. byggja á upplýsingum úr slysaskráningakerfi Hollendinga.Dutch Injury Surveillance System (LIS ) í Hollandi. Rannsóknir hennar spanna ýmsa málaflokka, m.a öryggi barna, neytenda og umferðaröryggi þar sem hún jafnframt verkefnastýrir flestum sínum verkefnum.

Í fyrirlestri sínum mun Susanne fjalla um hvernig slysaskráning er framkvæmd í Hollandi og hvernig hægt er að draga út tölfræði og upplýsingar sem nýtast í slysa- og forvarnastarfi.
Hún mun einnig sýna nokkur dæmi um slysavarnaverkefni sem byggð hafa verið á gögnum slysaskráningar sem að hennar mati er grundvöllur slysavarna.

Sigrún-ljósmynd.jpg

Föstudagur 13:00-13:45 Gullteigur A

Eru margar hraðahindranir enn í veginum?
Sigrún Þorsteinsdóttir:

Mikið hefur áunnist í slysavörnum undanfarin ár og áratugi sem áhugavert er að velta fyrir sér. Farið verður vítt og breytt yfir slysavarnir og ýmsu velt upp. Erum við komin á rétta braut? Dugar að fræða þá sem koma nýir inn eða þurfum við að gera betur? Erum við nógu faglega? Vantar markmið og framtíðarsýn? Erum við að sofna á verðinum? Eru ákveðnir málaflokkar útundan? 

Sigrún A. Þorsteinsdóttir hjúkrunarfræðingur og sérfræðingur í forvörnum hjá VÍS. Hóf störf við forvarnir árið 1999 hjá Slysavarnafélagi Íslands og hefur starfað á þeim vettvangi alla daga síðan.

Jónas200x200.jpg

Föstudagur 13:00-13:45 Gullteigur B

Stýring ferðamanna,öflugasta forvörnin ?
Jónas Guðmundsson

Fjölmenna ferðamannastaði viða á jarðkringlunni heimsækja hundruðir þúsunda og jafnvel milljónir ferðamanna. Eigi að síður er oft á þeim stöðum minni þörf á viðbragðsaðilum og sérstökum forvarnaraðgerðum en á sambærilegum stöðum hérlendis. Í þessum fyrirlestri er reynt að varpa ljósi á viðurkenndar aðferðir í stýringu ferðamanna og hvernig þær sé þeim beitt rétt draga úr slysum svo um munar. Varpað verður upp dæmum frá öðrum löndum svo og hérlendis.

Jónas Guðmundsson er ferðamálafræðingur og horfði sérstaklega til stýringar í öllu sínu námi þ.m.t. lokaritgerð. Hann er menntaður landvörður og leiðsögumaður og hefur starfað við leiðsögn, landvörslu og skálavörslu víða um land. Síðustu sjö árin hefur hann sinnt starfi verkefnastjóra slysavarna ferðamanna hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg en félagið hefur í málaflokknum nýtt sér stýringu ferðamanna í sínu forvarnarstarfi.

Jake-Oliver.jpg

Föstudagur 14:00-14:45 Gullteigur A

Er notkun reiðhjólahjálma árangursík leið til að draga úr höfuðmeiðslum í reiðhjólaslysum?
Jake Olivier

Jake Olivier er Dósent í Háskólanum UNSW í Ástralíu. Hann er upphaflega frá New Orleans en bjó lengi í Mississippi og kláraði þar framhaldsskóla og hóf þar sinn academiska feril. Jake er fyrrverandi formaður Lífupplýsingarfræði deildar Statistical Society of Australia.

Tilvonandi forseti NSW Branch Statistical Society of Australia Inc  Jake situr í ritstjórnarráði tímaritanna, BMJ Open, PLOS ONE, Cogent Medicine og Journal of the Australasian College of Road Safety. Andlag rannsókna hans er öryggi reiðhjólamanna, lýðheilsa og greining á rannsóknum.

Gagnsemi reiðhjólahjálma hefur mikið verið í umræðunni bæði á fræðilegum vettvangi og opinberum frá fyrstu rannsókninni sem birtist árið 1980.

Til að komast að því hvort reiðhjólahjálmar væru árangursríkir í að minnka líkur á höfuðmeiðslum þá tók hann saman fjöldann allan af rannsóknum sem hafa verið gerðar um slys á reiðhjólum. Hann skoðaði yfir 64.000 slys og niðurstöður hans eru þær að hjálmurinn virkar.

Hjálmurinn minnkar líkur á höfuðáverkum, alvarlegum höfuðáverkum og andlitsáverkum án þess að auka hættuna á öðrum áverkum.

karl-klassen.jpg

Föstudagur 14:00-14:45 Gullteigur B

Heildstæð nálgun í snjóflóðaslysavörnum
Karl Karlssen

Ef horft er til stærðar svæða er viðvörunarþjónusta Snjóflóðastofnunar Kanada sú stærsta í heimi en stofnunin horfir til svæðis sem tekur yfir 250.000 km2 og er það fjölbreytt að gerð hvað varðar veður og snjóalög. Daglegar spár eru sendar út á hefðbundin máta auk þess sem samfélagsmiðlar eru nýttir ef þarf svo og blogg sem innihalda nánari lýsingar. Hinsvegar nýtast aðvaranir lítið ef notandinn þekkir ekki til snjóalaga, snjóflóðafræða og hefur ekki þá þekkingu og reynslu sem þarf til að nýta upplýsingarnar. Til að mæta mismunandi þörfum notanda hefur snjóflóðastofnunin innleitt margar aðferðir til að koma viðvörunum og ekki síður fræðslu á framfæri. Haldið er úti fræðslu fyrir börn frá leikskólaaldri að14 ára aldri, snjóflóðanámskeið eru í boði um allt land auk þess sem stofnunin gráðar landslag (terrain rating). Stofnunin leggur þannig áherslu á að hafa heildstætt úrval tóla í boði svo hægt sé að taka réttar ákvarðanir þegar ferðast er um snjóflóðahættusvæði. Öll þessi vinna hefur leitt til þess að síðustu fimmtán ár hefur banaslysum í snjóflóðum fækkað jafnt og þétt þrátt fyrir aukningu í útivist og fjallamennsku.

Karl Klassen er fjallaleiðsögumaður og sérfræðingur í snjóflóðum með 39 ára reynslu í farteskinu m.a. af skíðaleiðsögn, ráðgjöf, kennslu og í snjóflóðaspám. Hann hefur starfað í vesturhluta Kanada, vestur og austurhluta Bandaríkjanna, Evrópu og Nýja Sjálandi. Hann er félagi í alþjóðasamtökum fjallaleiðsögumana og virkukr félagi í fjallaleiðsögusamtökum Kanada svo og Kanadísku snjóflóðasamtökunum. Karl býr með fjölskyldu sinni í Revelstoke, Bresku Kólumbíu og starfar sem viðvörunarstjóri hjá kanadísku snjóflóðastofnunni og yfirleiðsögumaður hjá Monashee Powder Snowcats. 

Einar-Magnús-Magnússon.jpg

Föstudagur 15:00-15:45 Gullteigur A

Af hverju má ég þegar aðrir mega það ekki?
Einar Magnús Magnússon

Snjalltækjanotkun í umferðinni hefur aukist gríðarlega undanfarin ár, í erindi sínu mun Einar meðal annars reyna að svara þessum spurningum:

-Hvað finnst okkur og hvað vitum við um afleiðingar farsímanotkunar við akstur?
-Hvaða áhrif hefur farsímaelskandi ökumaður á ímynd sjálfs síns og fyrirtækisins sem hann starfar hjá?

Einar Magnús Magnússon hefur starfað hjá Samgöngustofu áður Umferðarstofu frá árinu 2004.

Hann starfaði sem upplýsingafulltrúi hjá Umferðarstofu og starfar nú sem sérfræðingur í öryggis- og kynningamálum.

Hann hefur í gegnum tíðina starfað í hjáverkum sem kvikmyndagerðarmaður og ljósmyndari og starfaði áður að fjölmiðla- og auglýsingamálum.

Víðir.jpg

Föstudagur 15:00-15:45 Gullteigur B

Öryggi ferðamanna er órjúfanlegur hluti af almannaöryggi
Víðir Reynisson

Farið yfir mikilvægi og árangur að nálgun samstarfsaðila á Suðurlandi til að auka öryggi ferðamanna. Horft til þess samstarfs og samtals allra hlutaðeigandi aðila varðandi öryggi ferðamanna í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi.

Víðir Reynisson er verkefnastjóri almannavarna á Suðurlandi. Öryggismál ferðamanna hafa verið hluti af hans starfi.

Víðir hefur sinnt almannvarna málum og öryggismálum almennt í rúmlega tvo áratugi. Víðir var starfsmaður Almannavarna ríkisins og síðar almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og deildarstjóri þar frá 2006 til 2015.

Víðir hefur einnig sinnt málefnum er snúa að almannaöryggi erlendis m.a. setið í almannavarnanefnd NATO og ESB og verið formaður starfshóps EFTA ríkjanna um almannavarnir.

Gunnar-Geir-Gunnarsson.jpg

Laugardagur 09:00-09:45 Gullteigur A

Könnun á öryggi barna í bíl
Gunnar Geir Gunnarsson

Gunnar Geir Gunnarsson er verkfræðingur og tölvunarfræðingur frá Háskóla Íslands. Hann hóf störf hjá Umferðarstofu árið 2003 og hefur starfað hjá Umferðarstofu og Samgöngustofu síðan. Hann starfar nú sem deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar hjá Samgöngustofu en sú deild fer með málefni öryggis, fræðslu, slysaskráninga og kynninga í umferð, siglingum og flugi.

Slysavarnafélagið Landsbjörg og Samgöngustofa, áður Umferðarstofa og enn áður Umferðarráð, hafa árum saman staðið saman að könnun á öryggisbúnaði barna í bíl.  Könnunin er framkvæmd framan við leikskóla víðsvegar um land og sýnir könnunin að öryggismál leikskólabarna hafa batnað ár frá ári.  Árið 2017 er þar engin undantekning.

Elías-Gíslason.jpgMagnús.jpg

Laugardagur 09:00-09:45 Gullteigur B

Vakinn – fyrirhyggja í ferðaþjónustu
Elías Bj. Gíslason

Þegar veita á gæðaþjónustu er lykilatriði að setja öryggismálin í öndvegi. Í þjónustu við ferðamenn eykst þessi áhersla jafnvel enn frekar, ekki síst þegar ferðast er um í náttúru Íslands, því slys gera jú oftast boð á undan sér.

Í lok fyrirlesturs Elísar mun Magnús Kristjánsson öryggisstjóri hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Ambassador segja frá reynslu síns fyrirtækis af Vakanum.

Elías er Forstöðumaður gæða- og þróunarsviðs Ferðamálastofu. Hefur starfað innan ferðaþjónustunnar í hart nær fjörutíu ár og hjá Ferðamálastofu frá 1998.

Ósk-Jórunn.jpg

Laugardagur 10:00-10:45 Gullteigur A

Heilsueflandi heimsóknir til aldraða
Ósk Jórunn Árnadóttir

Ósk Jórunn Árnadóttir útskrifaðist sem  sjúkraþjálfari frá HÍ 1988. Hún hefur starfað bæði sem launþegi og sjálfstætt starfandi við almenna sjúkraþjálfun en þó mest með börn.  

Síðustu árin hefur hún starfað sem hreyfistjóri við Heilsugæsluna á Akureyri og Dalvík og við heilsueflandi heimsóknir til aldraðra auk þess að vera með leikfimi fyrir 60 ára og eldri.

Á svæði Heilsugæslunnar á Akureyri hafa heilsueflandi heimsóknir til aldraðra verið hluti af heilsuvernd aldraðra síðan um síðustu aldamót.

Í upphafi var aldursviðmiðið 75 ára en var seinna fært í 80 ára. Í þessum heimsóknum er rætt um eitt og annað er snýr að lífi einstaklingsins og m.a farið yfir ýmislegt er snýr að öryggismálum á heimilinu og í umhverfinu.

20160525_Elin_047.jpg

Laugardagur 10:00-10:45 Gullteigur B

Miðlun og mikilvægi viðvarana og annara upplýsinga um veður og náttúruvá.
Elín Björk Jónsdóttir

Með mikilli aukningu ferðamanna og aukningu vetrarferðamennsku skiptir miklu máli að viðvaranir og spár vegna veðurs og náttúruvár séu skýrar og komist óhindrað til skila, bæði til starfsmanna í ferðaþjónustu, almennings og ferðamannana sjálfra. Með nýju viðvaranakerfi Veðurstofunnar eru gerðar stórtækar breytingar á samskiptum sérfræðinga við almenning. Litaskiptar viðvaranir þar sem samfélagsleg áhrif, landshlutabundin og árstíðarbundin þröskuldsgildi fyrir viðvaranir eru hornsteinn kerfisins sem verður kynnt, ásamt hugmyndum um áframhaldandi þróun á veðurspám og eftirliti með náttúruvá af öllu tagi.

Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur er hópstjóri veðurþjónustu á Veðurstofu Íslands og sinnir einnig hlutverki fagstjóra almennrar veðurþjónustu.

Elín hefur viðamikla reynslu sem spáveðurfræðingur, bæði í gerð veðurspáa og viðvarana fyrir land, sjó og flug. Elín hefur komið að veðurpám og viðvörunum fyrir flesta af alvarlegri náttúruváratburðum síðustu ára, bæði sem spáveðurfræðingur og fagstjóri.

Helstu verkefni Elínar snúa að þróun afurða fyrir veðurspár, þróun viðvarana og framsetningu slíkra gagna, þjálfun starfsfólks Eftirlits- og spásviðs Veðurstofu Íslands, ásamt samskiptum við Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, Vegagerðina, fjölmiðla og almenning.

Elín útskrifaðist með B.Sc. próf í veðurfræði frá Veðurfræðideild Háskólans í Oklahóma og M.Sc. próf í veðurfræði frá Óslóarháskóla. Hún hefur unnið á Veðurstofu Íslands í mismunandi verkefnum frá því 1999 en sem spáveðurfræðingur frá 2010.

Svana.jpgHalldóra.jpg

Laugardagur 11:00-11:45 Gullteigur A

Eurosafe 2017- Hvað eru önnur Evrópulönd að gera- yfirferð og umræður
Svanfríður Anna Lárusdóttir og Halldóra Bjarney Skúladóttir

Helstu ástæður dauðsfalla og meiðsla í Evrópulöndunum í kringum okkur má rekja m.a til slysa í umferðinni, á heimilum og í frístundum. Hvernig eru nágrannalöndin að bregðast við þessari vá? Farið verður með ráðstefnugesti í smá ferðalag um Evrópu og kynnt hin ýmis verkefni sem félagasamtök og stofnanir eru að vinna að.  

Halldóra B. Skúladóttir, Svæfingahjúkrunarfræðingur.Útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskólanum á Akureyri 1994, bætti við sig Diploma námi í svæfingahjúkrun árið 2010 og hefur starfað á Svæfingadeild Sjúkrahússins á Akureyri síðan 2002. Halldóra er félagi í Slysavarnadeilinni á Akureyri og hefur starfað með deildinni í þrjú ár og er einnig í nefnd um slysavarnir á vegum samtakanna.

Svanfríður situr í stjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar og hefur undanfarin ár átt sæti í slysavarnanefnd félagsins og tekið þátt í að rýna störf félagsins og deilda á vettvangi slysavarna. Hún sótti heimsráðstefnuna „Safety 2016“ í Finnlandi og Euro safe 2017 í Amsterdam.  Svanfríður situr jafnframt í sjórn Slysavarnadeildarinnar í Reykjavík og er félagi í Björgunarsveitinni Kjöl á Kjalarnesi.

Magnús-H.jpg

Laugardagur 13:00-13:45 Gullteigur A

Hvernig getum við aukið öryggisvitund okkar
Magnús Hákonarson

Magnús Hákonarson hefur starfað með Hjálparsveit skáta í Kópavogi frá 1987 og hefur tekið þátt í aðgerðum og æfingum alla tíð síðan.  Er með BA próf í sálfræði frá Háskóla Íslands. Starfar meðal annars sem leiðbeinandi í fyrstuhjálp og rústabjörgun.

Öryggismenning – hvernig við upplifum og hegðum okkur í kringum hættur getur verið mjög misjafnt. Kynjamunur, aldursmunur, menntun og fyrri störf eru allt þættir sem hafa áhrif. Innan Slysavarnafélagsins Landsbjargar má jafnvel sjá merki um mismunandi öryggismenningu. Góður ásetningur, ákveðni og kraftur getur verið á kostnað eigin öryggis.

Hildur.jpgHákon.jpg

Laugardagur 13:00-13:45 Gullteigur B

Áhættustjórnun í ferðaþjónustu, fyrir hvern?
Hildur Kristjánsdóttir

Verkefnið er unnið af Verkís í samstarfi við Stjórnstöð ferðamála og verður tilbúið á næstu vikum Meginmarkmið verkefnisins er að til verði samræmt tól til að framkvæma áhættumat á áfangastöðum ferðamanna sem eru í umsjón ríkis eða sveitarfélaga. Þetta áhættumat mun síðan verða til að auka öryggi ferðamanna á áfangastöðum.

Í lok fyrirlesturs Hildar mun Hákon Ásgeirsson sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun segja frá reynslu þeirra af verkfærinu en hann og starfsmenn stofnunarinnar prófuðu það í sumar.

Hildur hefur áralanga reynslu af ýmsum störfum hér heima og erlendis er tengjast ferðaþjónustu.
Hún lærði hótelrekstur í Austurríki, er með BS gráðu í ferðamálafræði frá HÍ og meistaragráðu í verkefnastjórnun frá HR.

Starfsreynsla Hildar innan ferðaþjónustunnar er víðtæk allt frá þjónustustörfum í beinum tengslum við viðskiptavininn til söfnunar og úrvinnslu gagna hjá Hagstofu Íslands.

Hildur hefur verið verkefnastjóri hjá Stjórnstöð ferðamála síðan í mars 2016 og fer fyrir verkefninu áreiðanleg gögn í ferðaþjónustu ásamt öðrum verkefnum.

Birgir-Ómarsson.jpg

Laugardagur 14:00-14:45 Gullteigur A

Flugeldar og forvarnir
Birgir Ómarsson

Birgir hefur unnið að slysavörnum tengdum flugeldum um árabil eða allt frá því að tívolíbombur voru teknar af markaðnum á sínum tíma. Hann hefur unnið með félaginu um langt skeið í markaðs- og forvarnarmálum enda fyrrum björgunarsveitarmaður og þekkir málaflokkinn vel.

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur lagt sig fram í gegnum árin að fækka slysum sem rekja má til flugelda en náðst hefur eftirtektaverður árangur á því sviði. Hættulegar vörur eða gallaðar eru tafarlaust teknar úr umferð auk þess sem vörum er breytt ef þeir þykja varasamar. Flugeldagleraugun breyttu síðan miklu um tíðni augnslysa, fyrst á börnum en hin síðari ár á fullorðnum.

Einar-Pálsson.jpgAudur-Arnadottir.jpg

Laugardagur 14:00-14:45 Gullteigur B

Erlendir vegfarendur og viðbrögð Vegagerðarinnar.
Einar Pálsson og Auður Þóra Árnadóttir

Aukning ferðamanna á vegum landsins er gríðarleg síðustu árin og því hafa fylgt miklar áskoranir. Í erindinu munu Einar og Auður Þóra segja frá vinnu Vegagerðarinnar hvað þetta varðar, til hvaða forvarnaratriða hefur verið gripið, hvaða þjónusta er veitt, hvaða vörnum er beitt og hvernig upplýsingagjöf er háttað.

Einar Pálsson lauk námi í tæknifræði frá tækniskólanum á Helsingjaeyri, Danmörku árið 1987. Síðan meistaranámi í umhverfisfræðum frá University of Manchester (UMIST) 1993. Hefur starfað hjá Vegagerðinni frá árinu 2001 og er nú forstöðumaður þjónustudeildar.

Auður Þóra lauk námi í byggingarverkfræði frá HÍ 1986 og MSc í samgönguverkfræði frá University of Washington, Seattle í Bandaríkjunum 1988. Hefur starfað hjá Vegagerðinni frá 1988 og er nú forstöðumaður umferðardeildar.
Gerast bakvörður