Um skólann

Hlutverk Slysavarnaskóla sjómanna er að halda námskeið fyrir starfandi og verðandi sjómenn um öryggis- og björgunarmál á helstu útgerðarstöðum landsins og annast öryggis- og slysavarnafræðslu fyrir nemendur í skipstjórnar- og vélstjórnarnámi. Slysavarnaskóli sjómanna er í eigu Slysavarnafélagsins Landsbjargar en hann var stofnaður árið 1985 til að sinna öryggisfræðslu fyrir sjómenn. Námskeið skólans eru öllum opin, en á námskrá er að finna námskeið sem henta þeim sem vinna á sjó, við hafnir eða dvelja við leik og störf við ár eða vötn. Frá upphafi hefur verið lögð áhersla á fjölda námskeiða, sem sniðin eru með þarfir íslenskra sæfarenda í huga.

Vorið 2005 fékk Slysavarnaskóli sjómanna, fyrstur skóla á Íslandi, vottorð Vottunar hf. til staðfestingar á að skólinn starfrækti gæðakerfi sem samræmis kröfum í ÍST EN ISO 9001 gæðastaðlinum. Vottorðið tekur til reksturs skólans til að annast fræðslu um öryggis- og björgunarmál sjófarenda, og nær það yfir hönnun, sölu og kennslu á skyldu- og sérnámskeiðum, þ.m.t. öryggisfræðslunámskeiðum samkvæmt STCW alþjóðasamþykktinni (International Convention on Standards of Training, Certification and Watchkeeping for Seafarers).

Slysavarnafélagið Landsbjörg er aðili að Alþjóðasamtökum öryggis- og björgunarskóla, International Association for Safety and Survival Training, og var skólastjóri Slysavarnaskólans formaður í rúman áratug. Slysavarnaskóli sjómanna tók virkan þátt í Leonardo da Vinci verkefninu Securitas Mare og Securitas Mare II. Þá tók hann þátt í Mannaskiptaverkefnum Leonardo áætlunarinnar í þrígang á árunum 2006 til 2014. Þá var skólinn þátttakandi í NPP verkefninu Small Craft Emergency Response and Survival Training for Arctic Condition - SMACS árið 2014. Slysavarnaskólinn hefur tekið þátt í Erasmus+ verkefnum árin 2014, 2017 og 2019.