Fiskibátur fær í skrúfuna á Breiðafirði

29. jan. 2022 - Vesturland

Björgunarskipið Björg var kallað út frá Rifi klukkan 12:47 í dag vegna vélarvana báts sem var á veiðum 15 sjómílur norður af Rifi. Skipverjar höfðu lent í einhverjum vandræðum og fengið í skrúfuna, þeir gátu ekki siglt fyrir eigin vélarafli. Á Breiðafirði var veðrið sæmilegt, kaldi og smá öldugangur. Áhöfn björgunarskipsins var komin með bátinn í tog klukkan 14:20 og sigldi með hann í land sem tók um þrjá klukkutíma.