Hálendisvaktin

Á hverju sumri heldur fjöldi sjálfboðaliða upp á hálendið og er þar til staðar ef óhöpp eða slys verða hjá þeim fjölmörgu sem þar eiga leið um. Frá miðjun júní fram til lok ágúst má finna hópa björgunarfólk að Fjallabaki og eitthvað skemur á Sprengisandi og á svæðinu norðan Vatnajökuls. Síðustu ár hafa þúsundir útivistar- og ferðamanna notið liðsinnis hálendisvaktarinnar.

Á hálendinu síðan 2006

Hálendisvaktin hefur verið í þróun frá sumrinu 2005 er umferðafulltrúar frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg og Umferðaráði voru á hálendinu með það að markmiði að auka umferðaöryggi ferðamanna.

Áður höfðu þessir aðilar verið með umferðafulltrúa sem höfðu það hlutverk að benda á það sem miður fór í umferðamálum og umferðaöryggi, gera kannanir og fræða almenning. Eftir sumarið 2005 ákvað SL að efla slysavarnir á hálendinu og virkja björgunarsveitir félagsinss og sumarið 2006 var verkefninu Björgunarsveitir á hálendinu ýtt úr vör. Síðan þá hefur það vaxið, dafnað og þróast og gerir því sumarið 2025, það tuttugasta í röðinni sem hálendisvaktin hefur verið starfrækt.

Fyrirkomulagið hefur tekið vissum breytingum gegnum árin og eru verkefnin fjölmörg og margvísleg. Með fjölgun ferðamanna hefur þörfin aukist og eiga björgunarsveitir í góðu samstarfi við lögreglu, neyðarlínu, starfsmenn þjóðgarða, skálaverði ásamt öðrum hagsmunaaðilum.

Sumarið 2025 hafa björgunarsveitir haft aðsetur á tveimur stöðum, annars vegar í Landmannalaugum og Herðubreiðarlindum, norðan Vatnajökuls. Á hverju vori er sveitunum skipt niður á vaktir, sem eru vikulangar, og standa yfir hásumarið.

Með þessu verkefni hjálpumst við öll að gera hálendi og náttúru Íslands að öruggari stað. Með viðveru björgunarsveitanna, þjálfun félagsmanna og öflugum tækjabúnaði tryggjum við að það sé hægt að bregðast við með sem skemmstum tíma og á réttan hátt.