Í grunninn erum við bara fólk

Suðurnes

Sara Ómarsdóttir vill að björgunarsveitarfólk setji sjálft sig og fjölskyldur sínar í fyrsta sæti, en er um leið þakklát fyrir „þriðju fjölskylduna“ sem studdi hana vel þegar á þurfti að halda.

Sara gekk fjórtán ára gömul í unglingadeildina Hafbjörgu í Grindavík. Það voru hennar fyrstu skref í björgunar- sveitarstörfum, en í dag hefur hún umsjón með nýliða- þjálfun björgunarsveitarinnar Súlna á Akureyri.

Eftir að hafa orðið fullgild og sérhæft sig í sjóbjörgun tók Sara við unglingadeildinni í Grindavík. Árið 2004 flutti hún norður á Akureyri til að fara í háskólanám, en segir að umhverfið hafi líka togað í sig. „Ég mæli með því að fólk flytji hingað ef það stundar einhvers konar útivist, því það er svo auðvelt. Það bara gerist ekki betra,” segir Sara sem er mikil útivistarkona.

Ekki leið heldur á löngu áður en hún var farin að taka þátt í björgunarsveitarstarfi fyrir norðan. „Ég fer í gegnum nýliðap- rógrammið hér. Samt var ég fullgildur meðlimur í Grundavík en umhverfið hér er bara allt annað. Ég varð svo heilluð af leitarhundum og fór að þjálfa einn, var að því í átta ár og fer í framhaldi í snjóflóðin sem varð svo mín ástríða.“

Þegar leitarhundakaflanum lauk segir Sara að beinast hafi legið við að fara í undanfaraflokkinn hjá Súlum, enda stundi hún mikla vetrarfjallamennsku í bland við skíði og snjóbretti. Árið 2013 var hún svo í hópi sem tók við nýliðaþjálfun í sveitinni, hefur þegar útskrifað tvo árganga af nýliðum og hefur nú tekið við þeim þriðja.

„Það bara gerist ekki betra,” segir Sara sem er mikil útivistarkona."

Sterkari einstaklingar og breiðari hópur

Hluti af breyttri nálgun hópsins við nýliðaþjálfunina fólst í því að taka meira tillit til einkalífs björgunar- sveitarfólks, og gera þannig fleirum kleift að taka þátt. Henni líkaði ekki sú staðalímynd sem var í gangi þegar kom að þjálfun og þátttöku í björgunarsveit. „Þessi ýkta mynd af fólki sem átti að leggja sig allt fram við björgunarsveitarstarfið og leggja nánast allt annað til hliðar. Þú áttir að vera „all in“, þetta átti að vera svona töff. En í grunninn erum við bara fólk, fjölskyldufólk sem eigum vinnu og fjölskyldu og önnur áhugamál líka. Mér fannst mikilvægt að breyta þessum áherslum til að halda fólki hjá okkur, að leyfa fólki að sinna fjölskyldunni sinni. Án fjölskyldunnar geturðu ekki verið í sveitinni, því hún þarf að styrkja þig líka.“

Sara segir að það að minnka áhersluna á að fólk helgi sig sveitinni allan sólarhringinn, alla daga vikunnar, hafi í raun marga kosti. „Þá kemurðu sterkari einstaklingur inn í sveitina. Það eru svo mörg störf innan sveitarinnar sem við þurfum að sinna, og við viljum fá sem flesta. Við minnkuðum áhersluna á að þú verðir að vera klár alltaf, í það að við ætlum að aðstoða þig á þeim tíma sem þú getur. Þú leggur þig fram, en hefur líka möguleika á að sinna fjölskyldunni og vinnunni.“

Við þessa áherslubreytingu á nýliðastarfinu tók Sara eftir breytingu á því hverjir sóttu í starfið. „Við erum komin með breiðari hóp, miklu blandaðri hóp. Við erum ekki bara með ungt fólk sem er nýkomið í framhaldsskóla, heldur erum við að fá inn fullorðið fólk sem sér loksins fram á að geta eytt tíma í svona starf. Að þurfa ekki að hliðra öllu til í tvö ár til að geta komist í sveitina. Allt þetta fólk, sem er búið að slíta barnsskónum, kemur með ákveðna reynslu til okkar.“

Fyrir Söru eru þessar fjölskylduvænu áherslur síður en svo úr lausu lofti gripnar. „Mitt mottó er að fjölskyldan gengur alltaf fyrir. Ég er komin á þann stað í lífinu að ég er ekki tilbúin til að henda frá mér þriggja ára gamalli dóttur minni til að fara að bjarga einhverjum uppi í fjalli. Ef ég hef kost á því, þá að sjálfsögðu geri ég það, en maður þarf líka að hugsa um sitt eigið öryggi og sína eigin fjölskyldu áður en maður hleypur af stað. Og það gerir þetta svo fallegt, af því að við erum svo mörg. Um leið og það eru fleiri komnir inn í starfið get ég leyft mér að vera heima með dóttur mína af því að ég veit að það hleypur einhver í skarðið fyrir mig. Svo þegar ég get, þá kem ég af fullum krafti,“ segir Sara og bætir við: „Það kemur maður í manns stað. Ég veit ekki til þess að einhver hafi dáið af því að ég mætti ekki.“

Minni sérhæfing = betri samvinna

Fyrir utan nýliðaþjálfun hefur Sara verið að kenna á nám- skeiðum fyrir leitarhunda en er einnig yfirleiðbeinandi Björgunarskólans í ferðamennsku og rötun. Hún hefur sterkar skoðanir á sérhæfingu og segir að hún megi ekki verða á kostnað breiðrar þekkingar. „Sérhæfing getur al- veg verið góð og það er gott að einhver sérhæfir sig í hlut- unum, en ef allir fara að sérhæfa sig í einhverju þá „fún- kerum“ við ekki saman sem ein keðja. Í grunninn erum

við öll björgunarsveitarmenn og -konur og við þurfum að kunna ákveðna hluti. Við „fúnkerum“ best ef við kunnum sitt lítið af hverju, en ef allir væru sérhæfðir þá væri erfitt að vinna saman því þá kunnum við ekki handtökin hjá hvoru öðru. Við þurfum að vita um hvað málið snýst. Þar af leiðandi finnst mér mikilvægt að sjóndeildarhringurinn hjá björgunarsveitarfólki sé víður og við kynnum okkur
öll svið og vitum út á hvað þau ganga. Þannig að þegar í harðbakkann slær þá get ég aðstoðað, skiptir engu máli hvað það er. Ég þarf ekki að sitja á rassinum af því að ég hef aldrei áður unnið á bát eða með spotta eða á vélsleða, heldur get ég komið og aðstoðað því ég er búin að kynna mér það og læra. Þó ég sé ekki sérfræðingur í því, þá get ég samt veitt aðstoð,“ segir Sara og bætir við að þeir sem sérhæfa sig leiki þá hlutverk sterka hlekksins í keðjunni. Hinir hlekkirnir verði þó að búa yfir einhverjum styrk líka. „Við erum náttúrulega aldrei sterkari en okkar veikasti hlekkur og um leið og hann slitnar, þá er þetta farið.“

Þriðja fjölskyldan í rauðum flíspeysum

Fjölskyldan skiptir Söru miklu máli og hún lítur á björg- unarsveitina sína, og samfélag björgunarsveitarfólks, sem sína þriðju fjölskyldu. „Síðustu þrjú ár hafa verið svolítill rússíbani. Fyrst fáum við í hendurnar stelpu í varanlegt fóstur. Svo þegar við erum aðlagast þeirri breytingu greinist ég með brjóstakrabbamein og aftur þurfum við að aðlagast. Þá fann ég að það var ekki bara sveitin, heldur félagið líka, sem stóð á bakvið mig, sýndi mér skilning, hjálpaði mér áfram og gerði mér kleift að stíga til hliðar. Björgunarsveitarstörf eru hluti af mér, og hafa verið frá því að ég var unglingur. Það var því mjög mikilvægt fyrir mig á þessum tíma að finna þennan stuðning og þetta bakland sem ég þurfti á að halda.“

Sara segir að gott dæmi um þá samheldni sem ríkir í félaginu hafi verið í jarðarför Eddu Bjarkar Gunnarsdóttur í sumar. „Þegar ég greinist þá vakna ég á deild við hliðina á Eddu Björk, sem var góð vinkona mín. Að hafa hana með mér, og í raun skrifstofuna og félagið, það var ótrúlegt að finna stuðninginn þar. Hún var að ganga í gegnum það sama og í tvö heil ár var ég að styðja við bakið á henni og hún við bakið á mér. Þegar við kvöddum hana svo í sumar var magnað að sjá hversu stór hluti af samtökunum var á staðnum. Þú gast nánast skipt kirkjunni í tvennt; fjöl- skyldan öðrum megin og þriðja fjölskyldan hinum megin. Það segir allt sem segja þarf.“

Spurð um eitt orð sem lýsir Slysavarnafélaginu Landsbjörg stendur ekki á svarinu hjá Söru: „Samstaða. Það skiptir engu máli hvar þú ert á landinu. Ef þú ferð í rauðu flíspeysuna þína og hittir einhvern annan í rauðri flíspeysu, þá eruð þið bara bestu vinir. Þó þú hafir aldrei hitt við- komandi áður,“ segir Sara að lokum.

Takk fyrir að lesa söguna

Sem Bakvörður stendur þú við bakið á sjálfboðaliðum okkar með mánaðarlegum stuðningi.

Gerast Bakvörður
Í grunninn erum við bara fólk
  • Staðsetning
    Akureyri
  • Dagsetning
    31.10.2018
  • Ljósmyndir
    Sigurður Ólafur Sigurðsson
  • Texti
    Höfundur
  • Birtist fyrst í desember 2018
    í Afmælisblaði Björgun

Höldum áfram að gera allt sem við getum

N64° 9' 13" W-21° 56' 58"

Eftirminnilegasta útkallið mitt

N64° 19' 7" W-22° 4' 51"

Þjálfun björgunarsveitarfólks er mjög mikilvæg