Við verðum að vinna saman til að vera hérna

Haustið er mætt í allri sinni dýrð og lægðirnar farnar að detta inn ein af annarri. Verkefni björgunarsveita landsins breytast í samræmi við árstíðirnar og verða tíðari og jafnvel þyngri en verkefni sumarmánaðanna. Þó er engan bilbug að finna á okkar fólki og jafnvel ekki laust við að það fari fiðringur um suma þegar glittir í snjó og veturinn nálgast. Helga Margrét Ingvarsdóttir, aðgerðastjórnandi í Björgunarsveitinni Súlum á Akureyri, er ein af þeim.

„Ég er frá Húsavík, byrjaði í skátunum þar og sá svo um starfið ásamt tveimur öðrum í nokkur ár. Það var alltaf eitthvað þessu tengt sem togaði í mig og í gegnum skátastarfið kynntumst við björgunarsveitunum. Svo er ég náttúrulega alin upp í aftursætinu á jeppa og þvældist mikið um hálendið með fjölskyldunni, bæði að sumri og vetri til. Þar fannst mér tækjabúnaðurinn mjög spennandi og hvernig landið er allt öðruvísi milli árstíða og áskoranirnar aðrar. Þegar ég var 12 ára mátti ég koma með í vetrarferðirnar og kynntist því hvernig þú leggur upp með allt annað plan að vetri en sumri þegar þú ferðast um hálendið. Veðráttan er svo ótrúlega ófyrirsjáanleg og svo getur allt breyst á nokkrum mínútum og þá hefur þú ekkert mikið um málin að segja. Ég á margar góðar minningar með mömmu og pabba úr þessum ferðum. Ég var ekki vinamörg í grunnskóla en samsamaði mig mikið með fullorðna fólkinu og fékk að vera með þeim. Það var mjög dýrmætt.“

Mikilvægt að nýta styrkleika allra

Eins og heitið gefur til kynna hefur aðgerðastjórnandi það hlutverk að koma að stjórnun aðgerða. Finna til og kalla í einstaklinga með viðeigandi hæfni fyrir hvert útkall og, eins og Helga kemst að orði, vera með á hreinu hvað þú átt í búrinu þínu af mannskap og búnaði þegar kallið kemur.
„Aðgerðastjórnandi þarf að geta haldið ró sinni og hugsað út fyrir rammann. Við vinnum auðvitað eftir ákveðnu skipuriti en þurfum líka að vera opin fyrir hugmyndum og tillögum annarra. Það er mikilvægt að geta sett sig í spor annarra, vera skipulagður og geta nýtt styrkleika allra eins vel og mögulegt er. Enginn getur gert allt en allir geta gert eitthvað. Ég gæti ekki verið sigmanneskja í fjallabjörgun, en ég get tekið á móti sjúklingnum og hlúð að honum. Allir í hópnum hafa eitthvað fram að færa og eru mjög verðmætir. Okkar hlutverk er líka að tryggja öryggi fólksins okkar og það kann að hljóma þversagnakennt, en í útkalli er okkar fólk efst í öryggisflokkuninni. Björgunarsveitamaður sem slasast bjargar engum, hann verður bara hluti af aðgerðinni og gerir hana umfangsmeiri.“

Útköllin eru mörg og misjöfn og sum þeirra eftirminnilegri en önnur. Helga segir að eðlilega standi stærstu verkefnin upp úr í minningunni, en hún muni líka vel eftir umfangsminni útköllum, einfaldlega af því að þau eru spennandi. „Útköllin fara oftast vel, en ekki alltaf. Þetta er samt ákveðin sjúkleiki að finnast maður þurfa að vera inni í öllu, sem er svolítið það sem aðgerðastjórnandinn gerir. Margir aðgerðastjórnendur sem ég vinn með búa yfir miklu meiri reynslu en ég og það er mjög mikilvægt fyrir mig að fá að læra af þeim og öðrum fagaðilum í starfinu. Ég er líka í björgunarsveitinni Garðari á Húsavík, sem er minni en Súlur og þar er fámennara samfélag. Ég er ekki aðgerðastjórnandi í svæðisstjórn þar en þarna veit ég samt alltaf í hvern ég á að hringja ef mig vantar eitthvað. Það er til að mynda stór kostur við björgunarsveitir í minnisamfélögum.

Öll þekking nýtist

Björgunarsveitafólk sækir námskeið og reglulega þjálfun til að búa yfir þeirri þekkingu og færni sem þarf til að takast á við krefjandi og oft óvæntar aðstæður. Helga segir þjálfunina mikilvæga og á vissan hátt megi líta svo á að öll sú þekking og allir hæfileikar sem björgunasveitarfólk býr yfir og tekur með sér í útköll, skipti miklu máli. „Ég er á því að öll menntun og þekking sem við viðum að okkur komi til með að nýtast á einn eða annan hátt. Ég er gjörgæsluhjúkrunarfræðingur og finn að allt sem ég hef lært í lífinu nýtist mér í björgunasveitarstarfinu. Þekking á mannlegri hegðun, bílprófið mitt og allt þar á milli. Ég hef verið víða og snert á mörgu á rúmum 30 árum og allt nýtist það. Í björgunarsveitum úti á landi tölum við gjarna um að einhver sé „maður margra flíspeysa“ en ekki hatta eins og það er yfirleitt orðað. Það þekkist nefnilega oft að einhver er í ansi mörgum hlutverkum, til dæmis í björgunarsveit, hjúkrunarfræðingur á gjörgæslu og líka sjúkraflutningamaður.“

Stundum gleymist að við erum sjálfboðaliðar

Svigrúm og skilningur vinnuveitenda er stór forsenda þess að sjálfboðaliðar björgunasveita geti farið í útköll og þar með að starfsemi sem þessi geti yfir höfuð gengið upp. Þótt slíkt sé víðast hvar til staðar eru sum störf þannig að ekki er hægt að stökkva úr þeim með litlum eða engum fyrirvara.„Starfið mitt er þess eðlis að ég get ekki rokið úr vinnunni til að fara í útkall. Við erum hins vegar þrjár á gjörgæslunni sem erum líka á björgunarsveit og ég þarf líka að huga að því hvar mínir kraftar nýtast best. Það er binding að vinna sem hjúkrunarfræðingur á vöktum, ef ég er á kvöldvakt þá fer ég ekkert út úr bænum fyrripart dags til að fara í útkall. Í björgunarsveitinni eru aðrir sem geta stokkið inn í mitt hlutverk sem aðgerðastjórnandi, en það getur ekki hver sem er farið í starfið mitt á sjúkrahúsinu.“

Eftir sem áður er fólkið sem starfar í björgunarsveitum, stórum sem smærri og um allt land, sjálfboðaliðar. Álíka fyrirkomulag þekkist vissulega í öðrum löndum en í fæstum þeirra er starfið á þessum skala, það er að segja að stjórnvöld og ekki síst fólkið í landinu, reiðir sig á sjálfboðaliða björgunasveitanna. „Ég held að það gleymist stundum að við erum sjálfboðaliðar,“ útskýrir Helga. „Það hefur meira að segja komið fyrir að ég gleymi því sjálf. Einu sinni kom upp atvik sem varð til þess að ég fór í algjöran mínus og þá benti félagi mér á að þetta væri sjálfboðastarf. En það er líka kosturinn við að starfa í góðri heild. Þú getur komið inn og verið mjög virk og gert eins og þú getur, en svo kemur kannski tímabil þar sem þú þarft að beina kröftunum þínum annað. Þá tekur þú hlé en kemur svo aftur. Það er líka mikilvægt að muna að ef maður er illa fyrir kallaður eða treystir sér ekki í útkall að láta vita. Í þannig stöðu getur maður gert meira ógagn en gagn og þá er betra að koma bara næst.

Við gerum þetta af því að við viljum hjálpa. Ég held að ekkert okkar sé að biðja um einhverja hetjudýrkun, heldur einfaldlega að okkur sé sýnd kurteisi í krefjandi aðstæðum. Ef björgunasveitarfólk lendir ítrekað í leiðinlegri framkomu í útköllum þá hættir það að vilja mæta í þessi útköll. Þá getum við ekki mannað þau og þá má segja að forsendan fyrir þessu starfi sé brostin. Við erum líka andlit Landsbjargar út á við og þurfum að muna það í öllum samskiptum okkar við aðra, að sýna virðingu, kurteisi og mannhelgi við skjólstæðinga og aðstandendur.“

„Það skiptir öllu máli að fólkið í landinu standi með okkur. Án samfélagsins í kringum okkur sem styður við okkur fjárhagslega og með klappi á bakið, þá væri engin Landsbjörg. Við erum bara fólkið í landinu og við tilheyrum misstórum björgunasveitum. Mín reynsla er sú að björgunasveitarfólk er algjör þverskurður af samfélaginu. Við pössum upp á hvert annað og erum bara eins og hver annar nágranni þinn, en kannski nágranni sem gæti verið búinn að sækja sér menntun og þjálfun til að leita að þér í brjáluðu veðri. Við erum hér fyrir ykkur. Íslenskt samfélag, og kannski sérstaklega íslenskt veðurfar, er bara þannig að við verðum að vinna saman til að vera hérna. Það er að minnsta kosti mín skoðun,“ segir Helga.

Takk fyrir að lesa söguna

Við verðum að vinna saman til að vera hérna

Höldum áfram að gera allt sem við getum

N64° 9' 13" W-21° 56' 58"

Eftirminnilegasta útkallið mitt

N64° 19' 7" W-22° 4' 51"

Þjálfun björgunarsveitarfólks er mjög mikilvæg