Þingsköp landsþings

1. gr. Þingsetning

1.1 Þegar landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar kemur saman skal formaður setja þingið og stjórna fundi þar til kjörið hafa verið starfsfólk þingfundar. Þá skal formaður afhenda þingforseta stjórn þingfundar.

2. gr. Starfsfólk

2.1 Formaður félagsins gerir, í samráði við stjórn , tillögu um hverjir skuli vera starfsfólk þingsins og ber tillöguna undir þingheim. Sérhver þingfulltrúi hefur rétt til að gera tillögu um starfsfólk. Komi fram fleiri tillögur en ein skal þingið kjósa. Einfaldur meirihluti ræður kjöri.

2.2 Kjörið starfsfólk skal vera:

Þingforseti, varaforseti, ásamt regluverði.

2.3 Þingforseti skipar tvo þingritara.

3. gr. Skyldur starfsfólks

3.1 Þingforseti skal vinna eftir þingsköpum þessum og þeim afbrigðum sem þing samþykkir. Þingforseti stjórnar afgreiðslu mála og kosningum.

3.2 Þingforseti stjórnar umræðum og sér um að allt fari fram með góðri reglu. Hann er ábyrgur fyrir því að dagskráin sé haldin. Verði veruleg röskun á framlagðri dagskrá skal þingforseti hið fyrsta gera þingi grein fyrir óhjákvæmilegum breytingum og bera þær upp.

3.3 Vilji þingforseti taka til máls, frekar en staða hans krefur, skal hann víkja sæti og fela varamanni sínum stjórn fundarins.

3.4 Regluvörður skal fylgjast með því að lögum félagsins sé fylgt í hvívetna, ásamt þingsköpum þessum og vera þingforsetum til aðstoðar við túlkun álitaefna sem upp kunna koma á þinginu.

3.5 Ritarar skulu rita óhlutdræga og réttorða fundargerð. Þeir fylgjast grannt með að allar framkomnar tillögur berist til skrásetningar. Þingritarar bera, ásamt þingforseta, ábyrgð á talningu atkvæða við atkvæðagreiðslu, auk þeirra fulltrúa sem þingforseti hefur kvatt sérstaklega til þeirra starfa.

4. gr. Þingmál

4.1 Fyrsta þingmál, að kosningu starfsfólks og nefnda þingsins lokinni, ef ekki liggja fyrir breytingar á þingsköpum, skal ávallt vera starfsskýrsla stjórnar og fjármál. Að því loknu skal gera grein fyrir þeim tillögum og öðrum málum sem fyrir þinginu liggja.

4.2 Þingforseti vísar málum til nefnda og umræðuhópa eftir því sem tilefni gefur til. Engin umræða fer fram um tillögur undir þessum lið.

4.3 Þingfulltrúum er heilmilt að bera fram munnlegar breytingartillögur um ákvörðun um vísan mála til nefnda og starfshópa.

4.4 Eigi má taka mál eða tillögu til umræðu fyrr en það hefur verið skýrt og lesið upp af þingforseta eða framsögumanni.

4.5 Heimilt er flutningsmanni tillögu að draga hana til baka á hvaða stigi sem er, hverjum þingfulltrúa er heimilt að taka hana upp, enda sé það gert innan sama dagskrárliðar.

4.6 Þegar þingmál hefur verið flutt af framsögumanni, skal þingforseti opna mælendaskrá og gefst þá þingfulltrúum tækifæri til að taka einu sinni til máls um efni tillögunnar. Að því loknu gefst flutningsmanni færi til fyrri andsvara. Því næst fá þingfulltrúar að tjá sig öðru sinni og fær flutningsmaður tækifæri til seinni andsvara. Heimilt er þó þingforseta að leyfa að auki stuttar athugasemdir til að fólk geti t.a.m borið af sér sakir eða leiðrétt misskilning.

4.7 Heimilt er hverjum þingfulltrúa að flytja rökstudda frávísunartillögu og sker þingið þá úr með einföldum meirihluta. Engar umræður mega fara fram um frávísunartillögu, utan þess að flutningsaðili aðaltillögu er heimil að veita ein andmæli, og fer atkvæðagreiðslan þegar fram að því loknu. Ekki má greinargerð fylgja með frávísunartillögu.

4.8 Gera má tillögu um breytingar á samþykktri dagskrá. Tillögunni skal fylgja rökstuðningur. Samþykki meirihluti þingfulltrúa slíka dagskrártillögu skal þá þegar breyta dagskrá í samræmi við það, enda sé það heimilt samkvæmt lögum félagsins.

5.gr. Nefndir og umræðuhópar

5.1 Þingforseti stýrir kjöri nefnda skv. gr. 9.5.2 laga félagsins, eftir að hafa skipað fundarritara.

5.2 Á þinginu skulu starfa

Allsherjarnefnd

Kjörnefnd

Og svo umræðuhópar eftir því sem þurfa þykir, til dæmis:

· Umræðuhópur um björgunarmál

· Umræðuhópur um slysavarnir

· Umræðuhópur um unglingamál

Umræðuhópar þessir skulu vera opnir öllum þingfulltrúum. Þingfulltrúar með full réttindi skulu skrá sig þar til starfa. Öðrum er þar heimil seta með málfrelsi og tillögurétti.

6. gr. Starfsvið nefnda og umræðuhópa

6.1 Kjörnefnd skal hefja störf að lokinni kosningu hennar. Hún skal leggja fyrir

þingið framkomin kjörbréf, sem hún hefur úrskurðað gild. Þeir sem þá hafa ekki lagt inn kjörbréf skulu hafa lokið framlagningu þeirra eða leiðréttingum fyrir lok sjötta dagskrárliðar. Kjörnefnd undirbýr kosningu stjórnar í samræmi við lög félagsins.

6.2 Til allsherjarnefndar skal vísa öllum málum sem ekki heyra undir aðrar nefndir eða umræðuhópa þingsins. Til allsherjarnefndar skal einnig vísa þeim málum sem hafa svo víðtæka merkingu að margar nefndir þyrftu ella að koma að afgreiðslu. Í slíkum tilfellum getur allsherjarnefnd leitað álits um einstök atriði hjá þeim nefndum sem um viðkomandi málaflokk fjalla. Allsherjarnefnd skal vinna úr og samræma álitamál sem upp kunna að koma á þinginu og þingforseti vísa málum til.

6.3 Umræðuhópar um björgunarmál, slysavarnir og unglingamál skulu fjalla um fyrirfram ákveðin málefni og taka til umfjöllunar þær tillögur sem vísað er til þeirra.

6.4 Auk áðurtalinna nefnda og umræðuhópa er þinginu heimilt að skipa sérstakar nefndir eða umræðuhópa um einstök mál, sem þingfulltrúar telja að þurfi sérstaka meðferð. Nefnd má skipa á hvaða stigi málsins sem er, enda nefndinni sett skýr tímamörk.

7. gr. Þingfulltrúar

7.1 Hver þingfulltrúi á rétt til að flytja mál á þinginu. Mál sem þingfulltrúar hyggjast flytja skulu hafa borist stjórn félagsins a.m.k fjórum vikum fyrir þing og ber að dreifa þeim rafrænt með öðrum þinggögnum.

7.2 Þingfulltrúi sem óskað hefur eftir að fá að taka til máls og fengið það, skal standa upp úr sæti sínu og mæla þaðan eða úr ræðustól.

7.3 Þingfulltrúa ber að lúta stjórn þingforseta. Honum ber að sýna félögum sínum og skoðunum þeirra fulla virðingu og varast ótilhlýðileg orð.

7.4 Heimilt er hverjum þingfulltrúa að kveðja sér hljóðs um fundarstjórn þingforseta og skal takmarka ræðutíma við tvær mínútur.

7.5 Skylt er þingfulltrúum að mæta til þingfunda á réttum tíma. Þeim er skylt að vera viðstaddir atkvæðagreiðslu.

8. gr. Afgreiðsla þingmála

8.1 Þingmál skulu lögð fram eins og greint er frá í 4. gr. Þaðan er þeim vísað til nefnda og umræðuhópa.

8.2 Breytingartillögur við framlögð þingmál verður að bera upp í viðkomandi nefndum og umræðuhópum til þess að hægt sé að bera þær upp við afgreiðslu þingmála. Komi fram tillaga sem viðkomandi nefnd eða umræðuhópur getur ekki fallist á, getur flutningsaðili endurflutt tillöguna við lokaafgreiðslu þingmála. Þannig verða breytingartillögur á framlögðum þingmálum að fá tvær umræður.

8.3 Ekki er framsöguaðila nefndarálits skylt að greina frá öðrum tillögum en þeim sem viðkomandi nefnd/umræðuhópur hefur ákveðið að leggja fyrir þingið.

8.4 Heimilt er nefnd/umræðuhóp að tilnefna fleiri en einn framsöguaðila fyrir sínu áliti.

8.5 Þyki þingfundi ekki ástæða til að gera ályktun um mál getur hann vísað því til stjórnar félagsins.

9. gr. Atkvæðagreiðsla

9.1 Atkvæðagreiðsla fer venjulega fram með handauppréttingu. Nafnakall má hafa, ef atkvæðagreiðsla er óglögg að mati þingforseta eða ef þingheimur krefst þess. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum við afgreiðslu almennra þingmála og þingskapa, en tveir þriðju hluta atkvæða þarf til að samþykkja lagabreytingar. Mál telst fallið við nafnakall ef meirihluti þingfulltrúa greiðir ekki atkvæði. Framkvæma skal stjórnarkjör eins og getið er um í félagslögum.

10. gr. Gildi þingskapa

10.1 Þingsköpum þessum má aðeins breyta á landsþingi. Liggi breytingartillaga á þingsköpum fyrir skal þingforseti kynna hana fyrst allra mála og vísa til allsherjarnefndar. Heimilt er þingforseta að óska afbrigða og að þing starfi eftir tillögu, ef hún er lögð fyrir af til þess kjörinni milliþinganefnd, enda verði tillagan afgreidd á yfirstandandi þingi.

11. gr.

11.1 Þingsköp þessi öðlast þegar gildi.

Þingsköp þessi voru samþykkt á landsþingi félagsins í Reykjavík 4. september 2021