Að ganga í félagið

Í nærri hundrað ár hafa sjálfboðaliðar Slysavarnafélagsins Landsbjargar verið til taks þegar náttúruöflin láta að sér kveða eða slys eða óhöpp verða.

Félagið er regnhlífasamtök 93 björgunarsveita og 36 slysavarnadeilda um allt land. Ef þú vilt vinna með okkur er fyrsta skrefið að velja hvar þú vilt beita þér.

Á höfuðborgarsvæðinu eru nokkrar sveitir starfandi sem og öflugar slysavarnadeildir. Í flestum byggðarlögum er starfandi björgunarsveit og í mörgum þeirra slysavarnadeild. Á kortinu má sjá hvar björgunarsveitir, unglingadeildir og slysavarnadeildir eru staðsettar. Ferlið er misjafnt hjá hverri sveit, en flestar bjóða upp á sérstaka nýliðaþjálfun, sem yfirleitt hefst á haustin. Hafðu samband við þá sveit eða deild í þínu nærumhverfi og þig langar að vinna með.

Með því að smella á dropana á kortinu, birtast upplýsingar um hvernig hægt er að komast í samband við viðkomandi sveit eða deild. Flestar þeirra eru einnig með viðveru á samfélagsmiðlum og þú getur leitað þá sveit sem þér hugnast þar til að komast í samband við hana.

Hleður korti

Hverjar eru kröfurnar?

Það getur reynt talsvert á þol og þrautseigju að starfa í björgunarsveit. Það er kostur að vera í þokkalegu líkamlegu formi og eiga nokkuð góðan útivistarfatnað.

En fyrst of fremst er það áhuginn sem er lykilatriði og að vera orðinn 18 ára.

Nýliðaþjálfun er einstök innan hverrar björgunarsveitar en nýliðar fara í gegnum stöðluð námskeið í Björgunarskólanum á nýliðatímabilinu.

Björgunarskólinn býður upp á Kjarna námskeið fyrir nýliða þar sem meðal annars eru kennd grundvallar atrið í ferðamennsku og rötun, fjarskiptum, að starfa innan félagsins og síðast en ekki síst grunn námskeið í skyndihjálp.

Unglingadeildir

Fjölmargar björgunarsveitir bjóða upp á unglingastarf. Veldu unglingadeildir á kortinu til að sjá hvar næsta unglingadeild er starfrækt.

Unglingadeildir eru almennt fyrir aldurinn 13 til 18 ára, en er aðeins misjafnt eftir deildum. Unglingarnir fá svipaða þjálfun og nýliðar með það að leiðarljósi að eftir starf í unglingadeild er viðkomandi fær um að ganga inn í björgunarsveit.

Slysavarnadeildir

Slysavarnadeildir sinna veigamiklu hlutverki í starfi félagsins. Þær eru gríðarlega sterkur bakhjarl björgunarstarfsins auk þess sem þær sinna slysavörnum innan síns starfssvæðis með markvissu forvarnarstarfi.

Engar sérstakar kröfur eru um inngöngu í slysavarnadeild aðrar en þær að hafa áhugann á að gefa af sér til mikilsverðra málefna.

Eins og þessi yfirferð ber með sér er boðið upp á þá þjálfun og menntun sem þú munt þurfa á að halda.

Ef þig hefur langað að taka þátt, ekki hika við að setja þig í samband við þá einingu félagsins sem hentar þér að vinna með.