Fjárframlög einstaklinga til Slysavarnafélagsins Landsbjargar eru frádráttabær frá skatti.* Á það við hvort sem um er að ræða einstakar gjafir til félagsins eða reglulegan stuðning Bakvarða.
Styrktaraðilinn þarf ekkert að aðhafast. Slysavarnafélagið Landsbjörg kemur upplýsingum um alla frádráttabæra styrki** til Skattsins og við það lækkar skattstofn styrktaraðilans á viðkomandi almanaksári. Afslátturinn nemur tekjuskatthlutfalli þess sem veitir styrkinn en hlutfallið er breytilegt eftir tekjum. Styrkveitingar koma því fram á skattframtali hvers og eins.
Dæmi***
1) Bakvörður sem stendur við bakið á björgunarsveitum landsins með 2.500 króna framlagi á mánuði (samtals 30.000 krónur á almanaksári) fær 11.385 krónur endurgreiddar í formi skattaafsláttar.
2) Bakvörður sem styrkir björgunarsveitir landsins með 2.500 króna framlagi í dag en vill hækka framlagið um sem nemur skattaafslættinum getur hækkað mánaðarlegt framlag sitt upp í 4.000 krónur. Endurgreiðsla af 4.000 krónum eru rúmar 1.500 krónur. Endurgreiðsla frá Skattinum verður þá 18.216 krónur í stað 11.385.
Einstaklingar geta fengið skattaafsláttinn þegar samanlögð styrkupphæð til félaga á almannaheillaskrá Skattsins er á bilinu 10.000 (lágmark) til 350.000 krónur (hámark) á almanaksári. Nánari upplýsingar má finna á skatturinn.is.