Sjóvá og Slysavarnarfélagið Landsbjörg hafa lengi átt farsælt samstarf um forvarnir og öryggismál og hefur Sjóvá verið aðalbakhjarl Landsbjargar allt frá stofnun samtakanna.
Félögin vinna náið saman að ýmsum öryggismálum og fjölbreyttum forvarnaverkefnum. Sem dæmi styrkti Sjóvá kaup Landsbjargar á þremur nýjum björgunarskipum um 142,5 milljónir, en kaupin voru fyrsti liðurinn í endurnýjun allra 13 björgunarskipa félagsins. Þá unnu Sjóvá og Landsbjörg saman að gerð Safetravel.is og Safetravel appsins, sem Sjóvá kostaði þróunina á. Sjóvá var einnig bakhjarl Landsbjargar við endurhönnun á Björgvinsbeltinu og hefur stutt við mikilvægt starf Hálendisvaktarinnar. Félögin hafa unnið lengi saman að forvörnum tengdum flugeldasölu um áramót, þar sem öryggisgleraugu hafa verið gefin og athygli vakin á mikilvægi þeirra.
Sjóvá tryggir eignir og búnað björgunarsveita um allt land og sér til þess að björgunarfólk samtakanna, sem starfar oft við mjög erfiðar aðstæður, sé eins vel tryggt og kostur er. Starfsfólk Sjóvá er stolt af samstarfinu við Landsbjörg og þakklátt fyrir það hversu mörg þörf og góð verkefni það gefur stöðugt af sér.