Átta sinnum öflugri með Bakvörðum

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar eru skipaðar sjálfboðaliðum. Ólíku fólki sem sinnir fjölbreyttum störfum en er tilbúið að hverfa strax frá daglegum verkefnum ef kallið kemur. Bakverðir eru sömuleiðis fjölbreyttur hópur fólks um allt land sem velur að styðja við björgunarsveitirnar með mánaðarlegu framlagi sínu og mynda þannig styrktarsamfélag sem er mikilvæg stoð í öllu okkar starfi.

Verkefni björgunarsveitanna hafa aldrei verið fleiri. Á sama tíma hefur fjölgað jafnt og þétt í röðum Bakvarða og nú standa átta Bakverðir á bak við hvern sjálfboðaliða björgunarsveitanna. Fyrir þennan stuðning erum við innilega þakklát því Bakverðir eru ómetanlegur hluti af starfi Slysavarnafélagsins Landsbjargar um land allt hvort sem er við kaup á nauðsynlegum búnaði eða þjálfun og endurmenntun sjálfboðaliða.

Með ykkur á bak við okkur erum við svo miklu öflugri. Saman myndum við sterka heild sem stendur þétt saman og er ávallt til taks, sama hvað á dynur.

Við gætum þetta einfaldlega ekki án ykkar. Takk fyrir.