Oft leynast slysagildrur nær en okkur grunar. Það er ýmislegt hægt að gera til að gera heimilið að öruggari stað. Félagar í slysavarnadeildum um land allt vinna reglulega að forvörnum og félagið gefur út gátlista og bæklinga sem hjálpa til við að skoða heimilið með forvarnir í huga.
Heimili og nærsamfélag
Öryggi barna á heimilum
Í mörgum bæjarfélögum á landinu fá nýbakaðir foreldrar nýburagjafir frá slysavarnadeildinni á staðnum sem er gjarnan samstarf með ungbarnaeftirliti heilsugæslunnar í viðkomandi sveitarfélagi. Gjöfin inniheldur oft handverk sem konur í deildinni hafa prjónað, heklað eða saumað sjálfar, en einnig öryggisvörur eins og heyrnaskjól, innstunguhlífar, baðhitamæli og læsingar á skápa. Sumum fylgir reykskynjari. Þar eru einnig bæklingar og gátlistar til að ungir foreldrar geti yfirfarið heimilið og lámarkað slysahættu.
Eldvarnir á heimilinu
Slysavarnafélagið Landsbjörg tekur þátt í Eldvarnabandalaginu, samstarfsvettvangi um eldvarnir. Slysavarnadeildir dreifa bæklingum um eldvarnir og gefa árlega hundruði reykskynjara til unglinga og eldri borgara víða um landið. Eldvarnabandalagið hefur gefið út ítarlegt fræðsluefni um eldvarnir heimilisins, eitthvað sem allir eiga að kynna sér vel. Nauðsynlegar brunavarnir hverju heimili eru reykskynjarar, slökkvitæki & eldvarnarteppi. Einnig er mikilvægt að hafa ákveðnar flóttaleiðir og að allir heimilismeðlimir þekki flóttaleiðina.
Öryggi eldri borgara
Vegna líkamlegra breytinga sem fylgja hækkandi aldri skerðist jafnvægið og viðbrögð verða seinni en með aðgát og fyrirbyggjandi aðgerðum má draga úr slysahættu á heimilinu. Með því að fara yfir gátlista og gera breytingar með litlum tilkosnaði eða fyrirhöfn er hægt að gera heimilið að öruggari stað fyrir alla fjölskylduna. Slysavarnafélagið Landsbjörg gefur út bækling með gátlista sem hægt er að nálgast á heilsugæslustöðvum eða hjá björgunarsveitum og slysavarnadeildum í heimabyggð.
Slysavarnafélagar heimsækja reglulega félagsmiðstöðvar eldri borgara til að spjalla um hættur á heimilinu.