Hjól og hjálmar

Hjólið

Þegar hjólið er tekið úr geymslu þarf að yfirfara og hafa í lagi öll öryggisatriði. Skoða dekkin, keðjuna, keðjuhlíf, bremsur og bjöllu. Muna að það þarf að vera ljós að framan og glitaugu bæði að framan og aftan.


Þegar hjólað er af stað er rétt að hafa í huga að fyrir hjólreiðafólk gilda að mestu sömu lög og reglur um reiðhjól og önnur ökutæki í umferðinni.

Það má hjóla á akbrautum og þá á hjólreiðamaður að halda sig hægra megin á þeirri akrein sem er lengst til hægri. Þó er mælt með því að nota frekar göngu- eða hjólastíga ef hægt er að koma því við, sérstaklega þar sem mikill hraði er á umferð.

Hjálmurinn

Mikilvægt er að skoða hjálminn vel, tryggja að hann sé óbrotinn, passi enn á höfuðið, sé rétt stilltur og sitji rétt á höfði. Það er skylda að börn yngri en 16 ára séu með hjálm.

Hjólreiðamaður þarf af gefa hljóðmerki þegar hann nálgast gangandi vegfarendur ef ætla má að þeir verði hans ekki varir. Virðum umferðarreglur og sýnum öðrum vegfarendum bæði kurteisi og tillitsemi.

Umferðareglur

Það má hjóla á gangstéttum og göngustígum en hjólreiðamaður skal þar víkja fyrir gangandi vegfarendum og sýna þeim fulla tillitsemi. Ef hjólað er á gangstétt eða göngustíg, má ekki hjóla á meiri hraða en telst eðlilegur gönguhraði.