Íslandsspil - Staðreyndir og framtíðarsýn

Rekstur spilakassa á Íslandi

Á Íslandi reka tvö fyrirtæki spilakassa, Íslandsspil og Happdrætti Háskóla Íslands. Hagnaður Íslandsspila rennur til hjálpar- og mannúðarstarfsemi en hagnaður HHÍ til viðhalds og nýbygginga við Háskóla Íslands.

Árið 2018 var markaðshlutdeild spilakassa Happdrættis Háskóla Íslands 64% og hlutdeild Íslandsspila 36%. Þá höfðu tekjur á þessum markaði aukist um 21% frá 2015 og rann tekjuaukningin öll til HHÍ. Helsta ástæða þessarar sterku stöðu HHÍ er sá að fyrirtækin lúta ólíkum lögum og reglugerðum sem skapar óeðlilega samkeppni. Samkeppnin kristallast í því að ríkið, eigendi HHÍ, útvegar sér betri heimildir í samkeppni við eigendur Íslandsspila, líknar-, mannúðar- og hjálparsamtök sem öll gegna veigamikilum og mikilvægum hlutverkum í íslensku samfélagi.

Íslandsspil er með tiltölulega lág efri mörk vinninga í spilakössum sínum, eða 20 þúsund krónur í söluturnum og 100-300 þúsund á vínveitingastöðum. Spilakassar Íslandsspila eru alls 390 á 75 stöðum stöðum um allt land. Rýmri heimildir í lögunum gera HHÍ aftur á móti kleift að starfrækja spilakassa með mun hærri vinningum en hjá Íslandsspilum.

Happdrætti Háskóla Íslands rekur Gullnámuna og Gullregn í 27 spilasölum um allt land með tæplega 500 spilakössum. Kassar Gullnámunnar eru samtengdir milli spilastaða og bjóða upp á margra milljón króna söfnunarpotta. Uppsöfnunin er auglýst á skiltum innan og utan spilastaðanna og á vefsíðu HHÍ. Hæsti vinningur er breytilegur, allt að 17 milljónir króna og getur hann verið að safnast upp á nokkrum vikum. Vísbendingar eru um að þeir sem eiga við spilavanda að stríða séu líklegri til að spila í samskonar kössum og Happdrætti Háskólans rekur; þar sem vogunin er mikil og vinningsvonin há. Pottasöfnun af þessu tagi er sambærileg við það sem tíðkast í erlendum kasínóum t.d. í Las Vegas og Macao. Hún þekkist hins vegar ekki í peningaspilum í Evrópulöndum.Árið 2018 voru tekjur Íslandsspila 1.337 mkr. og tekjur af spilakössum HHÍ 2.384 mkr. Rekstrarkostnaður Íslandsspila er um 40% af tekjum og rekstarkostnaður spilakassa HHÍ um 60% af tekjum.

Önnur peningaspil hér á landi

Lottó, getraunir, happdrætti, erlend netspilun og íþróttaveðmál á netinu velta mun hærri fjárhæðum en þær sem fara í gegnum spilakassana. Á árinu 2020 voru tekjur Íslenskrar getspár (Lottó og getraunir) áætlaðar 4,4 milljarðar króna og hagnaðarhlutfall 30%. Samkvæmt gagnaöflunarfyrirtækinu H2 Gambling Capital spiluðu Íslendingar fyrir 4,5 milljarða króna á tíu vinsælustu erlendu netspilasíðunum árið 2019. Þátttaka landsmanna í peningaspilum er því með afar fjölbreyttu móti og lætur nærri að í heild spili þeir fyrir 14 milljarða króna á ári. Vinningar eru ekki inni í þessari tölu, heldur eingöngu þær tekjur sem verða eftir og standa undir rekstrarkostnaði og hagnaði.

Spilatekjur streyma úr landi

Peningaspilun landsmanna á erlendum vefsíðum hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. H2 Gambling Capital telur að rúmlega 150 erlendar netspilasíður séu í boði hér á landi. Vinsælustu leikir þeirra eru spilakassar og íþróttaveðmál og 45% af allri netspiluninni fer fram í snjallsímum og spjaldtölvum. Á sama tíma hafa tekjur af íslenskum peningaspilum farið lækkandi. Engar innlendar vefsíður með spilaleikjum og rauntíma veðmálum standa til boða hér á landi og skýrir það ásóknina í erlendar síður með slíku efni. Flestir sem leyfi hafa til að reka happdrætti og önnur peningaspil hér á landi hafa talað fyrir því að stjórnvöld heimili rekstur innlendra netspilasíðna. Nánar er hægt að lesa um þær tillögur hér fyrir neðan.

Úrbætur á Norðurlöndunum

Hluti þeirra sem taka þátt í peningaspilum eiga við spilavanda að stríða. Á hinum Norðurlöndunum hefur verið gripið til áhrifaríkra aðgerða til að draga úr líkum á því að fólk missi tökin á fjármálum sínum eða lífi vegna spilafíknar. Samhliða hefur innlendri netspilun verið komið á og rekstrarumhverfi peningaspila einfaldað til að lækka kostnað og fá betri yfirsýn. Íslandsspil hefur talað fyrir því árum saman að hér á landi verði farin sama leið í þessum efnum og á Norðurlöndunum, en fengið litlar undirtektir stjórnvalda.

Spilakort til að takast á við spilavanda

Á Norðurlöndunum hefur verið tekið upp aðgangskort (spilakort) fyrir öll peningaspil. Spilakortið gerir fólki kleift að takmarka og hafa yfirsýn yfir spilaútgjöld sín. Ekki er hægt að nota spilakassa eða taka þátt í öðrum innlendum peningaspilum (þar á meðal lottó) nema hafa umrætt kort sem veitir aðgang. Kortið nýtist til að halda fjárhæð spilunar innan ákveðinna marka sem spilarinn ákveður fyrirfram og getur ekki breytt fyrr en einhverjum dögum síðar. Hann getur líka lokað fyrir aðganginn. Samtök áhugafólks um spilafíkn (SAS) hafa mælt með upptöku á slíku spilakorti hér á landi. Tekjur af spilakössum hafa minnkað töluvert á Norðurlöndunum við upptöku spilakortanna, sem bendir til að þau virki vel fyrir þá sem mestu eyða.

Nauðsynleg sameining peningaspilafyrirtækja

Til að spilakortin virki þurfa þau að gilda í öllum peningaspilum. Þetta hefur leitt til þess að fyrirtæki sem bjóða peningaspil á Norðurlöndunum hafa verið sameinuð á eina hendi í hverju landi fyrir sig. Góðgerðar-, mannúðar- og líknarsamtökin sem hafa haft peningaspilin á sinni könnu standa nú utan við reksturinn og er styrkjum úthlutað til þeirra af hagnaði peningaspilanna. Þessar ráðstafanir hafa leitt til þess að rekstrarkostnaður peningaspila hefur lækkað umtalsvert og vegur það á móti minnkandi tekjum af spilakössum.

Um leið og peningaspilin voru komin undir einn hatt á Norðurlöndunum sköpuðust aðstæður til að ráðast í gerð og markaðssetningu innlendra netspilaleikja. Markmið þess var að halda tekjum af netspilun innanlands og hafa þau áform heppnast afar vel. Innlendu netspilaleikirnir eru vinsælir og hafa tekið við af erlendu spilasíðunum að miklu leyti. Spilakort þarf til að taka þátt í þessum leikjum, líkt og öðrum peningaspilum á Norðurlöndunum.

Lítið þokast hér á landi

Íslandsspil og Happdrætti Háskóla Íslands hafa átt í viðræðum um upptöku spilakorts, en þær málaleitanir eru skammt á veg komnar. Ljóst er að til að ná sem bestum árangri þyrfti að sameina rekstur allra peningaspilafyrirtækja hér á landi undir einn hatt. Stjórnvöld þurfa að koma að málum af krafti og ljóst er að töluverðar lagabreytingar þurfa að eiga sér stað. Áhugi af hálfu stjórnvalda hefur hins vegar verið lítill.

Ætti að banna spilakassana?

Oft er því haldið fram að lausnin á spilavanda einstaklinga sé að banna spilakassa. Freistingarnar hverfa þó ekkert, og þá síst hjá þeim er glíma við spilavanda. Spilakassar eru vinsælustu peningaspilin á erlendum netsíðum, sem segir allt sem segja þarf. Helsti árangur þess að banna spilakassa væri að flytja tekjurnar úr landi. Erlend netspilun, íþróttaveðmál og getraunir eru ekkert á förum. Stóra spurningin er hvort Íslendingar vilji halda tökum á þessari starfsemi og stuðla að úrbótum fyrir fólk í spilavanda, eða missa hana alveg til útlanda og geta þá lítið sem ekkert gert til að bæði vernda fólk með spilavanda og að beina tekjum af peningaspilum til almannahagsmuna eins og kveðið er á um í lögum um happdrætti.

Þörf fyrir hófstilltari spilakassa

Ljóst er að Happdrætti Háskóla Íslands fer út á ystu nöf með framboði hárra spilavinninga og uppbyggingu spennu fyrir gullpottinum sem getur farið í 17 milljónir króna. Fyrirtækið kallar marga spilastaði sína „Casino slots“ jafnvel þó slík starfsemi sé ekki leyfð hér á landi. Til samanburðar er hæsti vinningur hjá Íslandsspilum 20 þúsund krónur á almennum sölustöðum og 300 þúsund krónur á vínveitingastöðum.

Með sameiningu fyrirtækja sem leyfi hafa til reksturs peningaspila á Íslandi væri hægt stöðva innlenda samkeppni, og þar með dempa niður framboðið af ánetjandi spilaframboði með lækkun hæstu vinninga og að stöðun uppsöfnunar vinningspotta. Viðbúið er að slíkar ráðstafanir leiði til lægri tekna, en á móti vegur lækkun rekstrarkostnaðar, fyrirkomulag peningaspilamarkaðarins og síðast en ekki síst, almannahagur.