Lög um Slysavarnaskóla sjómanna

Um Slysavarnaskóla sjómanna eru gildandi lög nr. 33, frá 19. mars 1991 með síðari breytingum. Þar segir:

1. gr.

Slysavarnafélagið Landsbjörg skal starfrækja Slysavarnaskóla sjómanna og fer Slysavarnafélagið með yfirstjórn skólans er starfar á vegum þess og ábyrgð.
Markmið skólans er að auka öryggi sjómanna með fræðslu og þjálfun í meðferð björgunar- og öryggisbúnaðar og almennri fræðslu um slysavarnir á sjó.
Slysavarnafélagið Landsbjörg skal halda fjárreiðum skólans aðskildum frá öðrum rekstri og starfsemi félagsins og er í þeim tilgangi heimilt að hafa rekstur skólans í sérstöku félagi.

2. gr.

Slysavarnaskóli sjómanna skal halda námskeið fyrir starfandi og verðandi sjómenn um öryggis- og björgunarmál á helstu útgerðarstöðum landsins og annast öryggis- og slysavarnafræðslu fyrir nemendur í skipstjórnar- og vélstjórnarnámi.

Aðalkennslugreinar skólans eru: Fræðsla um öryggismál, slysavarnir, björgunaraðferðir, skyndihjálp, flutningur sjúkra og slasaðra, meðferð björgunarbúnaðar, slökkvibúnaðar og reykköfunartækja.

3. gr.

Ráðherra skipar fimm manna skólanefnd Slysavarnaskóla sjómanna til fjögurra ára í senn. Einn skal tilnefndur af Sjómannasambandi Íslands, einn af Félagi skipstjórnarmanna og þrír tilnefndir af Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Ráðherra skipar einn fulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar formann skólanefndar.
Meginhlutverk skólanefndar er að vera ráðgefandi um fagleg málefni Slysavarnaskólans. Skólanefnd gerir, að fenginni umsögn öryggisfræðslunefndar sjómanna, tillögur til stjórnar Slysavarnafélagsins Landsbjargar um námskeiðahald, námsskrá og lengd námskeiða á vegum skólans.

4. gr.

Slysavarnafélagið Landsbjörg ræður skólastjóra Slysavarnaskóla sjómanna, að fenginni umsögn skólanefndar en um mannaráðningar fer samkvæmt lögum félagsins.

5. gr.

Kostnaður við rekstur skólans skal greiddur úr ríkissjóði samkvæmt þjónustusamningi.

6. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.