Umferðin

Upp úr árinu 1954 beindust slysavarnir félagsins í æ ríkara mæli að umferðarslysum og hafa gert allar götur síðan þá. Einingar félagsins standa fyrir hjólreiðadögum, heimsækja skóla landsins, gefa hjálma, endurskinsmerki, endurskinsvesti og á síðustu árum hefur félagið staðið fyrir landsátökum eins og “Vertu snjall undir stýri” þar sem fjöldi fyrirtækja merkti atvinnubíla sína til að hafa áhrif á símanotkun undir stýri.Í dag leggur félagið ríka áherslu á slysavarnir í umferðinni enda á ábyrgð okkar allra að breyta viðhorfi og aksturshegðun í umferðinni.

Örugg á ferðinni

Flest slys í umferðinni verða vegna mannlegra mistaka og er það því á ábyrgð okkar allra að hegðun okkar í umferðinni sé í samræmi við reglur og aðstæður hverju sinni til þess að allir komist heilir heim.Með markvissum forvörnum sem miða að viðhorfsbreytingum hrindir félagið nú af stað öflugri herferð á öllum tiltækum miðlumundir kjörorðinu „Örugg á ferðinni“ Ásamt Safetravel verkefninu minnum við íslenska ökumenn og aðra í umferðinni á m.a. notkun öryggisbelta, öryggi barna í bíl, hraðakstur og snjalltækjanotkun undir stýri.

Hjálmar, reiðhjól og rafhlaupahjól

Á vorin eru haldnir hjóladagar í skólum um landið þar sem Slysavarnadeildin skipuleggur í samstarfi við skólann, björgunarsveitina og lögreglu. Þar eru hjólaþrautir, hjólin skoðuð og allir hjálmar stilltir.Slysavarnafélagið Landsbjörg prentar plaköt með leiðbeiningum um öryggi hjálma og reiðhjóla og þau eru hengd upp í hverjum skóla, frístundaheimilum og íþróttamiðstöðvum.Undanfarin ár hefur félagið einnig lagt áherslu á nýjasta fararmátann í umferðinni þ.e. rafhlaupahjólinn.

Óvarðir vegfarendur/endurskin

Árlega stendur félagið fyrir vitundarvakningu í notkun endurskinsmerkja og félagseiningar um allt land gefa endurskinsmerki í þúsundatali og á nokkurra ára fresti er endurskinsvestum dreift í alla leik- og grunnskóla sem yngstu börnin nýta í vettvangsferðum með skólanum.Samhliða þessu er árlega farið í auglýsingaherferð á samfélagsmiðlum til að minna á mikilvægi þess að vera sýnilegur í umferðinni.

Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa

Björgunarsveitir og slysavarnadeildir hafa víða um land skipulagt minningastundir í nóvember undanfarin ár í samstarfi við aðra viðbragðsaðila á alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa. Dagurinn er hugsaður til að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni og um leið til þess að fólk leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni.

Umferðaröryggiskannanir

Félagsfólk gerir reglulegar kannanir í umferðinni í samstarfi við Samgöngustofu.

Allar götur frá níunda áratug síðustu aldar hefur Slysavarnafélagið Landsbjörg gert könnun á öryggi barna í bílum. Könnunin er gerð annað hvert ár við rúmlega 50 leikskóla í 25 þéttbýliskjörnum víða um landið.

Félagseiningar hafa undanfarin fimm ár framkvæmt umferðarkönnun á u.þ.b. 40 gatnamótum víðsvegar um landið.

Nýlega hófu unglingadeildir félagsins að kanna notkun hjálma á reiðhjólum og rafhlaupahjólum á fjölförnum hjóla- og göngustígum. Fyrirhugað er að þetta verði árlegt verkefni.