Umferðin

Rafhlaupahjól

Rafhlaupahjól eru hönnuð til aksturs frá 6 til 25 km. hraða á kl.st. og á Íslandi má ekki keyra þau hraðar. Hjólið þarf að hafa öflugt hvítt ljós að framan og rautt að aftan og endurskin bæði framan og aftan.

Engin aldursmörk eru á notkun rafhlaupahjóla en alltaf skal fylgja viðmiðum framleiðenda hjólanna og hjólaleigur eru oftar en ekki er 18 ára aldurstakmark.

Rafhlaupahjól eiga að vera á hjóla- og/eða göngustígum og gangstéttum. Ekki á götum eða akbrautum.

Ökumenn rafhlaupahjóla lúta sömu reglum og aðrir ökumenn þegar kemur að fjölverkavinnslu. Ekki nota snjallsíma við akstur og alls ekki nota hjól eftir að hafa neytt áfengis.

Við biðjum aldrei um far á rafhlaupahjóli. Einn á hverju hjóli, annað er hættulegt og alveg bannað með lögum.

Munið að sýna öðrum tillitsemi. Leggjum rafhjólinu þannig að það hindri ekki för vegfarenda, valdi slysahættu eða óþægindum. Ekki leggja á miðri gangstétt, við rampa, gönguþveranir eða fyrir inngöngum húsa.

Við mælum með því að allir á rafhlaupahjólum noti hjálm öryggis vegna, óháð aldri og minnum á að 16 ára og yngri þurfa alltaf að nota hjálm.

Sérðu eitthvað vitlaust?

Hjálmar og reiðhjól

Á vorin eru haldnir hjóladagar í skólum um landið þar sem Slysavarnadeildin skipuleggur í samstarfi við skólann, björgunarsveitina og lögreglu. Þar eru hjólaþrautir, hjólin skoðuð og allir hjálmar stilltir. Slysavarnafélagið Landsbjörg prentar plaköt með leiðbeiningum um öryggi hjálma og reiðhjóla og þau eru hengd upp í hverjum skóla, frístundaheimilum og íþróttamiðstöðvum.

Örugg á ferðinni

Flest slys í umferðinni verða vegna mannlegra mistaka og er það því á ábyrgð okkar allra að hegðun okkar í umferðinni sé í samræmi við reglur og aðstæður hverju sinni til þess að allir komist heilir heim.Með markvissum forvörnum sem miða að viðhorfsbreytingum hrindir félagið nú af stað öflugri herferð á öllum tiltækum miðlumundir kjörorðinu „Örugg á ferðinni“ Ásamt Safetravel verkefninu minnum við íslenska ökumenn og aðra í umferðinni á m.a. notkun öryggisbelta, öryggi barna í bíl, hraðakstur og snjalltækjanotkun undir stýri.

Veltibíllinn

Slysavarnafélagið Landsbjörg tók við rekstri Veltibílsins af Brautinni, bindindisfélagi ökumanna í nóvember 2023. Veltibíllinn hefur farið um land allt frá árinu 1995 og boðið vegfarendum á öllum aldri að upplifa það að bílbeltin skipta öllu máli þegar til kastanna kemur.

Tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á umferðaröryggi og starfsfólk bílsins ræðir við þátttakendur um öryggi bílbelta, notkun snjalltækja og afleiðingar annara lausamuna í bíl. Sérstaklega fæst tími til þess þegar grunn- og framhaldsskólar eru heimsóttir.

Félagið stefnir að því að grunnskólar í öllum landshlutum fái heimsókn á þriggja ára fresti í framtíðinni.

Óvarðir vegfarendur/­endurskin

Árlega stendur félagið fyrir vitundarvakningu í notkun endurskinsmerkja og félagseiningar um allt land gefa endurskinsmerki í þúsundatali og á nokkurra ára fresti er endurskinsvestum dreift í alla leik- og grunnskóla sem yngstu börnin nýta í vettvangsferðum með skólanum.Samhliða þessu er árlega farið í auglýsingaherferð á samfélagsmiðlum til að minna á mikilvægi þess að vera sýnilegur í umferðinni.

Alþjóðlegur minningardagur um fórnarlömb umferðarslysa

Björgunarsveitir og slysavarnadeildir hafa víða um land skipulagt minningastundir í nóvember undanfarin ár í samstarfi við aðra viðbragðsaðila á alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa. Dagurinn er hugsaður til að minnast þeirra sem látist hafa í umferðinni og um leið til þess að fólk leiða hugann að ábyrgð hvers og eins í umferðinni.

Umferðaröryggis­kannanir

Félagsfólk gerir reglulegar kannanir í umferðinni í samstarfi við Samgöngustofu.

Allar götur frá níunda áratug síðustu aldar hefur Slysavarnafélagið Landsbjörg gert könnun á öryggi barna í bílum. Könnunin er gerð annað hvert ár við rúmlega 50 leikskóla í 25 þéttbýliskjörnum víða um landið.

Félagseiningar hafa undanfarin fimm ár framkvæmt umferðarkönnun á u.þ.b. 40 gatnamótum víðsvegar um landið.

Nýlega hófu unglingadeildir félagsins að kanna notkun hjálma á reiðhjólum og rafhlaupahjólum á fjölförnum hjóla- og göngustígum. Fyrirhugað er að þetta verði árlegt verkefni.