Austan hvassviðri með snjókomu og skafrenningi

5. feb. 2022 - Suðurland

Snarpur hvellur gekk yfir suðurlandið snemma morguns með tilheyrandi hvassviðri og skafrenningi, björgunarsveitir voru kallaðar út vegna ófærðar. Skafrenningurinn olli því að færð spilltist hratt víða og var Hellisheiði, Þrengslum, Lyngdalsheiði og Suðurstrandavegi lokað snemma dags.

Björgunarsveitafólk kom starfsfólki heilbrigðisstofnana til aðstoðar við að komast til vinnu og fylgdi sjúkrabíl í útkall vegna veikinda. Hvellinum fylgdi töluvert af aðstoðarbeiðnum vegna ófærðar á stuttum tíma og kom björgunarsveitafólk rúmlega 20 manns til aðstoðar. Í einhverjum tilfellum var hægt að losa fasta bíla en öðrum farþegum var komið í skjól og bílar skildir eftir.

Þegar farið var að nálgast hádegi var veðrið að ganga niður en þó var slæm færð víða og fólk beðið um að fara varlega og bíða með ónauðsynleg ferðalög.

    Flestar heiðar austur af höfuðborgarsvæðinu voru lokaðar fram undir hádegi
    Lyngdalsheiði var lokað klukkan 7:44