Göngukona slasast á fæti á gönguleiðinni Síldarmannagötum í Hvalfirði

6. júlí 2022 - Vesturland

Bera þurfti konuna tæpa 2 kílómetra að sjúkrabíl

Björgunarsveitir á Vesturlandi voru kallaðar út á fjórða tímanum í dag að gönguleiðinni Síldarmannagötum innst í Hvalfirði. Tilkynnt var um konu sem var á göngu, hrasaði og slasaðist á fæti og gat ekki gengið að sjálfsdáðum. Hún var staðsett ofarlega í hlíðum fjallsins í um 400 m hæð og voru sjúkraflutningamenn og björgunarsveitarfólk komið að henni upp úr klukkan fimm. Bera þurfti konuna niður gönguleiðina tæpa 2 kílómetra að sjúkrabíl.

Klukkutíma eftir að útkallið í Hvalfirði barst voru björgunarsveitir á snæfellsnesi kallaðar út í annað skiptið í dag, nú vegna konu sem féll af hestbaki í Löngufjöru. Sjúkrabíll komst ekki á vettvang og var því óskað eftir aðstoð björgunarsveita til að flytja hana. Verkefnið var fljótleyst í samstarfi sjúkraflutningamanna og björgunarsveitarfólks og allir komnir niður rétt fyrir sjö um kvöldið.

    Nokkuð stór hópur viðbragðsaðila kom að verkefninu enda þurfti að bera konuna langa leið niður bratta hlíðina.