Krapaflóð á Patreksfirði

26. jan. 2023 - Vestfirðir

Að morgni 26. janúar féll lítið krapaflóð niður úr Geirseyrargili á Patreksfirði. Tilkynning um flóðið barst Neyðarlínu kl 10:03 og voru boð send á allar björgunarsveitir á sunnanverðum Vestfjörðum strax í kjölfarið. Talsverð úrkoma hafði verið um nóttina og morguninn, en hún mældist rétt um 30 millimetrar á Patreksfirði.

Óvíst var á þessum tímapunkti hvort einhver hefði orðið fyrir flóðinu, en fljótlega kom í ljós að svo var blessunarlega ekki. Flóðið var í sama farvegi og mannskæð krapaflóð sem féllu fyrir 40 árum og tveimur dögum betur. Í þetta sinn var flóðið talsvert minna.

Strax var lokað fyrir umferð fólks í gegnum farveg flóðsins, meðan staðan var metin. Samhæfingarstöð Almannavarna var virkjuð og í kjölfarið lýst yfir hættustigi. Mat ofanflóða sérfræðinga Veðurstofu varð fljótlega á þann veg að ekki væri þörf á rýmingum á Patreksfirði, en lokunum var haldið áfram, en mat Veðurstofu var að þrátt fyrir að ekki væri þörf rýminga, gætu komið smærri spýjur í kjölfarið.

SMS skilaboð voru send á bæjarbúa til að upplýsa þá um stöðu mála og fólk beðið að halda sig frá hættusvæði.

Skömmu síðar féll áþekkt krapaflóð í Búðargili á Bíldudal, fór upp á varnargarða en olli ekki tjóni.

Hættuástandi var aflétt um hádegið, götur hreinsaðar og opnað fyrir umferð í kjölfarið. Björgunarsveitarfólk var þó áfram til taks og fylgdist með þróun mála fram eftir degi.