Björgunarsveit í Borgarfirði var kölluð út rétt fyrir klukkan átta í kvöld vegna konu sem slasaðist á fjallgöngu í Kvígindisfelli norðaustur af Hvalvatni. Konan hrasaði í hlíðum fellsins og slasaðist á fæti og gat ekki gengið niður að sjálfsdáðum. Björgunarsveitarfólk og sjúkraflutningamenn frá Heilbrigðisstofnun Vesturlands héldu á vettvang með sexhjól og búnað til þess að hlúa að konunni. Fyrirhugað var að flytja konuna niður á sexhjóli að sjúkrabíl.
Stuttu áður en sexhjólið kom á vettvang kom þyrla frá Landhelgisgæslu Íslands og gat lent nálægt staðnum þar sem konan var. Konan var tekin um borð í þyrluna sem flutti hana til Reykjavíkur.