Lokanir: Snjókoma og hvassviðri á suðvesturlandi

31. jan. 2022 - Suðurland

Björgunarsveitir voru beðnar um að manna lokanir austanmegin á Hellisheiði og Þrengslum af Vegagerðinni klukkan 13:30, vegna veðurs og slæmrar færðar. Tilkynningar fóru síðan að berast upp úr klukkan tvö um fasta bíla í Lögbergsbrekku í Svínahrauni og voru tveir hópar kallaðir til úr Reykjavík. Þeir keyrðu Hellisheiði að Kömbum og Þrengslin, og leituðu af sér allan grun um fólk í vanda. Nokkrir bílar höfðu setið fastir en í flestum tilfellum voru viðkomandi búnir að ná að leysa úr þeim flækjum sjálfir. Héldu hóparnir því til baka í bækistöð um klukkan 16 og stuttu síðar voru vegirnir opnaðir aftur.

Fyrr um daginn var björgunarsveit á Hvolsvelli kölluð út þar sem þak var að fjúka af skemmu við bóndabæ í grennd. Einn hópur fór á vettvang og var það verkefni leyst í samstarfi við eiganda og sjálfboðaliðarnir komnir aftur til síns heima klukkutíma eftir að útkallið barst.