Vilhelm Þorsteinsson strandar í Norðfirði

28. nóv. 2022 - Austurland

Hafbjörg til bjargar

Í hádeginu var áhöfn Hafbjargar kölluð út þegar fjölveiðiskipið Vilhelm Þorsteinsson tók niðri á sandrifi við hafnarmynni Norðfjarðarhafnar.

Engin hætta var á ferðum, logn og spegilsléttur sjór. Hafbjörgin fór út að skipinu ásamt Barða NK sem lá í höfn á Norðfirði. Áhöfn Hafbjargar flutti taug milli Vilhelms og Barðans svo sá síðarnefndi gæti dregið Vilhelm af strandstað. Hafbjörg fór svo aftur að Vilhelm og ýtti á bakborðshlið skipsins, á sama tíma sem Barðinn dró. Klukkan 14, um klukkustund eftir útkall, var svo Vilhelm laus af strandstað. Hafbjörg dró svo skipið að bryggju. Bilun hafði komið upp í skrúfubúnaði Vilhelms með þeim afleiðingum að skipið varð vélarvana og rak afturábak þar til það tók niðri á sandrifinu. Aðgerð var lokið rétt fyrir 16:00, þegar Vilhelm var kominn að bryggju á Norðfirði.