Fjárhagslegar upplýsingar

Slysavarnafélagið Landsbjörg eru samtök björgunarsveita og slysavarnadeilda. Aðildareiningar þess eru fjárhagslega sjálfstæðar. Innan þeirra starfa sjálfboðaliðar sem sinna mikilvægum verkefnum fyrir samfélagið. Reksturinn er afar kostnaðarsamur sem felst meðal annars í þjálfun og menntun félagsmanna, rekstri húsnæðis og tækja ásamt þeim forvarna- og slysavarnaverkefnum sem sjálfboðaliðarnir sinna.

Á meðan þjóðin treystir á félagið treystir félagið hins vegar á fjárhagslegan stuðning almennings og fyrirtækjana í landinu.

Einingarnar afla sér fjár með ýmsu móti líkt og flugeldasölu, kaffisölu á mannamótum, gæslu, dósasöfnun, jólatrjáasölu, sölu Neyðarkalls svo eitthvað sé nefnt. Félagið aflar einnig fjár til reksturs og úthlutunar fjármagns til eininga þess.

Samkeppnisrekstur

Slysavarnarfélagið Landsbjörg heldur úti ýmsum fjáröflunarleiðum. Tvær þeirra eru skilgreindar sem samkeppnisrekstur skv. ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Um er að ræða sölu félagsins á sjúkrakössum annars vegar og hins vegar innflutningi og sölu á flugeldum í heildsölu til aðildareininga. Báðar einingarnar hafa verið mikilvægur þáttur í fjáröflun á starfsemi félagsins og aðildareininga um árabil.

Aðskilnaður, rekstur og uppgjör samkeppniseininga

Í samræmi við ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins (SKE) er rekstri samkeppniseininga félagsins haldið aðskildum sem sér rekstrareiningum í bókhaldi og uppgjörum félagsins. Gerð eru sérstök rekstraruppgjör fyrir báðar einingarnar með reglubundnum hætti en þær eru svo hluti af heildarrekstri í ársreikningi félagsins. Velta og beinn kostnaður eininganna er færður á rekstur þeirra og hlutdeild í sameiginlegum kostnaði og viðskipti við félagið sjálft eru byggð á armslengdargrunni sem jafnan er raunkostnaður að viðbættu álagi. Einu tekjur deildanna eru sala til þriðja aðila og björgunarsveita.

Árlega staðfestir endurskoðandi félagsins að rekstraruppgjör samkeppniseininganna liggi fyrir og að viðskipti milli þeirra og félagsins séu á armslengdargrunni . Frá og með ársuppgjöri 2021 mun staðfesting endurskoðenda verða birt hér.

  • Kennitala félagsins er 560499-2139
  • Bankareikningur er 133-26-000555
  • Lögheimili þess er Skógarhlíð 14, 105 Reykjavík

Bakverðir

Mörgþúsund Bakverðir standa þétt við bakið á sjálfboðaliðum björgunarsveita og slysavarnadeilda um allt land með mánaðarlegu framlagi. Reglulegur stuðningur Bakvarða er ein af mikilvægum fjáröflunum félagsins í dag og gerir einingum þess betur kleift að skipuleggja starf sitt til lengri tíma.

Slysavarnafélagið Landsbjörg stýrir og heldur utan um Bakvarðaverkefnið en kemur stuðningi Bakvarða áfram til eininga félagsins. Stuðningur Bakvarða nýtist ekki síst fámennari sveitum í stórum og strjábýlum byggðarlögum sem hafa eðli málsins samkvæmt færri tækifæri til að afla sjálfar fjár en þær einingar sem stærri eru.

Flugeldamarkaðir björgunarsveita

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar selja flugelda undir vörumerkinu Flugeldamarkaðir björgunarsveitanna. Björgunarsveitirnar eru leiðandi í sölu flugelda hér á landi og reka hátt í 120 sölustaði hver áramót. Slysavarnafélagið Landsbjörg flytur flugeldana inn og sér um markaðs- og öryggismál sem og heildarskipulag sölunnar. Allur ágóði sölunnar verður eftir hjá viðkomandi björgunarsveit sem sér um smásölu flugelda í sínu byggðarlagi.

Flugeldasala hefur verið ein af aðal fjáröflunum björgunarsveita í yfir 50 ár.

Neyðarkall

Neyðarkall björgunarsveitanna á sér orðið langa sögu og hefur verið fjáröflun fyrir aðildareiningar félagsins síðan.

Hagnaður af sölunni rennur til björgunarsveita og slysavarnadeilda og er hann notaður til að efla og styrkja starf þeirra.

Sjúkrakassar

Félagið hefur selt sjúkrakassa og sjúkravörur síðan á níunda áratug síðustu aldar. Boðið er upp á margar stærðir sjúkrakassa sem henta vinnustöðum, heimilum, skólum og bílum. Frá upphafi hefur verið kappkostað við að nota eingöngu gæðavörur með löngum líftíma.

Sjúkrakassaþjónustan býður upp á reglulega yfirferð sjúkrakassa þar sem þjónustuaðili mætir á staðinn og fer yfir innihaldið og fyllir á, eftir þörfum.

Skjótum rótum

Rótarskot er leið til að styrkja starf félagsins og aðildareininga þess og um leið að styðja við skógrækt í landinu. Verkefnið gefur af sér tré sem er gróðursett í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands og fjölmargar deildir þess um land allt.

Gróðursett hafa verið tugþúsund tré undanfarin ár.

Íslandsspil

Slysavarnafélagið Landsbjörg á 31,25% í Íslandsspilum á móti 68,75% eignaraðild Rauða kross Íslands. Tekjur Íslandsspila eru mikilvægar fyrir rekstur félagsins og einingar þess.

Opinber framlög

Slysavarnafélagið Landsbjörg er með samninga við ráðuneyti um þjónustu og samstarf á sviði leitar- og björgunarmála, rekstur Slysavarnaskóla sjómanna, Alþjóðabjörgunarsveitar og slysavarnir ferðamanna (Safetravel).