Öryggisstefna

Stefna Slysavarnafélagsins Landsbjargar er að tryggja öllum félagsmönnum og starfsmönnum eins öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi og frekast er unnt. Markmiðið er að enginn félagsmaður eða starfsmaður bíði heilsutjón af starfi sínu eða verkefnum á vegum félagsins.

Í starfsemi félagsins er gert ráð fyrir að fylgt sé öllum kröfum samkvæmt lögum og reglum og að sífellt sé unnið að endurbótum sem stuðla að auknu öryggi félagsmanna, starfsmanna, samstarfsaðila og viðskiptavina.

-Við sækjum þau námskeið í Björgunarskólanum og Slysavarnaskóla sjómanna sem fjalla um öryggis- og vinnuverndarmál til að minnka líkur á slysum og óhöppum.
-Við sækjum okkur þekkingu í björgunar- og slysavarnamálum bæði erlendis og innanlands til að miðla og nýta í verkefnum á vegum félagsins.
-Við gerum kröfu um að aðstaða, tæki og búnaður sé í góðu ástandi og uppfylli öryggiskröfur.
-Við ætlumst til að búnaður sem notaður er í starfi félagsins sé skoðaður og prófaður reglulega og standist þær öryggiskröfur sem til hans eru gerðar.
-Við viljum að gerðar verði áhættugreiningar fyrir sérstaklega vandasöm svæði og staði, svo sem jarðgöng og jökla, og ætlumst til að slíkar greiningar verði gerðar svo fljótt sem auðið er í samvinnu við aðra viðbragðsaðila og heimamenn.
-Við gerum áhættugreiningar fyrir vandasöm verk sem við þurfum að vinna þar sem við gerum okkur grein fyrir verkþáttum, greinum áhættu og finnum leiðir til að vinna verkin án þess að taka óþarfa áhættu. Við æfingar er sérstaklega mikilvægt að taka ekki óþarfa áhættu.
-Við hvetjum til virkrar þátttöku aðgerðastjórnenda í þjálfun á öryggismálum.
-Við þekkjum og vinnum í samræmi við skráðar öryggisreglur félagsins og gildandi vinnuverndarreglur til að tryggja öryggi fólks, búnaðar og starfsumhverfis.
-Við notum undir öllum kringumstæðum viðeigandi öryggisbúnað, hlífðarfatnað og persónuhlífar.
-Við tökum virkan þátt í að framfylgja öryggisstefnu félagsins.