1. gr. Markmið
1.1. Tilgangur þessarar reglugerðar er að lýsa unglingastarfi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, skyldum félagseininga sem starfrækja unglingdeild og þau skilyrði sem félagsmaður þarf að uppfylla til þess að gerast umsjónamaður.
2. gr. Gildissvið
2.1. Reglur þessar gilda um starf allra félagseininga félagsins með ungmennum undir 18 ára aldri svo sem unglingadeildir, nýliðaþjálfun og starf á vegum slysavarnadeilda.
3. gr. Orðskýringar
3.1. Félagið: Slysavarnafélagið Landsbjörg
3.2. Félagseining: Björgunarsveit eða slysavarnadeild sem þegar hefur hlotið aðild að félaginu og hefur eigin kennitölu.
3.3. Landshlutamót: Vettvangur þar sem unglingadeildir innan hvers fjórðungs hittast og eru haldin það ár sem landsmót er ekki.
3.4. Landsmót: Vettvangur þar sem öllum unglingadeildum á landinu gefst kostur á að hittast. Landsmót eru haldin annaðhvert ár.
3.5. Umsjónamaður: Sá aðili sem er falin ábyrgð á starfi unglingadeildar sem starfar innan vébanda félagseininga félagsins. Umsjónarmaður hefur þá ábyrgð að aðstoða unglingana eftir bestu getu.
3.6. Unglingadeild: Hópastarf fyrir unglinga á aldrinum 13-18 ára sem starfa skipulega undir merkjum félagseininga.
3.7. Umsjónamannafundur: Árlegur fundur umsjónamanna haldinn á haustin.
3.8. Æskulýðsvettvangurinn: Samstarfsvettvangur Ungmennafélags Íslands, Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
4. gr. Umsjónamaður
4.1. Umsjónarmaður skal skipaður af stjórn viðkomandi félagseiningar og starfar alfarið á ábyrgð stjórnar hennar.
4.2. Skilyrði til þess að gerast umsjónamaður:
4.2.1. Að minnsta kosti einn umsjónarmaður unglingadeildarinnar skal hafa náð 20 ára aldri.
4.2.2. Aðrir umsjónamenn skulu vera orðnir 18 ára.
4.2.3. Að hafa ekki verið sakfelldur fyrir brot gegn ákvæðum XXII. kafla eða XXIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 né heldur að hafa verið sakfelldur, á síðastliðnum fimm árum, gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974.
4.2.4. Vakni grunur um að umsjónarmaður kunni að vera undir áhrifum fíkni- eða vímuefna í starfi þá er hægt að gera honum að skila inn þvagsýni til prófunar.
4.2.5. Sæti umsjónarmaður rannsókn vegna gruns um að hafa brotið gegn 4.2.3 lið þessa ákvæðis ber honum að víkja á meðan rannsókn stendur yfir eða ef ákæra hefur verið gefin út á hendur honum.
4.2.6. Að veita félaginu formlegt umboð til að afla sakavottorðs árlega úr sakaskrá ríkisins. Umboð skal vottað af tveimur aðilum í stjórn viðkomandi félagseiningar.
4.2.7. Umsjónarmanni er hvenær sem er heimilt að afturkalla heimild sína. Skal hann gera það skriflega.
4.3. Trúnaður
Umsjónarmaður er bundinn trúnaði gagnvart unglingunum bæði innan og utan starfs um allt það sem eðlilegt er og rétt að leynt fari, nema lög eða dómsúrskurður kveði á um annað. Helst sá trúnaður þó umsjónarmaðurinn láti af störfum. Trúnaður getur aldrei náð yfir saknæmt athæfi eða grun um slíkt.
4.4. Fyrirmynd
Umsjónarmaður skal í hvívetna gæta þess í orðum og gjörðum að hann er fyrirmynd unglinganna og leiðtogi, jafnt í starfi sem og utan þess.
4.5. Umsjónarmannanámskeið
Mælst er til þess að umsjónarmenn taki sérstakt umsjónarmannanámskeið hjá Björgunarskólanum.
4.6. Brottvísun
Í ljósi 10 gr. æskulýðslaga nr. 70/2007 er stjórn félagseiningar skylt að vísa umsjónamanni frá störfum ef:
4.6.1. Umsjónamaður afturkallar umboð til öflunar sakavottorðs.
4.6.2. Komi í ljós að umsjónamaður hafi brotið gegn reglum þessum.
4.6.3. Umsjónamaður uppfyllir ekki lengur skilyrði ákvæði greinar 4.2.
Ef stjórn félagseiningarinnar aðhefst ekkert hefur stjórn félagsins heimild til að grípa inn í.
5. gr. Unglingadeild
5.1. Aldurstakmark í starfi
Hverri félagseiningu er í sjálfsvald sett hvernig hún hagar aldursskiptingu í sínu starfi innan 13-18 ára. Kjósi félagseining að bjóða upp á starf fyrir börn undir 13 ára aldri er það háð samþykki stjórnar félagsins.
5.2. Félagatal
Umsjónarmenn skulu skila inn félagatali unglingadeildarinnar fyrir lok október ár hvert, ásamt því að senda inn upplýsingar um nýja félaga jafnóðum og þeir hefja störf.
5.3. Starfsemi unglingadeildar
5.3.1. Starfsemi unglingadeildar er alfarið á ábyrgð stjórnar viðkomandi félagseiningar og umsjónarmanna.
5.3.2. Starf í unglingadeildum skal vera markvisst, agað og miðað að starfsemi félagsins.
5.3.3. Umsjónamaður hefur upplýsingaskyldu gagnvart unglingum í unglingadeild. Ber hann ábyrgð á því að koma á framfæri upplýsingum frá félaginu varðandi unglingastarfið og ýmsa viðburði.
5.3.4. Starf í unglingadeildum er forvarnastarf og er öll meðferð áfengis, tóbaks, rafretta eða annara vímugjafa stranglega bönnuð í starfi unglingadeilda. Þetta á jafnt við um unglinga sem og umsjónarmenn þeirra.
5.4. Skilyrði fyrir þátttöku í unglingadeild
Unglingarnir þurfa að fara eftir og virða siðareglur félagsins sem skulu kynntar fyrir nýjum félögum.
5.5. Trúnaður í starfi
Unglingarnir eru bundnir trúnaði í starfi deildarinnar. Trúnaður getur aldrei náð yfir saknæmt athæfi eða grun um slíkt.
5.6. Einkennisfatnaður
Einkennisfatnaði unglingadeilda er lýst í „Reglum um merkingar á einkennisfatnaði og öðrum merktum fatnaði“ sem er að finna undir „Reglur“ á upplýsingavef félagsins.
6. gr. Mót
6.1. Landsmót
Landsmót er haldið annað hvert ár hjá unglingum og flyst að jafnaði á milli landsfjórðunga. Um skipulag landsmóts má finna á upplýsingavef félagsins undir „Reglur“.
6.2. Kostnaður við Landsmót
Félagið styrkir mótshaldara við hluta mótskostnaðar.
6.3. Landshlutamót
Landshlutamót má halda á árinu milli landsmóta. Félagið greiðir ekki kostnað við mótshald.
7. gr. Umsjónamannafundur
7.1. Tímasetning fundar
Fundinn skal halda síðustu helgina í september ár hvert.
7.2. Skipulag
Skipulag fundarins er í höndum nefndar um unglingamál og ákveður nefndin staðsetninguna hverju sinni. Leitast skal við að jafna hlut allra með því að dreifa fundarhaldinu um landið ef kostur er.
7.3. Fulltrúi umsjónarmanna í nefnd um unglingamál
Fundurinn skal gera tillögu til stjórnar félagsins um tvo fulltrúa umsjónarmanna í stjórnskipaða nefnd um unglingamál. Tilnefningin er til tveggja ára og skal kjósa á fundinum í kjölfar landsþings félagsins.
7.4. Atkvæðisréttur
Sé kosið um afgreiðslu mála á fundinum (sbr. ákvæði 7.3) þá hefur hver unglingadeild tvö atkvæði. Ekki er hægt að veita umboð til að fara með atkvæði, þannig að ef einungis einn fulltrúi kemur fyrir hönd unglingadeildar þá getur hann aðeins farið með eitt atkvæði.
8. gr. Æskulýðsvettvangurinn
8.1. Félagið er stofnaðili að Æskulýðsvettvanginum sem vinnur að sameiginlegum hagsmunamálum barna og ungmenna. Tilgangur og markmið Æskulýðsvettvangsins er að stuðla að samræðu og samstarfi aðildarfélaganna á sviði leiðtogaþjálfunar, fræðslu- og forvarnarmála, útbreiðslu og kynningar sem og á öðrum sviðum eftir því sem þurfa þykir.
8.2. Félagið vinnur að hagsmunum ungmenna 13-18 ára og nær starfsemi Æskulýðsvettvangsins yfir þann aldurshóp innan félagsins.
9. gr. Gildistaka
9.1. Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.
Samþykkt á 373. stjórnarfundi félagsins hinn 16.06.2020