Siðareglur

Slysavarnafélagið Landsbjörg eru landssamtök þar sem sjálfboðaliðar og starfsmenn félagsins vinna að björgun, slysavörnum og unglingastarfi. Í slíkum samtökum er mikilvægt að allir taki siðferðislega ábyrgð á störfum sínum með hagsmuni skjólstæðinga, félaga og félagsins að leiðarljósi. Til þess að þetta megi takast vill félagið skapa umhverfi þar sem samskipti og vinnubrögð einkennast af virðingu, samvinnu, forystu og fagmennsku.

Siðareglurnar gilda um alla félaga félagseininga og starfsmenn félagsins.

Markmið reglnanna er að stuðla að því að hegðun þeirra sem starfa innan félagsins uppfylli ýtrustu siðferðiskröfur hvers tíma. Þær eru leiðbeinandi um samband og samvinnu skjólstæðinga og félagsmanna og er ætlað að vernda orðspor félagsins, ímynd þess og trúverðugleika.

Vilji félagseining setja sínum félagsmönnum ítarlegri reglur er það heimilt svo lengi sem siðareglur félagsins liggi til grundvallar.

1. Góðir starfshættir

Við virðum landslög og reglugerðir settar samkvæmt þeim. Við virðum gildi, lög og reglugerðir félagsins, vörumerki þess og einkennisfatnað.

2. Hegðun

Við virðum þá sem starfa innan félagsins, skjólstæðinga þess og náttúruna í daglegu starfi, aðgerðum og æfingum. Við komum fram við hvert annað af virðingu og gætum trúnaðar gagnvart skjólstæðingum og hverju öðru.

3. Áreiti

Við komum í veg fyrir að innan félagsins viðgangist hvers konar óréttlæti, svo sem einelti, ofbeldi, kynferðisleg áreitni eða mismunun byggð á óviðkomandi þáttum svo sem kynferði, aldri, trú, þjóðerni, kynþætti, fötlun eða kynhneigð, hvort heldur sem er gagnvart hverju öðru eða skjólstæðingum félagsins.

4. Þekking

Við þekkjum skyldur okkar og takmörk. Við viðhöldum þekkingu okkar og hæfni á vettvangi starfsins.

5. Samskipti

Við förum að réttmætum fyrirmælum og tökum þátt í æfingum og starfi af fullum heilindum.

6. Framkoma

Við virðum eignir og verðmæti annarra, náttúruna, mannvirki og sögulegar minjar og forðumst að valda spjöllum á þeim.

7. Aðstæður

Við leggjum okkur fram um að koma félögum okkar ekki í aðstæður sem þeir ráða ekki við.

8. Útkallslisti

Við gætum að því að félagar á útkallslista björgunarsveita séu fullra 18 ára og hafi hlotið viðhlítandi þjálfun.

9. Hagsmunir

Við gætum þess að okkar eigin hagsmunir eða hagsmunir aðila okkar nákomnum hafi ekki áhrif á ákvarðanir okkar á vettvangi félagsins.

10. Viðurlög

Við gerum okkur ljóst að ef félagar gerast brotlegir við reglur þessar má vísa þeim úr starfi á vegum félagsins, tímabundið eða að fullu.

Verðum við þess áskynja að siðareglurnar hafi verið brotnar ber að vekja athygli á því með tölvupósti til siðanefndar. Skipan og starfsreglur siðanefndar má finna á heimasíðu félagsins.