Árið hófst með hvelli hjá björgunarsveitum þegar aðeins nokkrar mínútur voru liðnar af því, sveitir voru kallaðar út til aðstoðar slökkviliðsmönnum í baráttu við gróðurelda. Á nýársdagsmorgun tóku lausamunir og þakplötur að fjúka í aftakaveðri og koma þurfti ökumönnum á fjallvegum á Norður- og Norðausturlandi til aðstoðar.
Segja má að annríki á þessum allra fyrsta degi ársins hafi gefið tóninn fyrir næstu daga því það sem af er janúar hefur verið einkar mikið að gera hjá sjálfboðaliðum okkar.
Óveður skall á Austfjörðum 3. janúar, björgunarsveitir sóttu slasaðan mann við Öxará daginn eftir og óvenju djúp lægð gekk yfir landið nokkrum dögum síðar. Auk þess liðsinntu björgunarsveitir áhöfnum vélarvana báta á Húnaflóa og við Ólafsvík.