Það er allt í lagi með mig!

Austurland

Stór aurskriða féll úr Búðarárfossi og á Seyðisfjörð í desember 2020.

„Við vorum búin að fylgjast vel með Búðarárfossi uppi í hlíðinni dagana á undan. Svo sjáum við að það fer að koma aur og drulla niður ána. Ég læt aðgerðastjórn vita, þeir eru þegar komnir út í dyr og svo kemur bara öll hlíðin niður. Ég hélt að skriður færu ekki það hratt og að ég gæti hlaupið út í bíl og keyrt í burtu. En raunin reyndist allt önnur. Við urðum að taka til fótanna og enduðum á að leita skjóls við nærliggjandi hús, gamla ríkið.“

Svona lýsir Guðni atburðarásinni þegar skriðan féll á bæinn á ógnarhraða. Guðni minnist þess að hafa gægst fyrir horn hússins sem þau leituðu skjóls við og upp eftir þaki þess. Þá var allt að fyllast af aur og leðju sem spýttist út um allt.

„Þá var ég viss um að þetta væri allt saman að koma yfir okkur, að þarna myndi ég deyja. Svo ég reyndi að hringja í frúna, bara til að kveðja hana. Það tók mig svo langan tíma að ná að ýta á rétta takka á símanum að þegar hún loksins svaraði þá var skriðan um garð gengin og það eina sem ég gat sagt var: „Það er allt í lagi með mig. Það er allt í lagi með mig“. Ég fór heim, skipti um föt og hafði fregnir af tveimur einstaklingum sem var ekki vitað um svo ég fór beint í símann til að hafa uppi á þeim. Fyrstu mínúturnar eftir þetta allt saman fóru í að fullvissa sig um að það væri allt í lagi með alla, sem var blessunarlega raunin. Það er eiginlega stórfurðulegt að allir skyldu sleppa lifandi og ómeiddir úr þessu.“

„Það er allt í lagi með mig. Það er allt í lagi með mig“.

Aðgerðastjórnin vildi hvíla heimamenn í björgunarsveitinni fyrst eftir skriðufallið, en þeir höfðu staðið vaktina sleitulítið frá því að hættan á stóru skriðufalli ofan við bæinn varð ljós. Guðni segir að það hafi reynst honum erfitt að taka ekki þátt og að honum hafi liðið betur þegar hann var aftur kominn á sinn stað. Hreinsunarstarfið hófst fljótlega og helsta starf björgunarsveitarfólks var að gæta öryggis heimamanna og þá sérstaklega þeirra sem fengu að fara stuttlega á heimili sín til að kanna aðstæður eða ná í nauðsynjar.

„Við vorum ekki mörg en okkar hlutverk var að stjórna bátum sem ferjuðu fólk út fyrir stífluna og yfir á hinn bakkann, við héldum utan um hverjir fóru inn á svæðið og úthlutuðum snjóflóðaýlum og talstöðvum til þeirra til öryggis. Fljótlega eftir skriðuna þurftum við að finna út hvar okkar starfsemi björgunarsveitarinnar ætti að vera í framtíðinni. Það er ekki vinnandi vegur að vera með hús á hættusvæði. Ég nenni bara ekki að hlaupa fyrir lífi mínu eina ferðina enn. Það er ekki víst að ég geti hlaupið svona hratt næst,“ segir Guðni og hlær. En þrátt fyrir það segir hann að við þessa reynslu hafi eitthvað gerst hjá sér. Hann hafi oft komist í hann krappan í lífinu en þetta sitji í honum.

„Ég þarf að vinna með þessa reynslu, ná henni út úr systeminu mínu. Ég er fæddur og uppalinn hér á Seyðisfirði og hér vil ég vera. Það sem stendur þó einna helst upp úr eftir þessa reynslu er allt þetta góða fólk sem tók þátt í björgunaraðgerðunum, þessi samstaða og jákvæðni og hvernig þjóðin öll brást við og studdi þétt við bakið á okkur. Við sjáum það einna best á svona tímum hvað slíkt er algjörlega ómetanlegt.“

Takk fyrir að lesa söguna

Það er allt í lagi með mig!

Hugurinn leitaði frekar til hafs en fjalla

Höldum áfram að gera allt sem við getum

N64° 9' 13" W-21° 56' 58"

Eftirminnilegasta útkallið mitt