Í minni samfélögum hjálpast allir að

Vesturland

Halldór Kristinsson er Snæfellingur í húð og hár, reyndur sjómaður og skipsstjóri. Eftir fimmtán ár á sjó ákvað hann að breyta um starfsvettvang og koma í land.

Hrakningar á sjó hafa litað sögu íslensku þjóðarinnar öldum saman. Á árum áður fórust ótal sjómenn og heilu samfélögin horfðu á eftir sonum, feðrum og bræðrum í greipar hafsins. Sem betur fer hefur dauðsföllum og alvarlegum slysum á sjó fækkað verulega á undanförnum árum í takt við betri búnað skipa og báta en einnig með markvissri vinnu í slysavörnum og þjálfun björgunarsveita í sjóbjörgun.

Halldór Kristinsson er Snæfellingur í húð og hár, reyndur sjómaður og skipsstjóri. Eftir fimmtán ár á sjó ákvað hann að breyta um starfsvettvang og koma í land. Það var árið 2015 og í ljósi reynslu sinnar var hann fljótlega beðinn um að taka við sem einn af skipstjórum á björgunarskipinu Björginni. „Björgin er mikið notað skip og nauðsynlegt fyrir svæðið að hafa björgunarskip tiltækt á Rifi. Vettvangur og umfang sveitarinnar og skipsins er hvort tveggja mjög umfangsmikið, alllt frá Patreksfirði, um Breiðafjörðinn, fyrir Nesið og suður allan Faxaflóa að Reykjanesi. Þetta er gífurlega stórt svæði og ég held að fá skip séu jafnmikið notuð í svona störf og Björgin,“ útskýrir Halldór.

Bráðnauðsynlegt fyrir samfélagið

Hann segist í fyrstu hafa verið dálítið tregur til að taka að sér skipstjórn á björgunarskipinu enda nýkominn í land og kominn í starf við útgerð, en á sama tíma fullkomlega meðvitaður um mikilvægi hlutverksins svo það þurfti ekki langan tíma til að sannfæra hann um að slá til. Hann var hafður númer 10 í útkallsröðinni en mánuði síðar var Halldór kominn í sitt fyrsta útkall, enda þá allir bátar og skipstjórnarmenn úti á sjó. Útköllunum átti eftir að fjölga og nú er Halldór einnig kominn á útkallslista í landbjörgun auk þess sem fleiri fjölskyldumeðlimir láta til sín taka í björgunarsveitinni Lífsbjörg á svæðinu. „Í svona plássum eins og hér á Rifi og fleiri sjávarþorpum um allt land, þar sem allt þrífst á sjó og sjávarfangi, er starfs björgunarsveitanna okkar einfaldlega bráðnauðsynleg og eiginlega skilyrði þess að samfélagshjólið snúist. Þetta er því þjónusta sem allir vilja styðja við þannig að okkur rennur einfaldlega blóðið til skyldunnar.“

Þegar útkall berst þarf að hafa hraðar hendur og Halldór útskýrir að þeir vilji vera farnir af stað innan við 15 mínútum eftir að kallið kemur. Sjálfur er hann oft fyrsti maður á staðinn enda vinnustaðurinn hans í þarnæsta húsi við skipið. „Við förum af stað, fáum að vita nákvæmari staðsetningu og svo bara fulla ferð. Við erum heppnir með að það er alltaf góð mæting í útköllin og langoftast náum við að manna með reyndum sjómönnum um borð. Þarna liggur reynslubankinn okkar og þekking og það er gott að geta nýtt hvort tveggja við björgunarstörf þegar á þarf að halda. Auk þess förum við reglulega á námskeið og sækjum okkur frekari fræðslu.“

Stuttbuxnaútkallið

Verkefnin eru ærin og geta orðið mörg á stuttu tímabili. Þar, eins og í velflestu öðru hér á landi, spilar veðurfarið oft stórt hlutverk en Halldór segir að áralöng reynsla geri mönnum kleift að þekkja veðrið og hvernig það hagar sér svo þeir viti að hverju þeir ganga hverju sinni. Vetrarveðrin geta verið krefjandi og þá skiptir góður búnaður miklu máli. Halldór rifjar upp eftirminnilegt útkall á laugardegi síðastliðinn vetur þar sem hans eigin búnaður var ef til vill ekki upp á marga fiska þegar hann hljóp til skips.
„Ég var í miðjum crossfit-tíma þegar kallið kom og það var byrjað að hringja í mig. Ég fór bara á stuttbuxunum í tímann og var ekki með föt til skiptana og mætti síðastur um borð í Björgina þegar allt var komið í gang – á stuttbuxum og í stuttermabol. Úti var norðan skítaveður og frost svo ég var fljótur að koma mér í gallann. En það var gert mikið grín að mér fyrir að koma svona til skips!“

Eigið öryggi einnig mikilvægt

„Ég er þakklátur fyrir að nær undantekningarlaust hafa öll útköllin gengið vel og verið farsæl. Mér var það sérstaklega eftirminnilegt í vetur þegar við fengum útkall og náðum í Guðmund Jensson sem fékk í skrúfuna. Þegar við komum að honum var 5-6 metra ölduhæð og þegar ég er að sigla inn í höfnina í Ólafsvík var mótvindurinn svo mikill að ég var ekki viss um að við myndum hafa það inn í höfnina. En það tókst og það er alltaf það sem maður er þakklátur fyrir. Þar skiptir líka góður búnaður og góð þjálfun miklu máli en það er líka afar mikilvægt að hver og einn björgunarsveitarmaður hugi að eigin öryggi á vettvangi. Þannig gengur þetta upp og við komum öll heil heim,“ segir Halldór að lokum.

    Björgunarskipið Björg kom farðþegaskipinu Baldri til aðstoðar í júní 2022 þegar hann varð vélarvana rétt utan við Stykkishólm og hjálpaði til við að koma skipinu að bryggju.
    Áhöfnin á Björg fór á vettvang þegar eldur kom upp í strandveiðibát í júlí 2022 og tók skipverjan um borð og hlúði að honum. Áhafnarmeðlimir reyndu svo að slökkva í eldinu og drógu bátinn að landi þar sem slökkviliðið tók við slökkvistarfinu.

Takk fyrir að lesa söguna

Með því að gerast Bakvörður styður þú við starf sjálfboðaliða okkar

Gerast Bakvörður
Í minni samfélögum hjálpast allir að
  • Staðsetning
    Rif
  • Texti
    Sólveig Jónsdóttir
  • Ljósmyndir
    Sigurður Ólafur Sigurðsson
  • Ljósmyndir úr útköllum
    Félagar úr Lífsbjörg

Höldum áfram að gera allt sem við getum

N64° 9' 13" W-21° 56' 58"

Eftirminnilegasta útkallið mitt

N64° 19' 7" W-22° 4' 51"

Þjálfun björgunarsveitarfólks er mjög mikilvæg