Allt sem fólk gerir er betra en ekki neitt

Suðurland

Eysteinn Hjálmarsson gekk til liðs við Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur árið 2011. Hann fór út í nám en tók upp þráðinn að nýju þegar heim var komið og varð fullgildur meðlimur árið 2016. Í fyrstu var það helst útivistin sem fylgir björgunarsveitunum sem dró hann að, en ekki leið á löngu áður en hann varð ákveðinn í að taka skuldbindinguna alla leið og mæta í eins mörg útköll og honum væri mögulega unnt. Sumarið 2016 fór hann í sitt eftirminnilegasta og jafnframt eitt erfiðasta útkall en þá reyndi á kunnáttu, reynslu, úthald og það sem meira var, skyndihjálparkunnáttu björgunarsveitamannsins.

Í júlímánuði árið 2016 barst viðbragðsaðilum útkall um að franskur ferðamaður hefði runnið eftir snjóhengju í Sveinsgili og fallið niður í á, Jökulkvísl. Strax var ljóst að um gríðarlega erfitt og krefjandi útkall var að ræða og jafnvel á enn umfangsmeiri hátt en björgunarsveitafólk og aðrir sem störfuðu á vettvangi gátu búið sig undir. Aðgerðin var afar stór og áður en yfir lauk höfðu 31 björgunarsveit víðs vegar af landinu lagst á eitt auk kafara, fólks frá slökkviliði og embætti Ríkislögreglustjóra sem unnu einnig að björguninni. Allur þessi hópur kom saman í einu samstillu átaki, að finna manninn.

„Ég kom inn í seinni bylgjunni til að leysa fyrsta hópinn af,“

Krefjandi aðstæður á hálendinu

Fleiri en 230 sjálfboðaliðar frá björgunarsveitum tóku þátt. Eysteinn var einn þeirra en auk þess að taka þátt í leitinni eins og útkallið snerist um þurfti hann einnig að beita skyndihjálp og endurlífgunaraðgerðum þegar einn úr hópnum fór í hjartastopp á vettvangi.

„Ég kom inn í seinni bylgjunni til að leysa fyrsta hópinn af,“ segir Eysteinn og útskýrir að löng leið var að slysstaðnum þar sem fyrst þurfti að keyra inn í Landmannalaugar og þaðan inn í Jöklagil. Þaðan var ekið yfir Laugarkvísl en síðan tók við 45 mínútna ganga yfir fjallahrygg að slysstað.

„Þegar ég kem er búið að gera göt inn í snjódyngjuna en maðurinn hafði runnið af henni og undir hana með ánni. Þegar þarna var komið við sögu voru kafararnir að koma frá slökkviliðinu og okkar hlutverk var að aðstoða þá. Þyrlupallurinn var staðsettur talsvert fyrir ofan slysstaðinn og því þurfti að flytja mjög mikinn búnað frá pallinum og niður eftir. Þetta var heilmikið brölt og við vorum að allan daginn en köfunin skilaði því miður ekki árangri. Að lokum var ákveðið að draga saman og flytja allan búnaðinn aftur upp að þyrlupallinum. Þarna var mannskapurinn orðinn nokkuð þrekaður eins og gefur að skilja. En þar sem við erum að flytja búnaðinn hnígur einn úr hópnum niður. Ég og maður frá slökkviliðinu stöndum næst honum og það var strax ljóst að honum hafði ekki skrikað fótur eða þess háttar. Hér var alvara á ferðum. Fljótlega missti hann meðvitund og við hófum endurlífgun strax,“ segir Eysteinn sem beitti hjartahnoði á vettvangi. Hann segir vinkonu sína úr Flugbjörgunarsveitinni strax hafa gert sér grein fyrir hvað hafði gerst og gert öðrum viðvart um að hætta þyrfti öllum öðrum aðgerðum og einbeita sér að því að koma félaga þeirra til hjálpar.

„Það ótrúlega var að þyrlan var einmitt komin á svæðið og byrjuð að hífa upp eitthvað af búnaðinum. Hún hætti því um leið og náði að lenda með sigmann sem var með hjartastuðtæki meðferðis. Það liðu því varla meira en 5 mínútur frá því að maðurinn hnígur niður þar til hann fær hjartastuð með tækinu og kemst til skertrar meðvitundar. Þá fékk ég einhvern vegin strax á tilfinninguna að þetta myndi ganga, að hann myndi hafa það af. Hann var svo hífður upp og flogið með hann á spítala.“

Við tók bið eftir að þyrlan kæmi aftur. Í raun var búið að ganga frá öllum búnaðinum eftir langan og erfiðan dag og vatnsmagnið hafði aukist verulega í ánni. Það var því nánast fyrir tilviljun að björgunarsveitafólk kom auga á manninn sem leitað hafði verið að í einni af holunum sem búið var að grafa í snjódyngjuna. Hann var þá látinn.

Andlegi þátturinn má ekki gleymast

Allur mannskapurinn var orðinn líkamlega úrvinda þegar hér var komið við sögu. Sálrænn þáttur björgunarsveitastarfsins, líðan sjálfboðaliða í erfiðum aðstæðum og útköllum og það hve oft getur verið stutt á milli lífs og dauða tekur líka sinn toll. „Ég man vel hvað ég var þreyttur eftir þetta. Að beita hjartahnoði er líkamleg og andleg áreynsla og samferðafólk mitt á svæðinu hafði miklar áhyggjur af mér eftir á og hugsaði afskaplega vel um mig. Ég held að mér hafi verið boðið af nesti allra sem voru þarna og ég veit ekki hvað og hvað. Það fannst mér mjög fallegt. Ég var eðlilega í svolitlu áfalli eftir þetta en mér leið vel og um leið og fregnir komu um að líðan mannsins væri góð þá var það mikill léttir. Þegar mesta sjokkið bráði af mér fann ég fyrir stolti, að hafa getað brugðist rétt við þarna uppi á hálendi í erfiðum aðstæðum.“

Eysteinn segir það deginum ljósara að skyndihjálp sé eitthvað sem allir þurfi að hafa þekkingu á. Það sjáum við glöggt í fréttum á hverju ári þar sem einhver beitir endurlífgun og bjargar fólki. „Það gefur því auga leið að því fleiri sem búa yfir þessari þekkingu á skyndihjálp og endurlífgun, því betra. Það skilar sér og við sjáum það í samfélaginu. Slíkt er ómetanlegt og það getur raunverulega bjargað lífi að fólk ákveði að fara á námskeið eða sækja sér skyndihjálparkunnáttu á einhvern hátt og að vera tilbúið að beita henni. Margir eru hræddir um að kunna ekki nóg og gera eitthvað vitlaust en yfirleitt er allt sem fólk gerir betra en ekki neitt,“ segir Eysteinn Hjálmarsson í Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur að lokum.

    Mynd: Otti Rafn Sigmarsson

Takk fyrir að lesa söguna

Allt sem fólk gerir er betra en ekki neitt

Hugurinn leitaði frekar til hafs en fjalla

Höldum áfram að gera allt sem við getum

N64° 9' 13" W-21° 56' 58"

Eftirminnilegasta útkallið mitt