Hálendisvakt Landsbjargar hófst árið 2006 og þar hefur Svanfríður tekið vikuvakt á hverju sumri frá 2010. Á nýliðnu sumri var Hálendisvaktin í Landmannalaugum í 10 vikur og 6 vikur í Herðubreiðarlindum.
„Margir halda að Hálendisvaktin sé björgunarsveit sem sé í startholunum í Landmannalaugum ef eitthvað gerist. Það er í rauninni minnsti hlutinn af þessu því ef það kemur stórt útkall eru sveitir úr byggð alltaf kallaðar út líka. Hálendisvaktin er í rauninni hugsuð sem fyrsta viðbragð, því þarna eru miklar vegalengdir. Aðalverkefnin felast í rauninni í slysavörnum svo okkar fólk er alla vikuna að tala við og leiðbeina ferðamönnum, íslenskum og erlendum. Í vikunni minni nú í sumar komu til dæmis veðurviðvaranir fyrir bæði Fimmvörðuháls og Laugaveginn. Þá gengum við um svæðið, ræddum við fólk og ráðlögðum því að bíða í einn sólarhring. Svo er mikið um bílaaðstoð. Við kölluðum þetta sumar „hybrid-sumarið“, segir Svanfríður og skellir upp úr en þeir voru ófáir hybrid-bílarnir sem björgunarsveitir drógu upp úr ám á hálendinu. Slík verkefni geti tekið marga klukkutíma frá upphafi til enda.
„Í einu verkefni nú í sumar voru ung indversk hjón með þriggja ára gamla stelpu á hybrid-bíl sem þau drekktu í ánni á leiðinni upp í Landmannalaugar. Þau voru bara að koma í dagsferð svo þau voru ekki með neitt með sér, hvorki nesti, drykki eða eitthvað til að sofa með. Þegar þetta gerist þá líða yfirleitt margir klukkutímar þangað til að bílaleigan kemur, tekur bílinn og útvegar annan. Í þessu tilfelli gerðist þetta seinnipart dags, við toguðum bílinn upp úr ánni og komum fólkinu þangað sem ferðamennirnir geta verslað mat og annað hjá skálavörðunum. Þarna er líka stórt tjald en skálinn var auðvitað fullbókaður. Um kvöldið komum við aftur þangað úr öðru verkefni og þá voru þau búin að sitja þarna í tjaldinu í fimm klukkustundir með barnið. Þeim var orðið ískalt, voru ekki með teppi eða neitt og það endaði með því að við fórum og náðum í þau og buðum þeim að bíða hjá okkur af því að þau voru með barnið. Við erum bara með pínulítinn kofa og höfum ekki aðstöðu til þess að bjóða fólki að vera hjá okkur en við bjuggum um litlu stúlkuna í kojunni minni. Það var svo ekki fyrr en klukkan tvö um nóttina sem þau voru sótt af bílaleigunni. Sem betur fer varð ekkert slys þegar bíllinn þeirra fór í ána en það eru atvik eins og þessi sem geta tekið langan tíma.“
Svanfríður segir eitt það skemmtilegasta við Hálendisvaktina vera að verja heilli viku með félögum úr björgunarsveitunum, að ganga um og kynnast landinu sínu.
„Í fyrsta sinn sem ég fór á vaktina með vinkonu minni Önnu Filbert sagðist hún hafa sett sér það markmið að læra tíu ný örnefni á svæðinu í hverri ferð. Ég ákvað að tileinka mér þetta og er þar af leiðandi farin að þekkja Fjallabak og Sprengisandsleið mjög vel. Ég er einn af kennurunum á hálendisvaktarnámskeiðinu og þá hef ég sagt unga fólkinu okkar að nota þessa viku til að læra, ekki bara að læra að vera í björgunarsveit heldur til að læra á landið okkar. Það er svo dýrmætt.“