Við stöndum öll saman

Suðurland

Slysavarnafélagið Landsbjörg er alltumlykjandi í lífi Svanfríðar Önnu Lárusdóttur, verkefnastjóra slysavarna sem segir hér frá fjölbreyttu og þýðingarmiklu starfi slysavarnadeilda um allt land og því hvað heitt kakó og faðmur skipta miklu máli í stóra samhenginu.


„Ég var í öðrum félagsskap þar sem ég hélt allskonar námskeið og var fengin til að halda tvö námskeið fyrir slysavarnadeild. Áður en ég vissi af var ég komin í þessa tilteknu deild og fjótlega eftir það í stjórn Slysavarnadeildarinnar í Reykjavík. Eftir nokkur ár ákvað ég að gefa kost á mér í stjórn Slysavarnafélagsins Landsbjargar en vissi að til að hljóta nógu mörg atkvæði þyrfti ég að ná til björgunarsveitanna líka. Svo ég ákvað að fara í björgunarsveit og taka þá þjálfun og var svo kosin í stjórn árið 2017. Tveimur árum seinna var ég svo ráðin hingað inn á skrifstofu Landsbjargar í Skógarhlíð þar sem ég er verkefnastjóri slysavarna. Þetta er bara lífið,“ útskýrir Svanfríður.

Fólk með marga hatta lætur dæmið ganga upp

Hún segir það engar fréttir að starf Landsbjargar sé einstakt á heimsvísu og það fái þau ekki síst staðfest þegar erlendir gestir koma í heimsókn og kynnist því hvernig starfið fer fram og um hvað það snýst.
„Að björgunarsveitir og slysavarnadeildir starfi í sjálfboðavinnu, hvernig við stöndum öll saman og hvað fólkið okkur leggur allt í þetta. Þetta endurspeglast svo í hvað Landsbjörg er stór hluti af þjóðarsálinni. Úti á landi er björgunarsveitafólkið oft með mjög marga hatta, er kannski líka í slökkviliðinu eða sjúkraflutningum. Í sveitarfélagi eins og Árneshrepp þar sem íbúafjöldinn telur færri en 50 manns, er öflug björgunarsveit en félagarnir í henni eru líka slökkviliðið og sjúkraflutningafólkið. Þetta er eitthvað sem langar vegalengdir og smæð þjóðarinnar hefur búið til og ekki endilega eitthvað sem fólkið sjálft hefur kosið sér heldur einfaldlega nauðsynlegt til að þetta gangi upp. Það sem er líka svo frábært er þegar fólk fer í gegnum þjálfun í stóru sveitunum á höfuðborgarsvæðinu, flytur svo út á land og fer beint í björgunarsveit þar. Stór hluti þeirra sem eru á útkallslista björgunarsveitarinnar Kára í Öræfum er alinn upp í Hjálparsveit Skáta í Kópavogi og björgunarsveitinni Ársæli úti á Granda. Svo flytur fólk af landsbyggðinni á höfuðborgarsvæðið og finnur sér strax björgunarsveit til að ganga til liðs við. Landsbjörg heldur alltaf sínum félagafjölda þrátt fyrir að fólk færist til milli landshluta og þó svo að fólk detti út í einhver ár, er kannski að stofna fjölskyldu eða annað, þá kemur það alltaf aftur.“

Hybrid-sumarið mikla

Hálendisvakt Landsbjargar hófst árið 2006 og þar hefur Svanfríður tekið vikuvakt á hverju sumri frá 2010. Á nýliðnu sumri var Hálendisvaktin í Landmannalaugum í 10 vikur og 6 vikur í Herðubreiðarlindum.
„Margir halda að Hálendisvaktin sé björgunarsveit sem sé í startholunum í Landmannalaugum ef eitthvað gerist. Það er í rauninni minnsti hlutinn af þessu því ef það kemur stórt útkall eru sveitir úr byggð alltaf kallaðar út líka. Hálendisvaktin er í rauninni hugsuð sem fyrsta viðbragð, því þarna eru miklar vegalengdir. Aðalverkefnin felast í rauninni í slysavörnum svo okkar fólk er alla vikuna að tala við og leiðbeina ferðamönnum, íslenskum og erlendum. Í vikunni minni nú í sumar komu til dæmis veðurviðvaranir fyrir bæði Fimmvörðuháls og Laugaveginn. Þá gengum við um svæðið, ræddum við fólk og ráðlögðum því að bíða í einn sólarhring. Svo er mikið um bílaaðstoð. Við kölluðum þetta sumar „hybrid-sumarið“, segir Svanfríður og skellir upp úr en þeir voru ófáir hybrid-bílarnir sem björgunarsveitir drógu upp úr ám á hálendinu. Slík verkefni geti tekið marga klukkutíma frá upphafi til enda.
„Í einu verkefni nú í sumar voru ung indversk hjón með þriggja ára gamla stelpu á hybrid-bíl sem þau drekktu í ánni á leiðinni upp í Landmannalaugar. Þau voru bara að koma í dagsferð svo þau voru ekki með neitt með sér, hvorki nesti, drykki eða eitthvað til að sofa með. Þegar þetta gerist þá líða yfirleitt margir klukkutímar þangað til að bílaleigan kemur, tekur bílinn og útvegar annan. Í þessu tilfelli gerðist þetta seinnipart dags, við toguðum bílinn upp úr ánni og komum fólkinu þangað sem ferðamennirnir geta verslað mat og annað hjá skálavörðunum. Þarna er líka stórt tjald en skálinn var auðvitað fullbókaður. Um kvöldið komum við aftur þangað úr öðru verkefni og þá voru þau búin að sitja þarna í tjaldinu í fimm klukkustundir með barnið. Þeim var orðið ískalt, voru ekki með teppi eða neitt og það endaði með því að við fórum og náðum í þau og buðum þeim að bíða hjá okkur af því að þau voru með barnið. Við erum bara með pínulítinn kofa og höfum ekki aðstöðu til þess að bjóða fólki að vera hjá okkur en við bjuggum um litlu stúlkuna í kojunni minni. Það var svo ekki fyrr en klukkan tvö um nóttina sem þau voru sótt af bílaleigunni. Sem betur fer varð ekkert slys þegar bíllinn þeirra fór í ána en það eru atvik eins og þessi sem geta tekið langan tíma.“
Svanfríður segir eitt það skemmtilegasta við Hálendisvaktina vera að verja heilli viku með félögum úr björgunarsveitunum, að ganga um og kynnast landinu sínu.
„Í fyrsta sinn sem ég fór á vaktina með vinkonu minni Önnu Filbert sagðist hún hafa sett sér það markmið að læra tíu ný örnefni á svæðinu í hverri ferð. Ég ákvað að tileinka mér þetta og er þar af leiðandi farin að þekkja Fjallabak og Sprengisandsleið mjög vel. Ég er einn af kennurunum á hálendisvaktarnámskeiðinu og þá hef ég sagt unga fólkinu okkar að nota þessa viku til að læra, ekki bara að læra að vera í björgunarsveit heldur til að læra á landið okkar. Það er svo dýrmætt.“

"Þau voru bara að koma í dagsferð svo þau voru ekki með neitt með sér, hvorki nesti, drykki eða eitthvað til að sofa með"

Sjálfbær í sólarhring

Útköll sem enda ekki vel segir hún vera það erfiðasta.
„Ég hef reyndar bara einu sinni lent í því á mínum ferli. Eins og það er dásamlegt þegar einhver bjargast eða finnst þá er mjög erfitt að koma að slysum eða aðstæðum sem hafa endað illa. Þá grípum við hvert annað og Landsbjörg heldur mjög vel utan um sitt fólk þegar svona gerist. Þetta er það erfiðasta. Allt annað er bara verkefni til að leysa.“
Þegar stór útköll verða leggjast allir á eitt. Hlutverk björgunarsveitanna og slysavarnadeildanna eru ólík en bæði afar mikilvæg eins og Svanfríður útskýrir.
„Við erum með þá reglu að hver björgunarsveitafélagi þarf að geta verið sjálfbær í 24 tíma í stærri útköllum. En ef það er til dæmis gríðarlega kalt, ef um lengri útköll er að ræða eða stóran hóp björgunarsveitafólks þá þarf mjög fljótlega að fara að huga að mat. Og ekki bara mat, heldur líka þessari sálrænu hjálp sem skiptir svo miklu máli. Hún felst til dæmis í því að geta bara farið í fangið á mömmu eða ömmu, fengið heitt kakó og eitthvað að borða. Það hefur margsannað sig í gegnum tíðina.“
Hún segir það líka magnað að sjá og finna hvernig þjóðin tekur höndum saman og stendur með Landsbjörg þegar stór áföll eða hamfarir verða sem kalla á krafta björgunarsveitanna.
„Við fundum til dæmis mjög sterkt fyrir þessu í erfiðri og umfangsmikilli leit í ársbyrjun 2017. Þá voru björgunarsveitir við leit á gríðarstóru svæði og sjö slysavarnadeildir opnuðu eldhús allt frá Akranesi til Selfoss. Þarna steig þjóðin inn og það helltust yfir okkur matargjafir og hráefni sem við deildum út í eldhúsin fyrir allan þennan mannskap sem var við leit. Þetta spilar allt saman. Björgunarsveitamaður getur verið sjálfbær í 24 tíma en Slysavarnafélagið Landsbjörg, stóra sleggjan, er sjálfbær því að hún er líka með slysavarnadeildirnar innanborðs.“

Finnum að á okkur er hlustað

„Slysavarnafélagar vilja ekki endilega vera í björgunarsveit og á útkallslista en þau stíga sterk inn þegar þörf krefur og eru einfaldlega ómissandi til að dæmið gangi upp. Í þeim útköllum þar sem verið er að leita að fólki þá eru líka aðstandendur sem þarf að hlúa að. Ef heil fjölskylda er að ganga á Heklu og einn fjölskyldumeðlimur týnist, þá höldum við í slysavarnadeildunum utan um hina í fjölskyldunni á meðan verið er að leita. Ég féll fyrir þessu þegar ég gekk inn í þetta starf því þetta eru bara við sjálf, kjarninn í okkur. Það er enginn á launum við að gera þetta. Svo má ekki gleymast að í upphafi voru það konur sem urðu til þess að þetta félag varð til. Mæðurnar, eiginkonurnar og systur sem byrjuðu að berjast fyrir meira öryggi um borð í skipum og bátum og svo þróast það út í samfélagið allt, eins og slysavarnir í umferðinni. Málið er líka það að Landsbjörg hefur aldrei rekið neinn hræðsluáróður í sínu forvarnastarfi. Við viljum breyta viðhorfi og við finnum að á okkur er hlustað. Gott dæmi um þetta er að annaðhvort ár förum við í leikskólana og höfum gert frá árinu 1996. Þá erum við að kanna notkun bílbelta og barnabílstóla þegar börnin koma á morgnana. Yfirleitt er það þannig að eitt eða tvö bæjarfélög koma illa út úr þessari úttekt og þá er okkar fólk á staðnum í samstarfi við leikskólastjóra og lögregluna. Börnin eru frædd og bæklingar skildir eftir í hólfunum þeirra og næst kemur þetta bæjarfélag langbest út. Við heimsækjum líka félagsmiðstöðvar eldri borgara og tölum um slysavarnir svo það má segja að við séum með viðveru í samfélaginu öllu, ungum börnum til eldri borgara og allt þar á milli.
Á bak við okkur standa 35.000 bakverðir í hverjum einasta mánuði. Þetta er Ísland, þetta er öll þjóðin og Landsbjörg er batterí sem við rekum í sameiningu. Það sést svo greinilega þegar eitthvað kemur upp á, náttúruhamfarir, leit eða hvað sem er. Þá stöndum við öll saman og það er alveg magnað,“ segir Svanfríður að lokum.

Takk fyrir að lesa söguna

Við stöndum öll saman
N63° 58' 59" W-19° 4' 1"

Við stöndum öll saman

N63° 49' 53" W-22° 23' 45"

Fluglínutæki

Gæfumunir Landsbjargar
N63° 59' 13" W-21° 57' 51"

Fjallabjörgunarbúnaður

Gæfumunir Landsbjargar