Höldum áfram að gera allt sem við getum

Suðurnes

Borghildur Fjóla Kristjánsdóttir lét gamlan draum rætast árið 2011 og gekk til liðs við björgunarsveit ásamt syni sínum. Hún er í dag starfandi formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar og segir að þrátt fyrir óvissutíma horfi þau björtum augum fram á veginn. Það þýði einfaldlega ekkert annað.

„Mig hafði alltaf dreymt um að vera í björgunarsveit. Ég fylgdist með björgunarsveitamanninum stjúpa mínum fara út í vond veður þegar ég var barn á Blönduósi og hafði alltaf hugsað mér að fara í björgunarsveitina þegar þar að kæmi. Svo gerist lífið og ég eignast fyrsta son minn 16 ára, svo þetta frestaðist aðeins,“ segir Borghildur Fjóla sem jafnan er kölluð Fjóla. Hún er í dag sex barna móðir en það var næstelsti sonur hennar sem sýndi björgunarsveitastörfum áhuga svo úr varð að mæðginin mættu á kynningarfund hjá björgunarsveitinni Ársæli árið 2011, hann í unglingastarfið og hún í nýliðastarfið.
„Sonur minn er enn mjög virkur í sveitinni, hann kynntist konunni sinni þar og ég kynntist líka seinni manninum mínum í gegnum björgunarsveitastarfið svo það má segja að þetta sé gegnumgangandi í fjölskyldunni,“ segir Fjóla.

Fjölskyldan hefur búið í Neskaupstað þar sem Fjóla, sem er menntaður lífeindafræðingur, gegnir starfi rekstrarstjóraHeilbrigðisstofnunar Austurlands en er einnig virkur liðsmaður í björgunarsveitinni Gerpi. Á næstu dögum flyst hún búferlum til Reykjavíkur þangað sem eiginmaður hennar er þegar kominn og starfar við kennslu. Hún segir umtalsverðan mun vera á því að vera í björgunarsveit á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi. Eðli málsins samkvæmt er fjöldi liðsmanna ólíkur þrátt fyrir að tilgangur og markmið sjálfboðaliða sveitanna sé sá sami.
„Sveitirnar eru vissulega ólíkar og það hefur verið algjörlega ómetanlegt að fá tækifæri til að starfa með Gerpi hér í Neskaupstað og fá þannig betri skilning á björgunarsveitastarfinu. Starfið hér fyrir austan er eins og ég hafði ímyndað mér að björgunarsveitastarfið væri, þar sem allir mæta og taka þátt og fókusinn er á þínu nærumhverfi. Hjá Ársæli í Reykjavík er daglegt starf umfangsmeira þar sem er vissulega fleira fólk og meira rennsli af fólki. Flest kvöld eru einhverjir hópar að hittast og líkt og í Gerpi er sterkur og góður kjarni innan sveitarinnar. Þarna er öflugt unglingastarf sem er líka raunin fyrir austan en þar er það minna í sniðum og verður þar af leiðandi öðruvísi. Hjá Gerpi eru til dæmis sérstök vinnukvöld einu sinni í viku, þriðjudagskvöldin eru bara helguð þessu, þangað sem allt björgunarsveitafólkið mætir svo það er minni hópaskipting innan sveitanna þegar þær eru fámennari.“

Þreytt og brotið björgunarsveitafólk í Grindavík

Eins og landsmenn eru meðvitaðir um hafa eldsumbrotin á Reykjanesskaga umturnað lífi margra á svæðinu. Tímabilið er orðið langt, eldgos svo til mánaðarlegur viðburður og óvissan hefur verið mikil. Og verður eflaust áfram. Fjóla tekur undir það að hægt sé að merkja þreytu á björgunarsveitafólki en fyrst og síðast sé það fólkið sem búi á þessu svæði sem sé orðið afar þreytt.
„Við sjáum það bara mjög skýrt til dæmis á okkar fólki í björgunarsveitinni Þorbirni í Grindavík, þau eru ekki bara þreytt heldur eru þau líka brotin. Þau eru að ganga í gegnum hluti sem næstum ómögulegt er að ímynda sér. Aðrar sveitir eru kannski ekki komnar að þolmörkum sem björgunarsveitafólk en hugsanlega samfélagið í kring. Það er erfitt að ætlast til þess að vinnuveitandinn hleypi björgunarsveitamanni úr vinnu mánuðum saman. Fjölskyldan á líka erfitt með að þurfa að horfa á eftir mömmunni eða pabbanum í útköll svo vikum eða mánuðum skiptir. Við erum ekki alveg skipulögð fyrir svona. Björgunarsveitir eru með margt fólk á útkallsskrá þar sem skipulagið helgast af því að þegar daglegt viðbragð þrýtur getum við komið inn og brugðist við þegar á þarf að halda. Þetta eru þá einangruð tilvik, yfir stuttan tíma og svo snýr fólk til baka í sína vinnu, verkefni og skyldur. Það er eitthvað sem við erum ekki endilega að sjá núna. Enginn veit hvenær von er á næsta gosi eða hvar það mun koma upp.“

Komum saman og göngum beint í okkar verk

Þegar stór útköll eða verkefni yfir lengri tíma koma upp kemur björgunarsveitafólk hvaðanæva að af landinu til að leggja hönd á plóg. Fjóla segir að í þessu megi glöggt sjá skipulag björgunarsveita Landsbjargar í verki. „Þetta er eitt af því fallega við starfið. Hvernig við komum saman þar sem þörf er á, höfum unnið eftir sömu ferlum, komum allsstaðar að og göngum beint í okkar verk. Það vinna allir eftir sama skipulagi og það er ótrúlega flott hvernig þetta virkar allt saman eins og smurð vél. Mér er það sérstaklega minnisstætt úr fyrsta útkallinu mínu því þá sá ég svo greinilega hvernig þetta virkar og það situr alltaf svolítið með mér. Þetta var í september og það kom mikill veðurhvellur fyrir norðan þar sem fjöldi kinda grófst í snjó. Þá fórum við nokkuð mörg úr Reykjavík norður og unnum í hópi með björgunarsveitafólki frá Ísafirði. Að upplifa þetta, hvernig við gengum inn í verkefnið og unnum eftir sama skipulagi, það var alveg magnað.“

Fjöldi útkalla björgunarsveita landsins eykst jafnan yfir sumartímann og verkefnin taka á sig aðra mynd. Fjóla útskýrir að þá mæði ef til vill meira á sjálfboðaliðum með ákveðna sérhæfingu, svo sem fjallabjörgun eða verkefnum þeim tengdum. Hún segir sjálfboðaliða björgunarsveitanna vera reiðubúna fyrir komandi verkefni og tilfinninguna fyrir næstu misserum góða.
„Þarna er þó fín lína. Verkefnin fyrir fólk eru til staðar, það er hluti af því að vera í björgunarsveit, en ef þau verða of mörg eða einhæf þá fer þetta að vera spurning um hvar þjálfun björgunarsveitafólksins nýtist best. Að sinna bílastæðagæslu er til dæmis eitthvað sem hægt er að ráða fólk í að gera því björgunarsveitafólk getur átt erfitt með að biðja endurtekið um frí í sinni vinnu til að sinna ósérhæfðum verkefnum. "Auðvitað viljum við ekki að neitt slæmt gerist en hluti af því að vera í björgunarsveit er að fara í útköll og viðhalda þjálfuninni sinni og þekkingu með því að nýta hana til að leysa verkefnin.“

"Auðvitað viljum við ekki að neitt slæmt gerist en hluti af því að vera í björgunarsveit er að fara í útköll og viðhalda þjálfuninni sinni og þekkingu með því að nýta hana til að leysa verkefnin.“

„Það skiptir okkur öllu máli að Bakverðir séu til staðar fyrir okkur. Að hafa þennan velvilja og stuðning fólksins í landinu er ómetanlegt. Þarna erum viðí sjálfboðavinnu og til þess að við getum farið út og bjargað fólki, viðhaldið skipulagi og þjálfun, þá þurfum við að geta fjármagnað búnaðinn, námskeiðin og þetta allt saman. Það væri engin leið fyrir okkur að gera þetta nema fyrir stuðning frá Bakvörðum og fólkinu í landinu. Á sama tíma erum við alltaf tilbúin þegar kallið kemur,“ bætir Fjóla við. Hún segist horfa jákvæðum augum á framtíðina þrátt fyrir að við stefnum inn í áframhaldandi óvissutíma. „Við horfum björt fram á veginn og höldum áfram að gera allt sem við getum. Það þýðir ekkert annað.“

Takk fyrir að lesa söguna

Höldum áfram að gera allt sem við getum

Höldum áfram að gera allt sem við getum

N64° 9' 13" W-21° 56' 58"

Eftirminnilegasta útkallið mitt

N64° 19' 7" W-22° 4' 51"

Þjálfun björgunarsveitarfólks er mjög mikilvæg