Hugurinn leitaði frekar til hafs en fjalla

Vestfirðir

Þrettán ára gamall hélt Ómar Örn Sigmundsson í fyrstu launuðu sjóferðina á beitukóngsveiðar í Breiðafirði. Eftir það varð ekki aftur snúið og allar götur síðan hefur hann lifað og hrærst á sjó. Auk þess að vera sjómaður á togaranum Páli Pálssyni ÍS 102 er Ómar yfirleiðbeinandi í Björgunarskóla Slysavarnafélagsins Landsbjargar á sviði sjóbjörgunar.

„Bróðir minn var í Björgunarsveitinni Tindum í Hnífsdal. Ég man eftir því að hafa vaknað við hann að græja sig snemma morguns árið 1995 þegar snjóflóðið féll fyrir vestan og hvað mér fannst þetta spennandi og aðdáunarvert að til væru menn sem æða út í hvað sem er til að aðstoða náungann. Um leið og ég hafði aldur til var ég mættur í unglingastarfið og síðan eru kominn 25 ár.“

Ómar segir þróunina frá unglingastarfinu og yfir í að verða yfirleiðbeinandi hjá Björgunarskólanum hafa gerst nokkuð náttúrulega. Hann segir sama eiga við um sig og flest björgunarsveitarfólk á landsbyggðinni – að vera nokkuð úrræðagóður í flestu sem upp getur komið.

„Ég fann það samt fljótt að hugur minn leitaði frekar til hafs en fjalla og hef þess vegna reynt að sérhæfa mig í sjóbjörgun með því að sækja mér þekkingu og reynslu sem bæði kemur í gegnum starfið í björgunarsveit og sem atvinnusjómaður.“

Bóklegt og verklegt

„Ég hef starfað í nefndum á vegum Landsbjargar sem vinna að auknu öryggi okkar fólks í sjótengdum verkefnum en árið 2013 byrjaði ég svo að leiðbeina í Björgunarskólanum. Eitt leiddi af öðru og áhuginn og reynslan leiddu mig loks í stöðu yfirleiðbeinanda björgunarskipa hjá Landsbjörg. Námskeiðin sem við höldum fyrir áhafnirnar okkar á björgunarskipunum eru byggð á bóklegum fyrirlestri þar sem leiðbeinandinn fer yfir efni með gagnlegum fróðleik. Þar kennir ýmissa grasa, allt frá því hvernig skal tryggja öryggi um borð, helstu hættur í skipinu, leitarferla, slökkvistörf og hvernig skal nota þann búnað sem við höfum um borð til leitar og björgunar. Umræður um námsefnið í kjölfarið eru líka mjög gagnlegar og mikilvægar, hvers vegna hlutirnir eru svona en ekki hinsegin. Hinn hlutinn byggist á verklegum æfingum. Þá er skipinu siglt, stjórntök æfð og tól og tæki um borð brúkuð undir handleiðslu leiðbeinenda. Það geta verið brunadælur, lensidælur og björgvinsbelti. Auk þess æfum við líka svokallaða leitarferla en það eru ákveðin kerfi sem við notum til að leita með skipulögðum hætti. Efnistök námskeiðanna eru samkvæmt alþjóðastöðlum og eru í stanslausri endurskoðun með tilliti til nýjunga.“

Heimavinnan situr oft á hakanum

Banaslysum á sjó hefur fækkað verulega undanfarna áratugi. Slysavarnaskóli sjómanna á ríkan þátt í því, en hann var stofnaður árið 1985 og er í eigu Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Skólann sækja sjómenn og aðrir í haftengdri starfsemi og fá fræðslu um slysavarnir og viðbrögð við þeim hættum sem geta skapast á sjó. Starfsemin fer að mestu leyti fram í skólaskipinu Sæbjörgu. Ómar segir viðhorf sinna félaga til slysavarnaskólans mjög gott og að menn átti sig á að það að setjast á skólabekk endrum og sinnum sé nauðsynlegt til að skerpa á öryggisþáttum. Öll öryggisvitund þeirra sem starfa á sjó sé mun meiri eftir námskeið í Slysavarnaskóla sjómanna.“

„Ég finn það líka að yngri sjómenn sem alast upp við að þetta sé hluti af starfinu, að skottast á námskeið á 5 ára fresti, eru jákvæðari í garð skólans en þeir sem eldri eru,“ segir Ómar en bætir því við að einna helst sé það heimavinnan, að halda skipulagða æfingu einu sinni í mánuði, sem vilji sitja á hakanum. „Ég veit að margir skipstjórar og útgerðir eru með þetta upp á 10.5 en því miður ekki allir.“

Öflugari áhafnir björgunarskipanna

Ómar segir þá grunnþekkingu sem áhafnir björgunarskipanna fái á námskeiðum Björgunarskólans og reglulegar æfingar í ýmsum aðstæðum búi einfaldlega til öflugari áhafnir fyrir björgunarskipin okkar.


„Ég hef blessunarlega verið laus við alvarleg slys eða atvik á atvinnusjómanssferlinum en það sem ég er afar stoltur af sjálfur er að hafa lagt mitt af mörkum sem leiðbeinandi í Björgunarskólanum með að heil áhöfn gangi nú til sinna starfa með persónulegan öryggisbúnað, hjálm og björgunarvesti og þyki það jafn sjálfsagt og að vera spenntur í öryggisbelti í umferðinni. Það skiptir gríðarlega miklu máli að halda úti öflugu sjóbjörgunarsviði Björgunarskólans. Slysavarnarfélag Íslands var stofnað 1918 og þeirra helstu og einu verkefni fyrstu áratugina var að koma í veg fyrir skipsskaða og gera áætlun um hvernig skuli bregðast við slysum á sjó. Íslendingar eru enn mikil fiskveiðiþjóð og við lendum ennþá í vandræðum og óhöppum, þó svo að umræðan um ferðamenn í vandræðum rati kannski oftar í fjölmiðla.“

„Forsenda þess að hægt sé að halda úti öflugu starfi björgunarsveita er stuðningur almennings. Sama hvort það eru flugeldakaup, kaup á Neyðarkalli eða mánaðarlegur stuðningur Bakvarðanna sem eru einn mikilvægasti hlekkurinn í keðjunni okkar, það er ekkert flóknara en það. Það bera ekki allar hetjur skikkjur en með traustum stuðningi þeirra þá náum við að halda úti öflugum björgunarsveitum, bátum og skipum og vel þjálfuðu fólki til að bregðast við þegar kallið kemur.“

Takk fyrir að lesa söguna

Hugurinn leitaði frekar til hafs en fjalla

Hugurinn leitaði frekar til hafs en fjalla

Höldum áfram að gera allt sem við getum

N64° 9' 13" W-21° 56' 58"

Eftirminnilegasta útkallið mitt