Lokað, fór í útkall

Suðurland

Baldvin Guðlaugsson, rakari á Höfn í Hornafirði hefur þurft að skilja menn eftir í stólnum þegar útkall berst.

Ég er alinn upp hérna á Hornafirði til 19 ára aldurs og gekk strax 14 ára gamall í Unglingadeild Björgunarfélagsins hér. Eiginlega má segja að strax þá hafi þetta verið ráðið. Ég þróaðist áfram í björgunarstarfinu þegar ég flutti í bæinn í nám, gekk í björgunarsveitina Ingólf og síðan í Ársæl. Ég flutti til Danmerkur og bjó þar í 10 ár en þegar ég fluttist aftur heim á Hornafjörð, kviknaði bakterían á ný og ég fór strax að starfa með Björgunarfélaginu og hef verið virkur félagi síðan. Þetta virtist vera ólæknandi baktería og er fyrir mér einfaldlega lífsstíll, sem ég legg mig allan í.

Er munur á því að vera í stórri björgunarsveit í Reykjavík eða í sveit á landsbyggðinni?

Já, ég held að það sé talsverður munur. Aðallega sá, að úti á landi er mun meiri fjölbreytileiki. Hérna erum við ekki með greinileg og afmörkuð sérsvið eins og í bænum, við búum einfaldlega ekki við þann lúxus. Við þurfum að fara í öll þau verkefni og taka alla þá hatta sem þarf hverju sinni, fara í hvaða útkall sem er, sama hvort það er að hoppa í bátinn okkar og út á sjó, rjúka á vélsleða upp á jökul, t.d. í Grímsvötnin eða fara í skyndihjálparverkefni eins og t.d. bílslys á vegunum, sem er algengt. Við vinnum öll almenn björgunarstörf eins og björgunarsveitarfólk á landsbyggðinni þekkir. Eins og allir vita þá erum við í mikilli nálægð við Vatnajökul sjálfan, þetta gríðarstóra og hættulega landflæmi en gott aðgengi er á jökulinn hérna upp

Skálafellsjökulinn sem er á suðausturhorni Vatnajökuls í nálægð við Höfn. Við í björgunarsveitinni gjörþekkjum Vatnajökul og við fáum eiginlega öll útköll sem eru á hann og þau eru algeng. Þannig má segja að Vatnajökull sé nokkurs konar sérsvið okkar. Í þessu samhengi má nefna útkall fyrir skemmstu inn á Síðujökul, vestast á Vatnajökli sem í raun er ágætis leið, en í þessu útkalli þurftum við að fara fyrst inn í Grímsvötn á miðjum Vatnajökli og þaðan niður á Síðujökulinn, sem er alveg 3ja tíma ferð í þetta verkefni og var reyndar til að bjarga illa búnum ferðamanni á strigaskóm, verkefni sem tókst vel. Ég er t.d. ekki viss um að fólk geri sér grein fyrir því að við hérna á Höfn erum sennilega fljótust allra að komast í Kverkfjöll. Héðan frá Höfn er stysta leiðin þangað en það eru ekki nema um 80 kílómetrar að sunnan frá Jöklaseli við Skálafellsjökul þvert yfir Vatnajökulinn í Kverkfjöll en 55 km eru frá Höfn að Jöklaseli.

Við teljum okkur vera með góða alhliða þekkingu og hæfni til ferða á Vatnajökul og að við getum leyst flest verkefni sem koma upp. Við þekkjum okkar leiðir til verkefna þar en vissulega gæti þurft að koma að jöklinum frá mörgum stöðum og staðháttaþekking því mikilvæg en jökullinn er flókinn og bera þarf virðingu fyrir honum. Það er margs að gæta þarna, t.d. leiðarval, vistamál, tímasetn- ingar, fjarskiptamál o.fl.

Hjálpaðu okkur að bjarga mannslífum

Með því að gerast Bakvörður gerir þú okkur kleift að endurnýja lífsnauðsynlegan tækjabúnað og stuðla að öflugri þjálfun sjálfboðaliða.

Hvað með fjölskyldulíf og atvinnu? Hvernig gengur að aðlaga þau mál að miklu starfi í björgunarsveit?


Gengur bara fínt! Þess ber nú fyrst að geta að ég kynntist nú konunni minni þegar við vorum í námi í Reykjavík og bæði í björgunarsveitunum þar sem við hittumst, svo hún skilur þetta vel. Hún er læknir og starfar hérna á Hornafirði, er virk í björgunarsveitinni okkar svo hún er alveg með í þessu. Og strákarnir okkar, unglingastarfið í sveitinni bíður þeirra, svo öll fjölskyldan er og verður í þessu, þetta er eiginlega lífsstíllinn okkar.

Varðandi atvinnumálin, þá er ég í fullum rekstri með mína eigin litlu rakarastofu. Ég lærði líka til sjúkraflutninga og hef full réttindi sem sjúkraflutningamaður og gríp auk þess oft afleysingavaktir sem héraðslögreglumaður eða sveitalögga. Þannig að þú sérð að það er alltaf eitthvað að ske. Konan á læknavaktinni, ég á sjúkrabílavaktinni og ef ekki eru æfingar, þá eru oft alls konar stúss í sambandi við björgunarmálin. Ég segi það ekki, að rakarastarfið hefur stundum liðið fyrir og ég hef einstaka sinnum þurft að hlaupa skyndilega frá stólnum. Þá er sett bara skiltið mitt góða „LOKAÐ fór í útkall“ á hurðina. En ég mæti miklum skilningi kúnnanna fyrir vikið. Málið er, að á litlum stöðum eins og Hornafirði held ég að samfélagið sé þéttara og skilningur meiri en kannski t.d. í Reykjavík. Svo eru rakara- stofur alltaf rakarastofur og uppspretta góðra frétta og sagna. Þá eru menn í rakarastólnum kannski líka spenntir að heyra ef maður getur sagt góða ferðasögu eftir slíka leiðangra eða leitir.

Þegar upp er staðið, þá sér maður að allt spilar þetta saman og það er bara skemmtilegt. Og þá erum við aftur komnir að muninum á því að vera í björgunarsveit á landsbyggðinni eða t.d. á suðvesturhorninu. Í svona samfélagi eins og hér á Hornafirði er starf björgunarsveitanna afar mikilvægt, eiginlega alveg bráðnauðsynlegt og erfitt að hugsa sér bæjarlífið án þeirrar þjónustu. Nú er ég ekki að segja að við séum pínd í þetta, heldur höfum við mikla ánægju af því að sinna ákveðinni samfélagslegri þörf og beinum áhugasviði okkar og tómstundum í þá átt.

  Baldvin Guðlaugsson

“Það eru 100 km í austur á Djúpavog og 200 km í vestur á Kirkjubæjarklaustur.”

Björgunarfélag Hornafjarðar

Viðbragðsaðilar hér, við í Björgunarfélagi Hornafjarðar, löggan, sjúkraflutningarnir, slökkviliðið og heilsugæslan erum með mjög gott samstarf og samráð í okkar störfum. Við hittumst einu sinni í mánuði og skiptumst á æfingum út frá sérsviði hvers og eins. Þetta gefur okkur góða innsýn og skilning á störfum hvers annars, þannig búum við til eina samstillta vél og getum betur aðstoðað hvert annað, t.d. á vettvangi. Svona fyrirkomulag er nauðsynlegt einmitt vegna þess að langt getur verið í næstu bjargir. Vegalengdir milli staða hér eru miklar og er það ein sér- staða okkar hér á Hornafirði.

Það eru 100 km í austur á Djúpavog og 200 km í vestur á Kirkjubæjarklaustur. Þetta er viss einangrun sem við mætum þannig að björgunar- sveitir staðanna, við hér á Höfn, Káramenn í Öræfunum og Báran á Djúpavogi erum öll í góðu samstarfi og erum til staðar ef á þarf að halda, t.d. í hugsanlegu stórslysi eða náttúruvá. Enda leitum við mikið hvert til annars í mörgum tilvikum, t.d. eru þau í Bárunni mjög klár og vel útbúin í drónamálum sem kemur sér oft vel.

Björgunarsveitin okkar, Björgunarfélag Hornafjarðar, er lítil sveit með risastórt umdæmi. Á útkallslista okkar eru aðeins 45 manns sem sinna að sjálfsögðu öllum útköllum, hvort sem er á landi, sjó eða jökli. Stjórnstöð Almanna- varna svæðisins er staðsett í björgunarstöð Björgunar- félagsins og mönnum við hana jafnframt, þannig að okkar hlutur í málaflokknum er umtalsverður.

  Baldvin Guðlaugsson
  Höfn í Hornafirði

Takk fyrir að lesa söguna

Lokað, fór í útkall
 • Staðsetning
  Höfn i Hornafirði
 • Dagsetning
  03.10.2018
 • Ljósmyndir
  Sigurður Ólafur Sigurðsson
 • Texti
  Haukur Haraldsson

Höldum áfram að gera allt sem við getum

N64° 9' 13" W-21° 56' 58"

Eftirminnilegasta útkallið mitt

N64° 19' 7" W-22° 4' 51"

Þjálfun björgunarsveitarfólks er mjög mikilvæg