Margir standa að baki hverjum björgunarsveitamanni

Nokkuð hefðbundinn mánudagsmorgunn átti eftir að taka á sig óvænta mynd fyrir Rögnu Sif Árnadóttur, björgunarsveitakonu. Nóttina áður hafði geysistór jarðskjálfti riðið yfir suðurhluta Tyrklands við landamæri Sýrlands. Ljóst var að hamfarirnar voru gríðarlegar og að mikill fjöldi fólks hafði týnt lífi eða slasast. Viðbragðsskipulag alþjóða rústabjörgunarsveita virkjaði neyðaráætlun sína þegar í stað og ýmis lönd sendu sérfræðinga á vettvang til aðstoðar. Rúmum sólarhring síðar var Ragna lögð af stað á hamfarasvæðið ásamt tíu manna hópi Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Hún er læknir, með grunnmenntun í bráðalækningum og er sem stendur í sérfræðinámi í heimilislækningum. Að hjálpa öðrum hefur lengi verið stór hluti af hennar lífi og hún byrjaði í björgunarsveit um leið og hún hafði aldur til en hafði þar áður verið skáti frá 8 ára aldri. Áhugann á hún ekki langt að sækja en báðir foreldrar hennar eru virkir félagar í Hjálparsveit Skáta Kópavogi (HSSK). Eiginmaður hennar, bræður og mágkonur eru einnig björgunarsveitafólk. „Þetta er auðvitað ákveðinn lífsstíll,“ útskýrir Ragna og bætir við að góður félagsskapur sé óneitanlega stór hluti af því að vera í björgunarsveit.

Tíminn skiptir öllu máli

„Fyrsta skrefið, eftir að kallið kom, var að heyra í manninum mínum, Elvari Steini Þorvaldssyni, en ég vissi að það yrði töluvert álag á hann að ég færi út, þar sem við erum með þrjú ung börn og hann í vaktavinnu. Hann studdi mig algjörlega og hvatti mig heilshugar, enda er hann sjálfur rústabjörgunarmaður. Stuðningurinn frá vinnuveitendum er líka ómetanlegur því það er alls ekki sjálfgefið að geta stokkið út með sólarhrings fyrirvara og verið frá í viku.

„Það eru ansi margir sem standa að baki hverjum björgunarsveitamanni og ótal manns á bak við okkur ellefu sem fórum út.“

Það var fólk út um allt, sjúkrabílar, líkbílar, flutningabílar með hjálpargögnum og mikil þyrlutraffík í og við borgina.“

Íslenski hópurinn var á svæðinu í fimm daga en aðgerðastjórnendur voru svo úti í fimm daga til viðbótar. Hópurinn gegndi stóru hlutverki við samhæfingu björgunaraðgerða á svæðinu en fljótlega kom í ljós að eyðileggingin var geysilega mikil og þegar þetta er skrifað hafa yfir 40.000 fundist látin.

Ragna var læknir hópsins sem fór út en í krefjandi aðstæðum sem þessum skiptir miklu máli að huga að líkamlegri og andlegri velferð teymisins svo sérþekking þeirra og kunnátta nýtist sem allra best á vettvangi.


„Ekki er hægt að treysta á að fá heilbrigðisþjónustu á skaðasvæðinu og því þurfti ég að vera tilbúin ef upp kæmu veikindi eða slys hjá okkar fólki.Ég tók ákveðinn lækningabúnað með að heiman, en eftir að út var komið var ég í sambandi við nálægar erlendar sveitir sem voru með stærri hóp af heilbrigðisstarfsfólki með sér og sérhæfðari búnað. Ég var því með nokkuð skýrt plan ef eitthvað alvarlegt hefði komið upp á, en til þess kom sem betur fer ekki. Í þessum aðstæðum er svo ekki síður mikilvægt að huga að grunnþörfum hópsins, að allir borði, sofi og passi upp á andlegu hliðina. Við vorum bara með þurrmat sem er ekki sérlega lystugur en þegar álagið er mikið er enn mikilvægara að nærast. Það var sem betur fer ekki fullt starf að vera læknir í svona verkefni, þannig að ég gekk svo bara í öll verk sem þurfti að sinna ásamt öðrum í hópnum eins og búðauppsetningu, tiltekt og fleiru.


Þó ég væri mest í búðunum þá varð ég vitni að þessari miklu eyðileggingu sem er á svæðinu. Verkfræðingarnir okkar töldu að a.m.k. 90% af öllum byggingum, á svæðinu sem við vorum á, væru ónýtar. Það var fólk út um allt, sjúkrabílar, líkbílar, flutningabílar með hjálpargögnum og mikil þyrlutraffík í og við borgina. Öngþveiti, læti og ringulreið ríkti, sérstaklega fyrsta sólarhringinn, og í raun erfitt að ná utan um á hversu stórum skala þessar hamfarir voru.“


Samvinnan mikilvæg

Alþjóðabjörgunarsveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar var stofnuð 1999. Hún fór í sitt fyrsta útkall sama ár til Tyrklands eftir jarðskjálfta sem þar urðu og kostuðu meira en 18 þúsund mannlíf. Sveitin hefur jafnframt verið send á hamfarasvæði í Alsír, Marokkó, Tælandi og Indónesíu. Stærsta verkefnið sem sveitin hefur tekist á við var þegar jarðskjálftarnir urðu á Haíti janúar 2010 en þá var hún fyrsta alþjóðabjörgunarsveitin sem lenti þar. Landsbjörg hefur verið þátttakandi í þróun námskeiða fyrir aðgerðastjórnendur í rústabjörgun og er hluti af ISARAG (International Search and Rescue Advisory Group) sem vinnur meðal annars að því að efla skilvirkni og samhæfingu í alþjóðlegri aðstoð við rústabjörgun.


Ragna segir að enginn vafi sé á að íslenski hópurinn hafi gert mikið gagn í þessum erfiðu aðstæðum. Hópurinn samanstóð af fjórum aðgerðastjórnendum, tveimur verkfræðingum, tveimur búðastarfsmönnum og tveimur starfsmönnum Landhelgisgæslunnar auk hennar. Hópurinn var þéttur og öflugur og samstarf og samvinna við alþjóðlega hópa á svæðinu gekk mjög vel. „Þetta var afar stórt verkefni og þau sem eru í samhæfingarþættinum stóðu sig ótrúlega vel.

Þau eru enda mjög reynd og eftirsótt, en þau geta ekki farið út ein, þau þurfa allt teymið svo verkefnið gangi upp og það er svolítið kjarni björgunarsveitastarfsins – við vinnum saman og myndum þannig eina öfluga heild. Nú tekur við mannúðaraðstoð og uppbyggingarstarf sem eflaust á eftir að spanna mörg ár.“


Hún er svo til nýlent og strax komin á fullt í íslenskum hversdagsleika. Kom til landsins á þriðjudegi og var mætt til vinnu á miðvikudagsmorgni. „Ég hef það svo sem bara fínt,“ segir Ragna og bætir við að hún gæti alveg hugsað sér að fara aftur í slíka ferð ef þörf er á.

Sérþekking íslensku björgunarsveitanna kemur ekki bara til vegna þeirrar staðreyndar að þær eru byggðar upp af sjálfboðaliðum sem gegna öðrum störfum í þjóðfélaginu og taka með sér þekkingu frá ólíkum starfsvettvöngum. Björgunarsveitafólk sækir ótal námskeið og viðar að sér nýrri þekkingu auk þess að viðhalda ýmsum grundvallarþáttum sem snúa að hlutverki þeirra innan sveitanna. Í flóknum og krefjandi aðstæðum sem oft eru óvæntar eða geta snúist á annan veg á svipstundu skiptir reynsla, áræðni og samheldni miklu máli og er oftar en ekki lykillinn að farsælli útkomu. Í því samhengi minnir Ragna á mikilvægi björgunarsveitanna hér heima og það hversu stóru hlutverki þær gegna á mörgum sviðum samfélagsins.

„Í aðstæðum eins og þarna úti varð líka svo ljóst hvernig fulltrúar björgunarsveita hér á landi koma að miklu gagni og þannig leggjum við einnig okkar af mörkum til alþjóðasamfélagsins. Það væri erfitt fyrir okkur að vera án björgunarsveitanna og þess vegna stólum við á fólkið í landinu svo við getum verið til staðar og þau geti stólað á okkur.“

Takk fyrir að lesa söguna

Margir standa að baki hverjum björgunarsveitamanni

Höldum áfram að gera allt sem við getum

N64° 9' 13" W-21° 56' 58"

Eftirminnilegasta útkallið mitt

N64° 19' 7" W-22° 4' 51"

Þjálfun björgunarsveitarfólks er mjög mikilvæg