Eflum sjóbjörgunargetu björgunarsveita á Flateyri og Húsavík

Vestfirðir

Með kaupum á nýjum björgunarbátum tryggjum við öryggi íbúa og sjófarenda.

Dómsmálaráðuneytið leggur Slysavarnafélaginu Landsbjörg til 115 milljóna króna styrk til eflingar á sjóbjörgunargetu björgunarsveita á Flateyri og Húsavík.

Styrknum verður skipt þannig að 76,5 m. kr. er veitt til kaupa á björgunarbát á Flateyri og 38,5 m. kr. er veitt í kaup á björgunarbát á Húsavík. Þetta er gert með hliðsjón af fenginni reynslu og þarfagreiningu á staðsetningu björgunarskipa og báta. Markmiði er efling á sjóbjörgunargetu á miðunum við landið en einning að tryggja öryggi íbúa á Flateyri við þær aðstæður sem geta skapast vegna ofanflóðarhættu.

Bátarnir verða af gerðinni Rafnar 1100 PRO SAR og eru framleiddir af samnefndu íslensku fyrirtæki. Slysavarnafélagið Landsbjörg er eigandi tveggja báta af sömu gerð og hefur reynslan af þeim verið afar góð, sérstaklega er varðar sjóhæfni. Vonir standa til að bátarnir verði afhentir fyrir áramót.

Snjóflóðahætta á Flateyri

Í snjóflóðunum á Flateyri í ársbyrjun 2020 voru engar leiðir færar til sjúkra- eða aðfangaflutninga nema sjóleiðina inn Önundarfjörð. Með því að staðsetja björgunarbát á Flateyri verður hægt að sigla með sjúklinga eða aðföng inn og út Önundarfjörð. Þá verður björgunarbáturinn geymdur á landi á milli útkalla og æfinga og er þar með öruggur fyrir frekari snjóflóðaáföllum sem kunna að hafa áhrif á höfnina á Flateyri. Eins og gerðist þegar flóðið féll og margir bátar eyðilögðust.

Auknar siglingar á Skjálfanda

Í niðurstöðum skýrslu vinnuhóps um staðsetningu björgunarskipa Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá 2017 segir að leita verði allra leiða til að auka viðbragð á Skjálfanda með hraðskreiðu björgunarskipi eða bát sem staðsett yrði á Húsavík. Mikil umferð farþegabáta sé um Skjálfanda þar sem stærri skip hafa farþegaleyfi fyrir um 100 manns í senn. Björgunarbátur á Húsavík þurfi að geta bjargað sem nemur þeim fjölda sem er leyfilegt hámark hjá þeim farþegabátum sem gera þaðan út. Þá þyrfti björgunarbáturinn að vera það öflugur að hann geti dregið vélarvana fley.

Björgunarbátarnir verða eign Slysavarnafélagsins Landsbjargar en félagið gerir samninga um afnot björgunarbátanna við björgunarsveitirnar Sæbjörg á Flateyri og Garðar á Húsavík. Landsbjörg skuldbindur sig til þess að tryggja staðsetningu björgunarbátsins á Flateyri í a.m.k. 15 ár eða þar til fullnægjandi snjóflóðavörnum hefur verið komið fyrir og samgöngur til og frá Flateyri teljast viðunandi samanborið við aðra staði á Vestfjörðum. Slysavarnafélagið Landsbjörg skal reglulega meta þörfina á staðsetningu björgunarskipa og báta við Ísland.

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra: “Það er mikilvægt að björgunarsveitir landið um kring hafi yfir að ráða öflugum björgunarskipum og bátum því þörfin á betra viðbragði eykst með breyttum atvinnuháttum og aukningu á farþegaflutningum, eins og við sjáum við Skjálfanda, og tómstundaiðkun á sjó. Fyrir Flateyringa er þetta sérstaklega mikilvægt öryggistæki því við höfum séð hvernig lokast hefur fyrir samgöngur á landi þegar hættuástand hefur skapast. Þetta er því mikilvægur áfangi og fagnaðarefni að geta áfram treysta á öflugt og gott samstarf við Landsbjörg og björgunarsveitir landsins í þessum mikilvægu öryggismálum.”

Kristján Þór Harðarson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar

„Það er ánægjulegt að finna það traust sem borið er til félagsins til að tryggja öryggi íbúa og sjófarenda á þessum svæðum. Til að tryggja mikla björgunargetu þarf öflug tæki og vel þjálfaðan mannskap. Það er vart á færi minni björgunarsveita að standa undir kostnaði við slíkt án aðstoðar frá almenningi og ríkinu. Þess vegna skiptir félagið miklu máli að fá þennan styrk til að geta keypt ný öflug sjóbjörgunartæki sem tryggja hratt viðbragð og aukið öryggi á Flateyri og Húsavík.“

Takk fyrir að lesa söguna

Eflum sjóbjörgunargetu björgunarsveita á Flateyri og Húsavík

Höldum áfram að gera allt sem við getum

N64° 9' 13" W-21° 56' 58"

Eftirminnilegasta útkallið mitt

N64° 19' 7" W-22° 4' 51"

Þjálfun björgunarsveitarfólks er mjög mikilvæg