Sjálfboðavinna í sumarfríinu

Höfuðborgarsvæðið

Tuttugu ár eru liðin síðan Anna Filbert gekk til liðs við björgunarsveitina Kjöl á Kjalarnesi

Húsfyllir var á fundinum þar sem björgunarsveitin Kjölur tók aftur til starfa og þar var Anna stödd. „Ég ætlaði bara að vera styrktarfélagi til að byrja með en fljótlega dróst ég inn og það var ekki aftur snúið. Ég var heimavinnandi á þessum tíma og þarna var komið öflugt og skemmtilegt starf sem ég var afskaplega ánægð að geta tekið þátt í. Þetta er mjög gefandi og ég hef svo sannarlega fengið jafn mikið til baka og ég hef lagt í starfið með björgunarsveitinni,“ segir Anna. Oftar en ekki eru fleiri fjölskyldumeðlimir hluti af björgunarsveitum eða tengd starfinu og það á við um elsta son Önnu sem einnig er miðlimur í Kili ásamt því að vera sjúkraflutninga- og slökkviliðsmaður. Eiginmaður Önnu, Theódór Theódórsson, hefur auk þess séð um korta- og tölvumál sveitarinnar í gegnum árin svo sveitin hefur notið góðs stuðnings frá heimilinu.

Sumarvakt á hálendinu

Starf í björgunarsveitum verður oftar en ekki ákveðinn lífsstíll þar sem föst verkefni eiga sinn sess á hverju ári. Á hverju sumri heldur fjöldi sjálfboðaliða upp á hálendið og er þar til staðar ef óhöpp eða slys verða hjá þeim fjölmörgu sem þar eiga leið um. Frá sumarbyrjun og fram til loka ágústmánaðar má finna hópa björgunarfólks að Fjallabaki, á Sprengisandi, í Skaftafelli og á svæðinu norðan Vatnajökuls. Anna er ein af þessum sjálfboðaliðum en á hverju sumri frá 2008 hefur hún varið 2-3 vikum á Hálendisvaktinni, ýmist með Kili eða öðrum björgunarsveitum. Hálendisvaktin er því orðinn fastur hluti af sumrinu en síðustu ár hafa þúsundir útivistar- og ferðamanna notið aðstoðar frá sjálfboðaliðum björgunarsveitanna á hálendinu.

Vaktirnar, útköllin og verkefnin eru orðin mörg á síðustu tveimur áratugum. Aðspurð segist Anna þó ekki geta í fljótu bragði nefnt eitt öðru fremur sem það skemmtilegasta við að vera í björgunarsveit. „Það er bara svo margt. Félagsskapurinn er ómetanlegur hluti af þessu og þarna er mikill og góður vinahópur. Stemningin sem myndast þegar fleira björgunarsveitafólk kemur saman er líka einstök. Við ferðumst og sækjum ýmis námskeið og það skiptir ekki máli hvaðan af landinu fólk er því við erum svolítið eins og ein fjölskylda. Ég hef aldrei fundið fyrir einhverju kynslóða- eða kynjabili. Við deilum auðvitað áhuganum á þessu starfi, erum úr öllum áttum en mörg með svipaðan bakgrunn. Að kynnast nýju fólki er auðvelt í þessum félagsskap og það er gaman að sjá og kynna sér hvað aðrir sveitir eru að fást við. Verkefnin geta verið ólík eftir því hvar við erum staðsett á landinu en öll vinnum við að sama markmiði.“

"Svo er það líka þetta óvænta, þessi spenna að vita aldrei hvað gæti gerst á þinni vakt. Sérstaklega á hálendisvaktinni og gosvaktinni,“

Spennan um hið óvænta
Hún segir verkefnin oft vera krefjandi en áhugaverð og skemmtileg á sama tíma. „Svo er það líka þetta óvænta, þessi spenna að vita aldrei hvað gæti gerst á þinni vakt. Sérstaklega á hálendisvaktinni og gosvaktinni,“ bætir hún við. Anna var hluti af vettvangsstjórn í Grindavík á gosvaktinni á Reykjanesi nú fyrir skemmstu og sinnti einnig eftirliti og gæslu við gosstöðvarnar árið 2021. Aðgerðastjórnin í slíku verkefni fela meira í sér að skrá og halda utan um aðgerðir yfir daginn og geta brugðist við skjótt ef verkefni á vettvangi stækka og geta þá kallað eftir frekari aðstoð. „Nokkur útköll hafa að sjálfsögðu verið erfiðari en önnur. Það á til dæmis við um alvarleg slys og langvarandi og erfiðar leitir þar sem viðkomandi finnst ekki. En þetta er eins og ég segi mjög fjölbreytt starf og öll flóran. Svo veit maður sjaldnast hvað getur komið upp.“

Takk fyrir að lesa söguna

Sjálfboðavinna í sumarfríinu

Höldum áfram að gera allt sem við getum

N64° 9' 13" W-21° 56' 58"

Eftirminnilegasta útkallið mitt

N64° 19' 7" W-22° 4' 51"

Þjálfun björgunarsveitarfólks er mjög mikilvæg