Við erum þjálfuð til að geta verið allt í öllu

Suðurnes

Þúsundir björgunarsveitafólks hafa aðstoðað göngufólk og tryggt öryggi þeirra frá upphafi eldsumbrotanna í marsmánuði.

Björgunarsveitafólk sinnir útköllum í sjálfboðavinnu sem reynir bæði á velvild og sveigjanleika vinnuveitenda. Sjálf starfar Karín Óla í sundlaug bæjarins og selur Tupperware þess á milli. Hún er 21 árs en er engu að síður reynslumikil björgunarsveitakona því 14 ára gömul gekk hún í unglingadeild sveitarinnar.

Björgunarsveitin Þorbjörn er öflug sveit sem hefur í mörg horn að líta bæði á sjó og landi. Karín segir þéttan og góðan hóp vera vel virkan í sveitinni, sem er hvað þekktust fyrir sjóbjörgun þó svo að björgunarsveitarmeðlimir séu þjálfaðir til að geta verið allt í öllu þegar á þarf að halda. Fjölmargir lögðu leið sína að gosstöðvunum, misvant og misvel útbúið göngufólk og fjöldi þeirra þurfti á aðstoð björgunarsveitafólks að halda. Við gosstöðvarnar stikaði björgunarsveitafólk gönguleiðir og sinnti ýmsum fleiri verkefnum til að gæta öryggis þeirra sem þar voru á ferð.

Strax á fyrstu dögum gossins hafði fjöldi fólks lagt leið sína að gosstöðvunum en nokkrum dögum síðar gerði vonskuveður á svæðinu. Þá var aukamannskapur björgunarsveitafólks kallaður út við að aðstoða göngufólk og voru sumir hætt komnir vegna ofkælingar. „Þetta voru vægast sagt óþægilegar aðstæður, að fjöldi fólks væri í raun týndur á ótryggu svæði í aftakaveðri. Í kjölfarið var komið skýrara skipulagi á slíkar aðstæður, meðal annars með því að biðja fólk um að setja miða á bílana sína þar sem það tók fram hve margir ferðuðust saman og hvenær fólk reiknaði með að vera komið aftur. Þetta svæði er ekki auðvelt yfirferðar. Þú skottast þetta ekki eins og ekkert sé, sérstaklega ekki ef um óvant göngufólk var að ræða.“

Slys og óhöpp algeng

Slys á fólki og óhöpp á gosstöðvunum voru töluvert algeng þegar mestur fjöldi fólks lagði leið sína í Geldingadali, mun meira en kom fram í fjölmiðlum. „Sem betur fer var ekki mikið um alvarleg slys en þó lentu margir í því að slasa sig þannig að þeir gátu ekki gengið til baka. Eina nóttina vorum við langt fram á morgun að flytja slasað fólk aftur niður. Margar ferðir fram og til baka,“ útskýrir Karín.

Að tryggja öryggi fólks við virkar gosstöðvar er ef til vill eitt af óvenjulegri verkefnum sem björgunarsveitafólk tekur að sér. En með þjálfun, þekkingu og reynslu tekst það á við slík verkefni með sameinuðu afli sterkra björgunarsveita sem allar vinna að því að tryggja öryggi fólksins í landinu.

Takk fyrir að lesa söguna

Við erum þjálfuð til að geta verið allt í öllu
S-8° 57' 28" W-122° 3' 2"

Við verðum að vinna saman til að vera hérna

N65° 3' 20" W-13° 37' 52"

EF VIÐ LENDUM Í VESENI ER ENGUM BJARGAÐ

N64° 39' 20" W-14° 16' 57"

Með hjartað á réttum stað