
Verum bjartsýn og sýnileg í skammdeginu
Slysavarnafélagið Landsbjörg, Sjóvá og Samgöngustofa taka höndum saman og gefa 70.000 endurskinsmerki um allt land. Landsmenn eru duglegir að hreyfa sig úti, sérstaklega núna í samkomubanni, og í myrkri sjást óvarðir vegfarendur (gangandi, hjólandi) illa þrátt fyrir götulýsingu og ökuljós bifreiða og notkun endurskinsmerkja því nauðsynleg.
Félagar í björgunarsveitum og slysavarnadeildum um allt land koma að dreifingunni og fylgja öllum sóttvarnareglum. Hægt var að panta merki hér og fá send í pósti.
Verum ljóslifandi í umferðinni með Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Sjóvá og Samgöngustofu.
Endurskinsmerkin eiga að vera sýnileg og er best að hafa þau á eftirfarandi stöðum:
- Fremst á ermum
- Hangandi meðfram hliðum
- Á skóm eða neðarlega á buxnaskálmum
Þá virkar endurskin eins og blikkljós þegar ljós skín á þau. Því fyrr og betur sem ökumenn greina óvarða vegfarendur þeim mun minni líkur eru á að slys verði. Það er staðreynd að ökumenn sjá óvarða vegfarendur með endurskin fimm sinnum fyrr en ella og því getur notkun endurskinsmerkja skilið milli lífs og dauða.